Prentsmiðja Guðjóns Ó. er vistvæn prentsmiðja sem hlaut umhverfisvottun Svansins fyrir 20 árum síðan. Á þessum tíma voru ekki margir í prentgeiranum að huga að þessum málum hér á landi og má því segja að prentsmiðja Guðjóns Ó. hafi rutt veginn fyrir hina sem á eftir komu.
Að gerast umhverfisvæn prentsmiðja krafðist töluverðrar vinnu og breytinga, en Ólafur Stolzenwald hjá Prentsmiðju Guðjóns Ó. segir það ekki vera kostnaðarsamt verkefni að gerast umhverfisvæn prentsmiðja í dag vegna þess að flest efni sem flutt eru inn séu með vottun, annað en var.
„Prentiðnaður á Íslandi stendur ekki vel og pappír talaður látlaust niður og rafræna möguleikanum hampað. En það gleymist að hugsa út í það að raftæki, batterí og aðrir orkugjafar hafa yfirleitt enga umhverfisvottun eða neitt sambærilegt sem kaupandinn getur treyst á.“
Aðspurður hví prentsmiðjan hafi ákveðið að ráðast í þetta verk, segir Ólafur að fyrst hafi það verið gert vegna bættra loftgæða starfsmanna og áhuga fyrir að gera betur. Ábatinn hafi síðar komið í ljós. Hann bætir við: „Þó menn vilji ekki kalla umhverfisvottun gæðakerfi, þá er það í raun slíkt að einhverju leiti að mínu mati. Bætt gæði varðandi hráefnið, skráning og eftirfylgni á öllu sem fer inn og út, ásamt því að prentgripurinn hlýtur að hafa meiri gæði fyrir vikið.“
En hvernig er hægt að passa upp á að afskurðurinn verði ekki of mikill?
„Varðandi afskurðinn þá er mikilvægt að stilla verkum þannig á örkina að sem minnst fari til spillis. Hönnun er einnig stór þáttur og leiðbeinum við okkar viðskiptavinum að hanna í stærðum sem eru hentugar fyrir pappírsörkina, og oft þarf ekki nema að hnika til um nokkra millimetra til að efnið passi betur á örkina“, segir Ólafur.
Prentsmiðja Guðjóns Ó. hefur undanfarin áratug náð að prenta 90% af sinni framleiðslu á vottuðum pappír, eða svansmerktum. Sem þýðir að pappírinn kemur úr sjálfbærum skógum og er afskurður flokkaður af mikilli nákvæmni og hann endurnýttur í eldhúsrúllur og klósettpappír.
Prentiðnaður á Íslandi hefur staðið höllum fæti undanfarin ár og er ein ástæða þess mögulega umhverfisvakning síðustu ára. Fólk hefur spurt sig hvort hin prentaða bók sé að hverfa og rafbókin taki við. En hvað finnst Ólafi um þetta?
„Prentiðnaður á Íslandi stendur ekki vel og pappír talaður látlaust niður og rafræna möguleikanum hampað. En það gleymist að hugsa út í það að raftæki, batterí og aðrir orkugjafar hafa yfirleitt enga umhverfisvottun eða neitt sambærilegt sem kaupandinn getur treyst á.“
„Við megum ekki gleyma því að þjóðin er læs og það er pappírnum að þakka. En rafbók og hin prentaða bók geta vel farið saman, en bókin er meiri gripur og meira sjarmerandi að mínu mati“, segir Ólafur að lokum.