“Sjúklega” gaman að skrifa lokaritgerðir

Elísa Jóhannsdóttir er menntaður bókmenntafræðingur frá Háskóla Íslands. Frá því að hún útskrifaðist hefur hún fengist við ýmislegt, meðal annars skrifað unglingabók, sem hún hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir, þýtt verk, setið í ritstjórnum og fleira.

Elísa er fædd árið 1978 og uppalin í Kópavogi og Álaborg í Danmörku. Nú er hún búsett í Reykjavík ásamt sambýlismanni sínum og tveimur börnum þeirra.

Hún útskrifaðist úr BA námi sínu árið 2003 og lauk svo MA gráðu í almennri bókmenntafræði árið 2006.

„Ég var í bæði skiptin einni önn lengur að klára lokaritgerðirnar“, segir Elísa. „Ég leit á þær sem einhvers konar meistaraverk sem yrðu að standast tímans tönn. Reyndar fannst mér sjúklega gaman að vinna í þessum ritgerðum og langaði ekkert rosalega að klára þær og þar með námið.“

MA ritgerð Elísu heitir Engin vettlingatök – átökin um tilveruna í skáldsögum Fríðu Á. Sigurðardóttur og BA ritgerðin heitir Ber er hver að baki nema sér móður eigi. Um móður-dóttur sambandið í þremur skáldsögum eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur.

Elísa segir námið hafa nýst sér á allan mögulegan hátt. „Aðallega fannst mér námið skemmtilegt og áhugavert en ef námið er þannig þá færðu margfalt meira út úr því og nýtir það betur í kjölfarið.“

 

„Ég veit ekki alltaf hvaðan hugmyndirnar koma. Auðvitað er ýmislegt byggt á eigin reynslu, atvikum í daglegu lífi en ekki alltaf. Þú þarft bara að vera opin(n), reyna að opna þig fyrir því sem vill koma til þín eða í gegnum þig.“

Fljótlega eftir útskrift fékk Elísa vinnu sem texta- og hugmyndasmiður á auglýsingastofu og segist hafa unnið við skrif í öllum mögulegum myndum síðan þá, sem var hennar draumur.

Hún skrifaði ritið Íslensk keramik, 25 ára afmælisrit Leirlistafélags Íslands, þýddi verðlaunabókina Wild eða Villt eftir Cheryl Stayed sem kom út 2016. Hún hefur einnig setið í ritstjórnum, skrifað í tímarit, vefrit, pistla í útvarp og fleira.

Árið 2017 kom svo út eftir Elísu, unglingabókin Er ekki allt í lagi með þig? Hún vann til Íslensku barnabókaverðalaunanna og var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

En hvað er það sem veitir henni innblástur? „Ég veit ekki alltaf hvaðan hugmyndirnar koma. Auðvitað er ýmislegt byggt á eigin reynslu, atvikum í daglegu lífi en ekki alltaf. Þú þarft bara að vera opin(n), reyna að opna þig fyrir því sem vill koma til þín eða í gegnum þig.“

Hún segir að sumar hugmyndir leysist upp á meðan aðrar sitji eftir og gefist ekki upp, „þá þarf að gefa þeim gaum og hlúa að þeim með því að setjast niður og skrifa.“

Elísa segir það mikilvægt að setjast niður daglega og skrifa, það komi alltaf eitthvað, þó það sé vissulega mismikið.

Henni þykir lestur líka afar mikilvægur og segist hún reyna að lesa upp fyrir sig, það er að lesa bækur eftir einhvern sem hún telur betri en sig eða eftir einhvern sem hún telur sig geta lært eitthvað af. „Þannig verður maður sjálfur betri í að skrifa“, segir Elísa.

Þó lestur og að koma hugmyndum á blað sé afar mikilvægt, þá telur hún það ekki síður mikilvægt að gera ekki neitt, fara í labbitúra og hugsa, hugleiða, horfa út í loftið og tæma hugann, hlusta á tónlist, fara í leikhús, horfa á góðar kvikmyndir og þætti. Hitta fólk og vera til. „Það er líka endalaus innblástur þar, þykir mér.“

Í dag starfar Elísa sem verkefnastjóri og aðstoðarritstjóri í afar litlu útgáfufyrirtæki og segist hún þar af leiðandi ganga í nánast öll störf.

„Ég skrifa skáldskap meðfram þessu og tek stundum að mér frílans textavinnu og þýðingar“, segir hún að lokum.