Pottaplöntur og Lao Tse
Viðtal við Hafstein Hafliðason garðyrkjumeistara
Þegar faraldurinn skall á okkur síðasta vetur, neyddust mörg okkar til þess að breyta lífsstílnum. Við fórum að vinna meira heima, elda meira heima og dvelja meira heima. Það má segja að veröldin sjálf hafi hægt á sér. Allt varð rólegra, fáir voru á ferðinni og nánast engir á ferðalögum. Í kjölfarið fóru margir að taka eftir því að parketið var orðið ljótt, málningin farin að láta á sjá og að eitthvað vantaði til þess að lífga upp á umhverfið. Sumir réðust í stóraðgerðir en margir létu sér nægja að koma sér upp skemmtilegu áhugamáli. Bakstur varð vinsæll og pottaplöntuæði greip landann. Margir þustu í blómabúðir og hinar og þessar pottaplöntur seldust í bílförmum því nú átti að skreyta nærumhverfið.
En til þess að pottaplöntur geti haldið fegurð sinni og dafnað vel, þurfa þær gott atlæti, passlega vökvun og viss birtuskilyrði. En þær eru jafn misjafnar eins og þær eru margar. Smátt og smátt fóru sumar að láta á sjá og þá voru góð ráð dýr. En þegar neyðin er stærst, er hjálpin næst og fréttir bárust af því að þessi fína fésbókarsíða væri með öll svörin, nefnilega Stofublóm inniblóm pottablóm hópurinn. Þar er spurningum svarað um hæl og er það stofnandi síðunnar, Hafsteinn Hafliðason garðyrkjumeistari sem yfirleitt tekur það að sér.
Hvað varð til þess að þú stofnaðir fésbókarhópinn?
Ástæðan var sú að vinur minn Vilmundur Hansen bað mig um að skrá mig á samfélagsmiðilinn og aðstoða sig við hóp sem hann stýrir þar sem kallast Ræktaðu garðinn þinn. Fljótlega kom í ljós að stór hluti spurninganna var um pottaplöntur af ýmsu tagi og átti ekki beinlínis við í garðaumfjölluninni og tók of mikið pláss þar. Því varð úr að aðskilja garðrækt og stofublóm til að fá heildstæðara yfirlit og betri vettvang fyrir stofublómin einvörðungu.
Varðstu var við mikla fjölgun í hópnum eftir að Covid-ástandið skall á?
Já, á hverjum degi í upphafi faraldursins bættust við tugir nýrra félaga. Einn daginn fór talan upp í 180. Nú eru félagar um 28 þúsund, mismunandi virkir þó.
Hefurðu tölu á því hvað þú svarar mörgum spurningum á viku?
Ég hef ekki tekið það saman, en líklega eru þær á bilinu tuttugu og fimm til fimmtíu á hverjum degi.
Hvað er skrítnasta spurningin sem þú hefur fengið?
Forsjónin hefur úthlutað mér af gæsku sinni ótrúlega stopulu nærminni, svo ég man nú ekki neina sérstaka spurningu af þvílíku tagi. Sem er eins gott!
Hefur þú alltaf starfað við garðrækt?
Já, ég hef nú eiginlega verið viðloðandi þennan bransa frá því að ég man fyrst eftir mér, ræktaði radísur, næpur, salat og spínat upp á eigin spýtur vestur í Djúpi þegar ég var krakki og stráklingur, og það var áður en kálflugan hélt innreið sína á svæðið. En síðan 1964, þegar ég fór fyrst í garðyrkjuskóla, hef ég á einn eða annan hátt stundað garðyrkju eða ræktunartengd störf.
Hvaða önnur áhugamál áttu þér Hafsteinn, önnur en plönturnar? Lestu mikið? Áttu þér uppáhalds bók?
Uppáhaldsbókin mín er Bókin um veginn eftir Lao Tse. Hugsjónin um frið á jörðu, frelsi, jafnrétti og bræðralag er mér hjartans mál. Svona rétt eins og í plönturíkinu þar sem allir eru jafnir, þótt ýmsir teygi sig yfir fjöldann oft á tíðum þá veita þeir undirgróðrinum bara betra skjól.
Og varðandi önnur áhugamál þá er lestur og grúsk í garðræktar- og grasafæðiritum ansi frekt á minn tíma og eiginlega aðaláhugamálið. Garðyrkjan og grasnytjar af hvaða tagi sem er eru nú einu sinni undirstaða siðmenningarinnar. Enda ganga þessi hugtök bara undir einni skilgreiningu í öðrum tungumálum en íslensku: Kúltúr! Og hvar værum við ef við hefðum ekki kúltúr?
Með þeim góðu orðum þakka ég Hafsteini kærlega fyrir spjallið. Það var sannarlega gaman að fá innsýn í líf mannsins sem hjálpar okkur að halda lífinu í plöntunum okkar.
Skemmtilegt viðtal við fróðan og skemmtilegan mann.
Hann er frábær hann Hafsteinn.