„Notuðu hálfétin burrito til að fela hjúskaparbrot sín“ Játningar alræmdra rokkhunda
Í rokkbókinni The Dirt: Confessions of the World’s Most Notorious Rock Band (2001) má finna æviminningar þeirra Tommy Lee, Mick Mars, Nikki Sixx og Vince Neil. Saman skipa þeir félagar hljómsveitina Mötley Crue sem réði ríkjum í rokkheimum á níunda áratug síðustu aldar, en hljómsveitin hefur til að mynda selt yfir 41 milljón platna frá árinu 1981. Ævisagan er rituð í slagtogi við blaðamanninn og rithöfundinn Neil Strauss, sem áður hafði gefið út The Long Hard Road Out of Hell (1998) í samstarfi við tónlistarmanninn Marylin Manson.
The Dirt vakti gríðarlega athygli þegar hún kom út fyrst árið 2001 og sat til dæmis á toppi New York Times Bestsellers listanum fjórar vikur í röð. Árið 2019 kom síðan út kvikmynd sem byggð er á bókinni á streymisveitunni Netflix. Þeir Nikki, Tommy, Mick og Vince voru meðframleiðendur kvikmyndarinnar. Að vísu rataði ekki allt á skjáinn úr bókinni enda eru æviminningarnar hver annarri svæsnari. Til dæmis kom ekkert fram í myndinni hvernig drengirnir notuðu oft hálfétin „burrito“ til þess að eyða lykt sem kæmi mögulega upp um hjúskaparbrot þeirra (en það var í bókinni). Myndin sýnir sömuleiðis ekki atvik, þegar Nikki Sixx negldi óheppinn partýgest fastan við borð með nagla í gegnum eyrað. Enn fremur skautar kvikmyndin alfarið fram hjá þeirri staðreynd að Tommy Lee sat í fangelsi í 6 mánuði árið 1998 fyrir heimilisofbeldi gegn fyrrum konu sinni, Pamelu Anderson.
The Dirt rekur ótrúlegan feril hljómsveitarinnar sem hafði, þegar bókin kom fyrst út, spannað 20 ár. Bókin lýsir því hvernig fjórir brotnir ungir menn fundu hvorn annan fyrir tilviljun og stofnuðu hljómsveit sem átti eftir að sigra heiminn á níunda áratugnum. Jafnframt lýsir hún algerri hnignun hljómsveitarinnar á tíunda áratugnum. Hún lýsir glundroðanum í kringum upptökur á plötunum, partíunum og brjáluðum tónleikaferðalögum. Kápan gefur tóninn fyrir það sem koma skal. Vegleg Jack Daniels flaska með áletrunum á borð við „Bottled adrenaline“ og „Rock by Volume 200%“ prýðir kápuna. Innihald flöskunnar: Eldur og fáklædd kona. Bakhliðina prýðir ófrýnileg mynd af þeim félögum frá dýrðarárunum. En þar má líka sjá glimrandi dóma frá Rolling Stone Magazine, New York Times, Maxim og Entertainment Weekly.
Bókin er ekki fyrir viðkvæma! Enda eru frásagnir af prakkarastrikum meðlimanna oft á tíðum hroðalegar, sbr. fyrirsögn greinarinnar. Söguhetjurnar eru nefnilega engir kórdrengir. Þvert á móti birtast þeir sem skaðræðisgripir sem báru hvorki virðingu fyrir sjálfum sér, né öðrum. Að því sögðu þá getur það verið áhugavert fyrir meðaljóna að upplifa þessi ósköp í örygginu heima í stofu. Helsti kostur bókarinnar er sá að það er hægt að opna hana hvar sem er og lesa óborganlegar frásagnir sem eru í senn ógleymanlegar og ótrúlegar. Ég segi ótrúlegar vegna þess að ég er handviss um að margar sögurnar sem birtast í bókinni séu stórlega ýktar, eða jafnvel hreinasti uppspuni, að minnsta kosti vona ég það.
Auk The Dirt hafa Tommy Lee, Nikki Sixx og Vince Neil gefið út eina ævisögu hver fyrir sig. Þó get ég fullyrt að þær ná engan vegin sömu hæðum og The Dirt, en eitt það kostulegasta við hana er hvernig mennirnir virðast ekki geta fyrir sitt litla líf munað eftir sömu atburðunum á sama hátt. Sjónarhornin lituð af sjálfsréttlætingu hvers og eins. Það kemur kannski ekki á óvart að þeir félagar muni hlutina ekki alveg eins og þeir voru í raun eftir áratugalanga misnotkun áfengis og fíkniefna. Það verður seint sagt að rokkstjörnurnar í The Dirt séu sympatískir karakterar, þó vissulega glitti í mennskuna hér og þar. En það er ekki endilega aðalmálið. Bókin er rússíbanareið, stútfull af rokk og róli, dópi, kynlífi og rústuðum hótelherbergjum og því hin fínasta lesning.