Kaffidrykkja já eða nei?

Kaffi er drykkur sem líklegast þarf ekki að kynna ítarlega þar sem fjöldinn allur af fólki byrjar, og jafnvel endar daga sína á honum. Kaffi á rætur sínar að rekja til Afríku og er í dag í hópi vinsælustu drykkja heims, ásamt tei og vatni. Þar að auki er kaffi ein gróðavænlegasta neysluvara heims. Vinsældir kaffis tengjast þó að talsverðu leyti þeirri orkugjöf sem er álitin ein af helstu áhrifum drykkjarins, þar sem efnablöndurnar koffín og beiskjuefni eru fremstar í flokki. Almennt er hin hefðbundni kaffibolli talinn innihalda um það bil 100 milligrömm af koffíni en styrkurinn getur þó að sjálfsögðu breyst eftir uppáhellingunni. Til samanburðar má nefna að flestir tebollar innihalda einungis um það bil 40 milligrömm af koffíni. 

                                                                                         

Þegar kastljósinu er sérstaklega beint að kaffineyslu kemur fjöldinn allur af rannsóknum, sem birtar hafa verið á seinustu árum, upp á yfirborðið. Til að mynda er álitið að nú til dags drekki um það bil 30% til 40% íbúa heimsins kaffi daglega. Hlutfallið eykst allverulega í tilfellum einstakra landa eins og til dæmis í Bandaríkjunum, þar sem hlutfall þeirra íbúa sem teljast til daglegra kaffineytenda er um 65%. Þegar horft er sérstaklega til háskólanema og löngun þeirra í bollann góða, hafa rannsóknir víðsvegar um heim einnig leitt eitt og annað í ljós. Meðal annars sýndu niðurstöður rannsóknar sem birtist í National Library of Medicine að um 92% háskólanema sötri á kaffi á einhverjum tímapunkti og jafnframt sögðust 79% þeirra nýta sér koffín í þeim tilgangi að halda sér vakandi.

Við lestur fræðirannsókna og tölulegra upplýsinga á borð við þessar reikar hugurinn gjarnan að því hvort mannfólkið geti hreinlega verið að innbyrða of mikið af koffíni og ekki síður hverjar afleiðingarnar af slíkri neyslu geta orðið. Niðurstöður rannsókna á afleiðingum ofneyslu á kaffi, eða öllu heldur koffíni, sýna að slíkt getur orsakað mikla þreytu, minnistap, skerta einbeitingu, skapsveiflur og jafnframt aukið stress og kvíða. Engu að síður er það svo að einstaklingum er á tíðum ráðlagt að drekka kaffi þar sem áhrif þess eru oftar en ekki talin heilsueflandi frekar en skaðleg. Til eru heimildir fyrir því að koffínneysla í hófi er talin geta stuðlað að aukinni einbeitingu, árvekni, bættu skapi, bættri meltingu og meltingarvirkni, sem og lægri sjálfsvígshættu og færri þunglyndiseinkennum.

Með þessar upplýsingar í huga virðist því kaffi hafa ólík áhrif eftir magni og styrkleika þess. Almennt er þó horft á koffínneyslu sem fremur skaðlaust atferli og því að öllum líkindum tilvalið fyrir háskólanemendur, sem og aðra, að leyfa sér einn eða tvo kaffibolla á dag. Það er því kannski um að gera að drífa sig rakleiðis í Hámu þegar færi gefst og njóta sopans. Að sjálfsögðu er þó gott að hafa í huga að allt er gott í hófi.

https://coffee-rank.com/world-coffee-consumption-statistics/#:~:text=Coffee%20consumption%20statistics%20show%20that,65%25%20of%20the%20total%20population.

https://www.britannica.com/topic/coffee

https://tsl.news/be-aware-of-coffee-reliance/#:~:text=According%20to%20a%20study%20published,use%20caffeine%20to%20stay%20awake.

https://www.indiatoday.in/education-today/featurephilia/story/caffeine-college-students-a-harmful-relationship-1572264-2019-07-22

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC8099008/