Kynningarstjóri Forlagsins

Sunneva Kristín hitti Arnar Gunnarsson á Brikk: brauð og kaffi í hádeginu 30. október síðastliðinn. Gæddu þau sér á brauði og súpu og ræddu um jólabókaflóðið í ár. Arnar er kynningarstjóri Forlagsins og eru þetta fyrstu bókajólin hans hjá fyrirtækinu. Mikið er að gera hjá Arnari, enda margar bækur að koma út á þessum árstíma.

Aðspurður segir Arnar sitt starf vera að sinna kynningarmálum og samfélagsmiðlum. „Það er mikið sem felst í þessu starfi en er ég meðal annars að sinna samskiptum við höfunda, sinna útgáfuhófum, skrifa fréttatilkynningar, eiga samskipti við fjölmiðla og fleira“. Arnar segir margar spennandi ljóðabækur vera að koma út fyrir þessi jól. „Eins og alltaf er mjög mikil fjölbreytni á bókunum og ættu allir að geta fundið eitthvað fyrir sitt hæfi“.

Arnar Gunnarsson kynningarstjóri Forlagsins

„Það er mikilvægt fyrir mig í mínu starfi að setja mig í spor höfunda til að skilja hvernig ég get aðstoðað þá sem best“

„Það sem er áhugavert núna við þessi bókajól er að eins og er er Andri Snær með Um tímann og vatnið efstur á sölulistum og er hann t.d. á toppi metstölulista fjórðu vikuna í röð. Það er kannski breytan í ár vegna þess að yfirleitt eru glæpasögurnar að seljast best“.

Arnar heldur upp á þessa tilteknu bók Andra og segir þetta eiginlega vera skyldulesningu. Þá nefnir hann einnig hvernig bæði Andri og Bergur Ebbi, sem gaf út Skjáskot fyrir stuttu síðan, taki þátt í verkefni með Borgarleikhúsinu sem heitir Kvöldstund með listamanni en þar tala þeir um verk sitt fyrir áhorfendur í eina og hálfa klukkustund. „Það gefur lesendum svo mikla innsýn í hvað höfundar eru sjálfir að hugsa með skrifum sínum“.

Arnar segir starfið gefandi. Hann sér vel hvernig bókaútgáfa er persónuleg fyrir höfunda og mikilvægt að huga vel að öllum. „Það er mikilvægt fyrir mig í mínu starfi að setja mig í spor höfunda til að skilja hvernig ég get aðstoðað þá sem best“. Hann segir mikið fjör um þessar mundir og hoppi hann úr einu útgáfuhófi í annað. Annars séu þetta mjög hefðbundin bókajól, margar bækur í öllum flokkum og nefnir hann þá til dæmis barnabækurnar sem eru margar skemmtilegar. Forlagið gefur út um það bil sjötíu til áttatíu bækur hver jól og þar af eru um fjörutíu og fimm til fimmtíu íslenskir höfundar.