Frönsk tilvistarspeki, frelsi og ábyrgð
Franski heimspekingurinn og rithöfundurinn Jean-Paul Sartre (1905-1980) var einn af forgöngumönnum tilvistarspekinnar á 20. öldinni, ásamt þeim Albert Camus, Simone de Beauvoir og Maurice Merleau-Ponty. Upp úr seinni heimstyrjöld óx þessari heimspekistefnu fiskur um hrygg, raunar svo að það mátti tala um tískufyrirbrigði – og það var ekki síst vegna Sartre. Árið 1945 hélt Sartre fyrirlestur um þessa stefnu, sem hann var í forsvari fyrir, á Club Maintenant í París, þar sem hann skýrði kenningar sínar og svaraði gagnrýni. Ári síðar var efni þessa fyrirlesturs gefið út undir heitinu Tilvistarstefnan er mannhyggja (fr. L’Existentialisme est un Humanisme).