Bókatíðindi 2019 – fyrirboði jólanna

Kristín Arna Jónsdóttir

Ár hvert í nóvembermánuði rata Bókatíðindi inn um lúgur landans. Þau ættu að vera flestum vel kunnug enda kom fyrsti vísir þeirra út árið 1928 og kallaðist þá Bókaskrá Bóksalafélagsins, segir Bryndís Loftsdóttir hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda. Hún segir að þar hafi upplýsingar í raun verið með líkum hætti og nú nema að þá fylgdi ekki kápumynd. 

Í fyrsta blaðinu má lesa kynningartexta meðal annars um Skytturnar þrjár eftir Alexandre Dumas, Gráskinnu I í útgáfu Sigurðar Norðdal og Þórbergs Þórðarsonar, fimmta bindi Vesalinganna eftir Victor Hugo, Á Skipalóni eftir Jón Sveinsson, Dísu ljósálf eftir G.T. Rotman og Heilsufræði telpna, fjórtán til sextán ára eftir Kristiane Skjerve svo fátt eitt sé nefnt.

 

Bryndís Loftsdóttir

„Persónulega þá finnst mér líka gömul Bókatíðindi gefa ómetanlega sýn á tíðaranda liðinna ára“ segir Bryndís.

Aðspurð segir Bryndís tilgang Bókatíðinda vera að kynna bókaútgáfu ársins með aðgengilegum hætti til almennings. Hún segir Bókatíðindi einnig vera eftirsótt meðal Íslendinga búsettra erlendis sem og erlendra háskólabókasafna sem safna íslenskum bókum og nýtast þeim við innkaupaákvarðanir. 

„Persónulega þá finnst mér líka gömul Bókatíðindi gefa ómetanlega sýn á tíðaranda liðinna ára“ segir Bryndís.

Öllum útgefendum gefst kostur á að kynna nýjar bækur sínar gegn gjaldi í Bókatíðindum, hvort sem það eru hljóðbækur, rafbækur, endurútgefnar bækur eða prentaðar bækur. Undir kápumynd allra bóka má síðan finna tákn sem vísa til útgáfuformsins.

Bryndís segir að það sé heldur ekkert sem banni erlendum útgefendum að kaupa kynningu í Bókatíðindum og hefur það komið fyrir að erlendar útgáfur hafi kynnt efni í Bókatíðindum.

Töluvert hefur borið á umræðum undanfarin ár um að hin prentaða bók sé að verða úrelt fyrirbæri og að innan tíðar muni rafbókin taka alfarið við af henni. Bryndís er þessu ósammála og segir að bækur á hvaða formi sem er eigi brýnt erindi í öllum samfélögum.

Félag íslenskra bókaútgefenda hóf fyrir örfáum árum síðan útgáfu Vorbókatíðinda og er sú útgáfa enn í þróun að sögn Bryndísar. En hver veit nema innan nokkurra ára verði þau orðin vorboði okkar Íslendinga með líkum hætti og Bókatíðindi hafa fest sig í sessi sem fyrirboði jóla.