Tony Hawk‘s Pro Skater er borgið!

Og okkur líka

Þann 4. september síðastliðinn kom út tölvuleikurinn Tony Hawk‘s Pro Skater 1+2 Remastered við mikinn fögnuð aðdáenda Tony Hawk leikjaseríunnar sem er fyrir löngu orðin sígild. Í leikjunum geta spilarar brugðið sér í hlutverk nafntogaðra hljólabrettafrömuða og leikið listir sínar í hinum ýmsu borgum um allan heim. Andlit leikjanna, Tony Hawk, er án efa frægasti sendiherra hjólabrettaíþróttarinnar fyrr og síðar. Hann er af mörgum talinn einn áhrifamesti hjólabrettamaður allra tíma. Auk þess að bregða fyrir í tölvuleikjunum hefur honum brugðið fyrir í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta. Einnig hefur hann lagt sitt á vogarskálarnar hvað varðar bókmenntir,  eftir hann liggur til að mynda ævisagan Hawk: Occupation: Skateboarder (2000), eftir hann sjálfan og Sean Mortimer.

Tölvuleikurinn Tony Hawk‘s Pro Skater 1+2 Remastered  er 19. útgáfan í leikjaröðinni sem hóf göngu sína með útgáfu Tony Hawk‘s Pro Skater árið 1999 og ruddi í kjölfarið brautina fyrir aðrar leikjaraðir byggðar á jaðaríþróttum. Leikirnir gerðu ungum og óhörðnuðum unglingum kleift að kynnast einstökum jaðarkúltúr á hátt sem engum miðli hafði áður tekist. Fyrir útgáfu fyrsta leiksins var hjólabrettasamfélagið aðallega samsett af utangarðskrökkum. Hjólabrettaíþróttin var jafnvel talin vera eitthvað sem aðeins ræflar á lausagangi stunduðu, valdandi skemmdarverkum og ógnandi siðferðiskennd samborgara sinna. Fyrir hinn almenna borgara var Pro Skater ferskt innlit í andfélagskúltúr hjólabrettamannsins. Leikurinn svipti hulunni af lífstíl sem einkenndist af pokalegum buxum, veggjakroti og fékk milljónir krakka um heim allan til þess að byrja að renna sér á hjólabrettum sem hefði annars aldrei látið sér detta það í hug. Allir vildu vera eins og Tony Hawk, Kareem Campbell, Chad Muska og Elissa Steamer. Jafnframt kynntu leikirnir heiminn fyrir „playlista“ hjólabrettamannsins og opnuðu þannig dyr heimsfrægðar fyrir hljómsveitum eins og Goldfinger, Bad Religion og Powerman 5000.

Í kjölfar útgáfu fyrsta leiksins komu út framhaldsleikirnir Tony Hawk‘s Pro Skater 2 (2000) og Tony Hawk‘s Pro Skater 3 (2001) sem eru af mörgum leikjagagnrýnendum taldir vera með þeim allra bestu leikjum sem hafa verið gefnir út fyrir Playstation og Playstation 2 leikjatölvurnar. Eftir að 4. leikurinn í seríunni kom út árið 2003 tóku vinsældirnar að dvína og náðu algöru lágmarki með Ride (2009) og Pro Skater 5 (2015) sem seldust illa og hlutu harða útreið gagnrýnenda.

En nú hafa aðdáendur gömlu leikjanna svo sannarlega tekið gleði sína á ný þar sem Acticision, í samstarfi við Vicarious Visions, er búið að endurgera fyrstu tvo leikina fyrir Playstation 4 og allar nýrri tegundir leikjatölva. Framleiðundunum hefur tekist glimrandi vel til með að fanga andrúmsloft gömlu leikjanna. Það er búið að endurgera öll gömlu góðu borðin og uppfæra alla grafík svo leikurinn lítur frábærlega út. Til viðbótar öllum nýjungum er gamla góða tónlistin á sínum stað ásamt kunnuglegum andlitum.

Einn af þeim nýju hjólabrettamönnum sem leikmenn geta spilað er hin 18 ára gamla Aori Nishimura. Hún er sú eina úr hópi nýju andlitanna í leiknum sem hafði aldrei spilað gömlu leikina sígildu. Það er ekki þar með sagt að leikirnir hafi ekki haft gríðarleg áhrif á líf hennar. Það var nefnilega faðir hennar sem spilaði Pro Skater í gamla daga, og það var einmitt hann sem kom henni af stað í sportinu.

Tony Hawk‘s Pro Skater, sem breytti hjólabrettaheiminum til frambúðar, hefur risið upp úr öskunni með nýjustu viðbót sinni. Og tímasetningin gæti ekki verið betri, nú þegar nær allur heimurinn er fastur heima hjá sér vegna farsóttar. Það er því við engu öðru að búast en að þegar þriðja farsóttar bylgjan rennur sitt skeið munum við sjá nýja bylgju af krökkum (ungum sem öldnum) úr öllum stigum samfélagsins flykkjast niður á Ingólfstorg með bretti í hönd.

Heimildir

Haas, Dylan. (2020). The ‘Tony Hawk’s Pro Skater’ legacy: How one franchise helped shape a new generation of skate culture. Sótt 19. september af https://mashable.com/article/the-tony-hawks-pro-skater-legacy-how-one-franchise-helped-shape-a-new-generation-of-skate-culture/

Ludvig Gür. (2020). Pretending I‘m a Superman: The Tony Hawk Video Game Story. Bandaríkin: D’Amato Productions.

Metacritic. TONY HAWK’S PRO SKATER 2. Sótt 19. september 2020 af        https://www.metacritic.com/game/playstation/tony-hawks-pro-skater-2

Metacritic. TONY HAWK‘S PRO SKATER 1+2. Sótt 19. september 2020 af      https://www.metacritic.com/game/playstation-4/tony-hawks-pro-skater-1-+-2/critic-reviews