Bókartitillinn kom á ísrúnti

Viðtal við Kristin Rúnar Kristinsson

Kristinn Rúnar Kristinsson er fæddur og uppalinn í Kópavogi og býr þar enn 31 árs að aldri. Kristinn greindist með geðhvörf árið 2009 þegar hann var tvítugur en fjallaði fyrst opinskátt um veikindin sín árið 2014. Síðan þá hefur hann barist fyrir réttindum fólks með geðsjúkdóma og opnað umræðuna með það að leiðarljósi að fræða almenning og uppræta fordóma. Kristinn hefur ferðast um landið með fyrirlestur sinn um geðhvörf, Rússíbanalífið mitt og í lok árs 2018 gaf hann út sína fyrstu bók Maníuraunir: Reynslusaga strípalingsins á Austurvelli. 

 

Um hvað er bókin þín Maníuraunir?  

„Hún er eins konar ævisaga mín, fyrstu 29 árin, en u.þ.b. 80% af innihaldi hennar eru um raunir mínar í maníu,“ segir Kristinn og bætir við að hann hafi tekið eftir því á fyrirlestrum sínum að langflestir vita ekki hvað manía er og hvað það ástand felur í sér. „Ég spyr alltaf í upphafi fyrirlestursins hvort að einhver vitneskja sé um maníu og það sló mig gríðarlega hvað enginn vissi í raun neitt. Hin hliðin af geðhvörfum er síðan þunglyndi sem nánast allir þekkja með einum eða öðrum hætti.“

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að skrifa þessa bók?  

„Ég var á ísrúnti með stórvini mínum, Kristjáni Hafþórssyni, eða Krissa Haff eins og hann er jafnan kallaður, og ég var að segja honum maníusögu af sjálfum mér eins og ég geri oft þegar við hittumst. Þetta var í nóvember 2017 og Krissi sagði í lok kvöldsins: ,,Kiddi, ég held að þú sért kominn með nægilega mikið efni í bók núna. Þú hefur upplifað svo ótrúlega margt.“ Ég svaraði: ,,Já, ég er ekki frá því. Hvernig hljóma Maníuraunir?“ Ég hafði aldrei spáð í titli á bók hjá mér áður eða þessu nafni, en þarna kom það um leið og titillinn hélst alveg fram að útgáfunni, 11 mánuðum síðar.“

Hvernig finnst þér viðtökurnar á bókinni hafa verið?  

„Þær voru frábærar og ég var búinn að selja nokkur hundruð eintök áður en bókin kom út. Viðtökurnar voru sérstaklega ánægjulegar því að þetta var fyrsta bókin mín og átti kannski við ekki svo stóran hóp fólks. En ég á marga fylgjendur og þessi 1000 eintök kláruðust nánast fyrir jólin 2018.“ Kristinn vísar hér til Facebook síðunnar sem hann heldur uppi, Kristinn Rúnar Kristinsson Bipolar, þar sem hann ræðir veikindi sín opinberlega og eru rúmlega 1.700 manns að fylgja þeirri síðu í dag. „Ég átti einhver 70 eintök eftir, þannig að þetta gekk mjög vel. Ég fór sjálfur persónulega til rúmlega 600 manns, það var vægast sagt mjög mikið að gera hjá mér í október-desember 2018.“


Þú talar um nokkrar utanlandsferðir í bókinni þinni. Hvaða lönd hefur þú heimsótt og hvað finnst þér skemmtilegast við það að ferðast til útlanda?  

„Já – ferðin til Prag með Herbalife er hluti af fyrstu maníunni minni árið 2009 og sá kafli er í uppáhaldi flestra sem hafa nefnt við mig ákveðinn kafla sem þeim þótti fyndnastur. Annars fyrir utan Tékkland þá hef ég ferðast til Spánar, Hollands, Póllands, Englands, Bandaríkjanna, Portúgal, og síðan bjó ég í Mexíkó í fimm mánuði og Púertó Ríkó í tvo mánuði 2013 og 2014,“ svarar Kristinn og segir að mikið af þessum ferðum hafi verið sumarfrí til Spánar og fótboltaferðir en Kristinn er mikill fótboltaaðdáandi. „En þessi sjö mánaða heimsreisa, ef svo má kalla, til Mexíkó og Púertó Ríkó var einstök, ég ferðaðist mikið innan landanna og lærði spænsku á örskömmum tíma. Mig langar að gera eitthvað álíka áhugavert á næstu árum.“

Nú starfar þú sem ritstjóri, hvernig er það starf? Er eitthvað spennandi á döfinni hjá þér? 

„Það er mjög áhugavert, spennandi og lærdómsríkt. Ég starfa hjá glænýrri bókaútgáfu sem heitir LEÓ Bókaútgáfa og ég er búinn að ritstýra nú þegar þremur bókum. Þær bækur heita: Í Hjarta Mínu, Langafi minn Supermann og síðan er að koma út önnur barnabók fyrir jólin sem heitir: Jólasveinar nútímans. Þetta er skemmtilegur hópur sem ég vinn með og fyrirtækið er ört vaxandi þannig að það eru fleiri bækur á dagskrá hjá okkur,“ segir Kristinn og bætir við að Maníuraunir séu að koma út í enskri þýðingu núna í nóvember. „Það var alltaf stefnan hjá mér að gefa hana út á ensku líka, svakalega mikil vinna hjá þýðandanum að baki og hjá mér líka við að grandskoða allt. Við erum ekki búnir að ákveða titilinn alveg, hann kom ekki alveg á einni sekúndu eins og Maníuraunir titillinn, “ segir Kristinn „Don´t Stop Me – Life with Bipolar Disorder, er titillinn núna ef hún væri gefin út í dag.“