Áhrif Covid á menningu Íslendinga

Menning Íslendinga er mikilvægur partur af samfélaginu. Flestir sem „gefa okkur“ þessa menningu eru verktakar. Helsta tónlistarfólkið, kvikmyndagerðarfólk, rithöfundar og listafólk eru hvergi á föstum launum. Leikhús, tónleikar og listasýningar hafa stöðvast alveg vegna þess heimsfaraldurs sem nú geisar. Hins vegar er kvikmyndagerðin enn að störfum með ýmsum breytingum.

Rithöfundur, leikari, tónlistarmaður og listakona voru spurð út í áhrif Covid á starf þeirra og áhugavert var að sjá svör þeirra.

Auður Jónsdóttir rithöfundur hefur ávallt verið dugleg við að lesa upp úr bókum sínum, sem í dag er ekki hægt. Því er erfitt að auglýsa þannig nýja bók. Þegar ég spurði hvort að Covid-19 hafi haft áhrif á starfið þá svaraði hún játandi. Það væri líkt og að vera með heilaþoku.  Henni þótti innilokunin og einveran verst, eins og það tæki frá henni sköpunargleðina. Auði þótti erfiðara að einbeita sér en tókst samt að ljúka við næstu bók sína. „Eins kemur Covid niður á rithöfundum almennt, því bóksala dróst saman, sérstaklega því bókabúðirnar voru lokaðar, og ég held að forleggjarar gefi kannski ekki eins mikið út í haust og oft. Það hefur orðið forsendubrestur í sölu,“ segir Auður. Henni þótti einveran samt líka góð á stundum og telur að ástandið sé erfiðara fyrir sviðslistafólk. Aðalmálið sé samt að halda veirunni niðri svo hægt verði að halda aftur tónleika og leiksýningar.

Þorsteinn Bachmann leikari hefur náð að vinna áfram á sínu sviði þar sem kvikmyndagerðin hefur ekki stöðvast og tökur enn í gangi. „Heilt yfir jókst vinna hjá mér í Covid-inu þvert á það sem kannski mætti búast við. Kvikmyndabransinn er mjög breytilegur og erfitt að segja með vissu hvort að verkefnum hafi fjölgað vegna eða þrátt fyrir Covid en ástandið hægði óneitanlega á einhverjum verkefnum meðan önnur verkefni urðu til. Leikhúsvinna lagðist hins vegar mjög afgerandi af á þessum Covid tímum og er rétt að komast á skrið aftur,“ segir Þorsteinn.   Einnig er hann leiklistarkennari og hefur það starf lagst niður vegna lokunar á námskeiðum og háskólum. Hann kennir meðal annars leiklistarnámskeið ásamt leikaranum Magnúsi Jónssyni. Þorsteini finnst samt frekar auðvelt að aðlagast breytingunum og segir að þegar einar dyr lokist þá opnast aðrar. Hann hefur alla tíð verið sjálfstætt starfandi og því þykir honum ekki erfitt að finna sér eitthvað að gera. Eins og er þá er hann bókaður langt fram í tímann. Þorsteini þykir samt að betur mætti athuga reglurnar í kringum hópastörf og að það ætti að finna leið til að halda leikhúsum og tónlistarhúsum opnum.

Svavar Knútur tónlistarmaður hefur ekki náð að aðlagast jafn vel vegna þess að tónlistarhús hafa verið lokuð og samkomur bannaðar í marga mánuði. „Ég er búinn að vera níutíu prósent tekjulaus síðan í mars. Það er ansi hart fyrir okkur sjálfstætt starfandi og það er ekkert hlaupið að því að „finna sér bara aðra vinnu“ þegar u.þ.b. 50.000 aðrir Íslendingar eru að lenda í því sama”. Svavar hefur hins vegar nýtt tímann á annan hátt. Hann hefur verið að tengjast betur við annað listafólk og lært nýja, tæknilega hluti. Einnig hefur hann notið þess að eyða meiri tíma með börnunum sínum. Honum finnst að Ríkissjónvarpið gæti hjálpað fólki á hans sviði með því að gera þætti um menningu almennt. Listafólk á mismunandi sviðum gæti komið fram og skemmt landanum. Brúa þannig bilið á milli listafólksins og almenningsins.

Kristín Morthens listakona hefur líka þurft að leggja starf sitt á hilluna í bili. Vegna Covid hefur hún ekki getað ferðast til útlandir á opnanir á sínum eigin sýningum. Hún hefur undanfarið starfað mestmegnis í Toronto í Kanada en þar sem hún er ekki kanadískur ríkisborgari þá kemst hún ekki þangað sem stendur. Hennar upplifun er því frekar neikvæð. „En ég hef fundið mér annað launað starf, sem er gott. En hinsvegar setur það myndlistina mína í stopp“ segir Kristín. Hún hefur enn ekki náð að sækja um styrki sem hafa verið veittir aukalega á vegum ríkisins. Henni finnst mikilvægt að bæði ríkisstjórnin, og þeir einstaklingar í samfélaginu sem geta, styrki listamenn með því að njóta og kaupa list þeirra. 

 

Covid hefur því haft mismikil áhrif á íslenskt listafólk en þau sem ég ræddi við voru sammála um að eitthvað þurfi að gera til að þau geti haldið starfi sínu áfram. Menningin er mikilvægur hluti af samfélagi og á meðan okkar fólk eru allt verktakar þarf að finna aðra leið til að halda þeim á floti á þessum erfiðu tímum.