Oktavía Guðmundsdóttir
„In order to write about life you have to life it.“
~ Hemmingway ~
Ég hef starfað lengi sem félagsráðgjafi. Í starfi mínu hef ég hitt fjölda fólks, með mismunandi bakgrunn og ólíkar sögur. Sumar hafa ósjálfrátt nýst mér, sem hugmyndir við skrif.
Áhugi minn á ritlist er kominn til ára sinna, ég sinnti honum lítð, þar sem ég var á kafi í félagsráðgjafarvinnu. Einstaka sinnum rakst ég á auglýsingu um námskeið í Skapandi skrifum og fann hjá mér löngun til að prófa. Fyrsta námskeiðið sem ég sótti var hjá Endurmenntun 1999. Rúnar Helgi Vigfússon, rithöfundur kenndi.
Á námskeiðinu var fólk á öllum aldri, ég man sérstaklega eftir blaðamanni, sem var ákaflega flinkur og þaulvanur penni. Við áttum að lesa upp í tímanum eitthvað sem við höfðum skrifað. Hann byrjaði og las stutta frásögn, sem var bæði skondin og skemmtileg. Það var óþægilegt að vera næst á eftir honum, því það var himinn og haf á milli okkar.
Námskeiðið var mikil upplifun, góð kennsla en líka áskorun, því ég hafið lítið sem ekkert skrifað fyrir utan stutt innslög í útvarpsþátt, „Samfélagið í nærmynd.“
Þá fyrst fann ég fyrir raunverulegum áhuga. Ég vildi skrifa eitthvað, sem gæti nýst öðrum. Ég var ung (fertug) með brennandi áhuga og hringdi því í RÚV og bað um yfirmann Menningardeildar. Spurði hvort ég mætti koma með pistil um félagsleg réttindi svona til prufu. Mér til mikillar furðu gekk það upp. Fyrst þurfti ég að stytta pistilinn og sníða smávegis til. Á þessum tíma var ég heima í fæðingarorlofi og nýtti lausar stundir.
Fyrsti pistilinn fjallaði um atvinnuleysisbætur. Ég kom textanum um félagsleg réttindi fyrir í stuttri sögu af persónum, sem ég skáldaði. Eftir að annar þáttastjórnandinn (Sigríður Arnardóttir) sagði mér að stuttu sögurnar þættu ágætar, en ekkert var minnst á félagslegu réttindin (sem voru jú markmiðið með skrifunum) varð ég svolítið móðguð. Ég velti fyrir mér, hvort ég ætti að fara á námskeið og læra að skrifa góðan texta. Fór þá til Bjarna Ólafssonar íslenskufræðings, sem auglýsti námskeið.
Síðan liðu heil sjö ár, þar til ég fór á næsta námskeið. Það var hjá Þorvaldi heitnum Þorsteinssyni, sem var bæði lærdómsríkt og hvetjandi. Hann hafði einhverja galdra sem virkuðu vel. Honum tókst að láta fólk trúa því að það gæti vel skrifað, þó svo það gengi misvel.
Aftur liðu mörg ár en þá var mér bent á Vefskrif I hjá Eyrúnu Lóu, sem var afar lærdómsríkt. Síðastliðna vorönn skráði ég mig í Ritfærni II hjá Rebekku og Védísi, sem var einnig áhugavert. Nú er loksins þægilega stutt á milli námskeiða, því ég er byrjuð í Veskrifum II.
Nútímatæknin er oft að þvælast fyrir mér og það er erfitt. Markmiðið er að ná tökum á tækninni og verða betri penni. Það er eiginlega síðasti séns, því klukkan tifar!