Myndasagan Slaughterhouse-five, or the Children‘s Crusade kom út á dögunum við góðar undirtektir lesenda og gagnrýnenda. Hún er skrifuð af Ryan North, sem er m.a. þekktur fyrir að vera höfundur myndasagnanna Adventure Time og The Unbeatable Squirrel Girl, og myndskreytt af spænska listamanninum Albert Monteys. Myndasagan er byggð á samnefndri skáldsögu Kurt Vonnegut frá árinu 1969. Skáldsaga Vonnegut er að hluta til sjálfsævisöguleg, þar sem hún byggir á upplifun hans í seinni heimsstyrjöldinni, en hún flokkast einnig sem vísindaskáldsaga þar sem hún fjallar um geimverur og tímaflakk.