Verðlaunaskáldið

Ljóðabókin Edda hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2019, höfundur hennar er bókmenntafræðingurinn Harpa Rún Kristjánsdóttir.

Harpa Rún er fædd árið 1990 og uppalin í Hólum á Rangárvöllum, sem er næst efsti Heklubærinn. Hún útskrifaðist með MA-próf í almennri bókmenntafræði árið 2018 og aðspurð hvort henni hafi þótt námið nýtast sér við skrifin á Eddu segir hún það án vafa hafa gert það. „Bókmenntafræðinám nýtist held ég öllum sem skrifa, þó það sé ekki annað en að lesa alla þessa texta sem þú myndir annars aldrei sjá.“

Harpa telur það einnig þroskandi að greina bókmenntir og ber það saman við það þegar hún vann sem aðstoðarkennari: „Það gerði mig að betri nemanda því ég skildi betur hvernig er að sitja hinum megin við borðið. Það er ekkert ósvipað að fara frá því að greina texta yfir í að skrifa þá, þú veist hvað þú vilt forðast.“

Hún segir námið jafnframt hafa fært sér ýmis verkfæri til að skrifa og takast á við efni í texta.

Harpa Rún Kristjánsdóttir

„Bókmenntafræðinám nýtist held ég öllum sem skrifa, þó það sé ekki annað en að lesa alla þessa texta sem þú myndir annars aldrei sjá.“

Ljóðabókin Edda fjallar um barnæskuna og það að vera gamall. „Þessi tvö æviskeið hafa svo djúpvitra sýn á heiminn sem við, sem erum hvorugt, eigum stundum erfitt með að skilja“, segir Harpa sem segist glíma við þessa staðsetningu samlokukynslóðarinnar. Viðleitni hennar snúi að því að semja nýjar leikreglur í samskiptum við æviskeiðin sem hún er föst á milli. „Svo er ég líka bara að reyna að setja mig í spor og skapa einhverja sýn á hluti sem ég skil ekki alveg.“

En hvað var það sem veitti henni innblástur við skrifin á Eddu? „Hugmyndin kviknaði í samskiptum mínum við tvær Eddur, móðursystur mína og bróðurdóttur mína. Sú eldri var orðin gömul og heimur hennar farinn að skekkjast og breytast, sem reyndist okkur aðstandendunum erfitt að skilja. Hliðstæðan var svo í barninu, sem átti sér líka eigin heim fyrir utan okkur hin. Ég fór svo að vinna þetta áfram og ræða æskuna og ellina við fólk á öllum æviskeiðum. Bókin varð þannig blanda af allskonar tilfinningum og aðstæðum, en líka bara sögum og augnablikum. Helsti innblásturinn var líklega allar konurnar sem ólu mig upp, og eru enn að því, ungar sem aldnar.“

Ásamt því að hafa skrifað ljóðabókina Eddu hefur Harpa Rún átt ljóðatexta í tveimur ljósmyndabókum, On the road in Iceland og Þingvellir í og úr sjónmáli. Einnig hafa birst ljóð eftir hana í nokkrum tímaritum og einu greinasafni og senn kemur út fræðigrein eftir hana, sem hún segist ansi spennt fyrir.

Við óskum Hörpu Rún innilega til hamingju með verðlaunin og birtum í lokin brot út ljóðabókinni Eddu.

 

Silfurvatn

Þegar lítið barn grætur
huggum við það brosandi

svonasvona

því það grætur
undan heiminum
sem það skilur ekki ennþá

Ofninum sem er heitur
skúffunni sem er bönnuð

öllu sem er utan
seilingar.

Og hvarmarnir fyllast af
silfurvatni.

En þegar gömul kona grætur
getum við ekkert gert
því hún
grætur yfir heiminum
sem hún skilur ekki
lengur.

Ástinni sem enn er svo heit.
Hreyfingunum sem skrokkurinn bannar.

Öllum sem eru
utan
seilingar.