Játning bókaorms
Ég hef alltaf verið mikill lestrarhestur, alveg síðan ég man eftir mér. Bókasafnið var minn griðastaður sem barn. Ég vildi heldur eyða tíma mínum þar og gleyma mér í ævintýraheimum bókanna heldur en til dæmis að reyna að kynnast öðrum krökkum á leikvellinum. Ég var aldrei neitt sérstaklega góð í mannlegum samskiptum hvort eð er og persónurnar í bókunum sem ég las kröfðust þess jafnframt ekki af mér. Þegar ég var 11 ára gömul var ég búin að lesa allar barna- og unglingabækurnar á bókasafninu og snéri mér þá að fullorðins bókmenntum og urðu erótískar ástarsögur Barböru Cartland fyrstar fyrir valinu og opnuðu þær bækur mér innsýn inn í nýjan heim, heim hinna fullorðnu. Í kjölfarið las ég svo allar bækur Isabel Allende og þá var ekki aftur snúið. Ég fór að lesa allar týpur bókmennta sem ég kom höndum yfir og heimur bókanna stækkaði ört fyrir mér, enda er ég og verð alltaf alæta á bókmenntir. Ég elska einfaldlega að lesa.