Harpa Rún Kristjánsdóttir

Harpa Rún Kristjánsdóttir

Harpa Rún er með MA-próf í almennri bókmenntafræði og starfar við sauðfjárbúskap, ritstjórn og útgáfu. Hún hefur gefið út nokkrar bækur, nú síðast ljóðabókina Eddu sem hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Hún vill frekar lesa ástarsögur en glæpasögur og telur að ljóð séu eins og konfekt – allt í lagi að klára kassann á einu kvöldi!

Leiðbeinandi: Guðni Elísson.

Um ritgerðaskrifin:

Ég hef alltaf verið veik fyrir ádeilu í bókmenntum og því hvernig bókmenntaverk geta fært okkur nýja sýn á samfélagið. Upphaflega hugmyndin var að rekja sögu íslenskra ádeilubókmennta með sérstakri áherslu á náttúruvernd. Eftir nokkuð klassíska leit mína að leiðbeinanda á efri hæðum Árnagarðs endaði ég úti í Aðalbyggingu hjá Guðna Elíssyni. Hann hjálpaði mér að þrengja sjónarhornið og úr varð að rannsaka það sem við kölluðum íslenskar ólandssögur.

Eftirleikurinn var í rauninni auðveldari en ég hefði þorað að trúa. Við bjuggum í upphafi til nokkuð nákvæmt vinnuplan, sem stóðst auðvitað ekki, en hjálpaði mjög til við skrifin. Ég var í rauninni bara alltaf að keppa að ákveðnu marki og vissi hvað ég ætlaði mér hverju sinni. Námskeiðið Fræðaiðja og rannsóknir  hjá Öldu Björk var ómetanlegt, þar skrifaði ég í raun fyrsta hluta ritgerðarinnar. Eftirá að hyggja var BA-ritgerðin einhvern veginn miklu meira mál en þessi. Þetta var í rauninni bara gaman.

Heimildir komu úr öllum áttum. Einn kafli ritgerðarinnar er samantekt á bókum sem talist geta til ólandssagna. Ég auglýsti eftir hugmyndum að slíkum bókum á Facebook sem var mjög hjálplegt, auk þess sem ég hélt nokkra fyrirlestra um efnið meðan á skrifunum stóð og þá brást ekki að einhver áheyrandi kom til mín með uppástungu. Hvað fræðiefni varðar var þriðji tölvupósturinn sem Guðni sendi mér langur listi fræðibóka um efnið, sem var í rauninni allt sem ég þurfti.

 Ritgerðin er mestan part skrifuð uppí sveit þannig að ég nýtti mér rafbækur og heimildir af internetinu mjög mikið. Og tölvupósta til Guðna, hann er ninja þegar kemur að tölvupósta-svörun

Útdráttur:

Staðleysubókmenntir er grein sem nýtur sívaxandi vinsælda. Ýmsar undirgreinar hennar, svo sem góðar staðleysur, fantasíur og furðusögur hafa skapað sér sess í bókmenntasögunni. Á síðari hluta tuttugustu aldar ber æ meira á ólandssögum (e. dystopias) sem þróast fljótlega yfir í gagnrýnar ólandssögur (e. critical dystopias) samhliða válegri pólitískri og efnahagslegri þróun í heiminum. Meðal þekktra verka sem falla að þessu gagnrýna formi eru 1984 (1949) Georges Orwell, Saga þernunnar (1985) eftir Margaret Atwood og Veröld ný og góð (1932) eftir Aldous Huxley, svo einhverjar séu nefndar. 

Hér verður sjónum beint að gagnrýnum ólandssögum íslenskra höfunda og tengslum þeirra við þróun hefðarinnar erlendis. Auk fræðilegrar samantektar og hugtakaskýringa verður þróun ólandssögunnar rakin með dæmum úr íslenskri bókmenntasögu, þar sem kynnt verða helstu verk sem fallið geta í þann flokk. Í síðari hluta ritgerðarinnar verða svo teknar til greiningar þrjár íslenskar ólandssögur frá síðustu tuttugu árum; LoveStar (2002) eftir Andra Snæ Magnason, Hrímland (2014) eftir Alexander Dan Vilhjálmsson og Eyland (2016) eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Bækurnar verða felldar að byggingarlíkani ólandssagna sem kynnt er í 2. kafla ritgerðarinnar auk þess sem gerð verður grein fyrir þeirri ádeilu sem þar kemur fram og hún sett í íslenskt samhengi