Af sýndarheimum, NFT og bálkakeðjum

NFTs eða „Non-Fungible Tokens“ eru gögn svo sem hljóðskrár eða myndir sem eru á svokölluðum „Blockchains“ , sem á íslensku hafa verið kallaðar bálkakeðjur en þær eru notaðar til þess að færa rafmyntir eða gögn milli notenda. Hægt er að ímynda sér stafræna keðju sem hefur að geyma upplýsingar. Allar færslur eru skráðar á keðjuna og eru hugmyndir um að nýta þessa tækni til þess að skrá landeignir, sjúkrasögu og ýmis vottorð . Til þess að nota keðjuna borgar maður gjald í formi rafmyntar. „Miners“ eða „grafarar“ keppast síðan um að staðfesta upplýsingarnar með öflugum tölvum með því að leysa dulkóða. Hins vegar eru til mismunandi leiðir til þess að staðfesta upplýsingarnar og þar af leiðandi geta „grafararnir“ fengið greitt á ólíkan hátt. Auðvitað er þetta flókið og mikil vísindi á bakvið þetta en grunnhugmyndin er sú að þetta eru stafrænar keðjur sem hafa að geyma upplýsingar. Færslur eru skráðar og þegar þær hafa verið skráðar er ekki hægt að breyta þeim. Þekktar keðjur eru Bitcoin, Ethereum, Binance, Tezos, Solana og margar fleiri.                                

List?

Keðjurnar eru ólíkar og með mismunandi notkun en ekki styðja allar keðjur NFT, þar á meðal þekktasta keðjan Bitcoin. Þegar keypt hefur verið NFT og kaupin skráð á keðjuna getur þú sýnt fram á eignarhald en þó ekki höfundarrétt. Nú þegar eru fyrirtæki og einstaklingar að selja NFT fyrir margar milljónir á degi hverjum. Þetta er oft tónlist, stafrænar myndir, íþróttamyndir o.s.frv. Fólk getur litið á þetta sem listgrein í þeim skilningi að margir fjárfesta í list en aftur á móti er hún til þess að njóta. Þróunin er sú að við verðum stafrænni með tímanum þá er spurning hvort að við séum að færast yfir í það að list verði hluti af þróuninni?

Sýndarheimar

Stundum fylgja fríðindi með því að kaupa NFT, þú getur orðið hluti af félagi sem á verk úr ákveðnu myndasafni t.d. Bored Ape Yacht Club þar sem ef þú átt mynd af leiðum apa þá hefur þú aðgang að vefsíðu og samfélagi. Leikir eru líka að verða vinsælli á keðjunum, líkt og Tezotopia og Decentraland. Þar er búinn til „sýndarheimur“ þar sem þú getur keypt eign eins og hús eða land og síðan sett aðra muni, sem þú hefur keypt á keðjunni, til sýnis á eigninni þinni. Þú getur búið til, skoðað og átt viðskipti í þessum sýndarveruleika. Er þetta framtíðin eða bara tískubóla sem hverfur innan nokkra ára? Miðað við hve háum fjárhæðum hefur verið eytt má reikna með því að NFT og sýndarveruleikar muni verða hluti af framtíðinni, hvort það verði í því formi sem það nú er eða öðru.

https://today.law.harvard.edu/memes-for-sale-making-sense-of-nfts/

https://www.theverge.com/22310188/nft-explainer-what-is-blockchain-crypto-art-faq

https://www.nytimes.com/2021/03/11/arts/design/what-is-an-nft.html