Bókahillan: Ófeigur Sigurðsson

Eftirfarandi viðtal er brot úr viðtalsröðinni „Bókahillan“ sem mun birtast í heild sinni í öðru tölublaði Leirburðar, tímariti bókmenntafræðinema, í nóvember 2020.

Bókahillur eru ómissandi húsgagn í flestum híbýlum. Í þær er hægt að raða á óteljandi vegu með mismunandi áherslu á efnisflokkun, fagurfræði og svo framvegis. Margir, sér í lagi bókaunnendur, leggja mikið upp úr uppröðun bóka sinna og eru jafnvel með margþætt, persónulegt flokkunarkerfi á meðan aðrir leggja minna upp úr skipulaginu. Þó eru engar tvær bókahillur eins og rétt eins og innihald þeirra getur gefið vísbendingar um persónuleika og áhugamál eigandans þá mætti segja að uppröðunin segi einnig sína sögu.

Ófeigur Sigurðsson er rithöfundur, ljóðskáld og þýðandi. Hann hefur gefið út ljóðabækur og skáldsögur og hlaut meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Öræfi árið 2014. Bókahillurnar á heimili hans eru yfir tíu talsins og því eru bækur svo að segja um allt hús; í stofunni, svefnherberginu, skrifstofunni og jafnvel inni á baðherbergi. Eina herbergið sem sleppur við ágang bókanna er eldhúsið. Ég fékk að skyggnast inn í hugarheim Ófeigs og læra örlítið um samband hans við bækurnar sínar í gegnum nokkrar spurningar um uppröðun þeirra og staðsetningu.

Teikningar eftir Ásdísi Hönnu Guðnadóttur


Hvernig raðar þú í  bókahillurnar þínar?

Ég er frekar lífrænn flokkari og raða meira eftir anda og tilfinningu. Þó er eitthvað smá kerfi. Ég er með skáldsögur sér og þýddar skáldsögur sér nokkurn veginn, fræðibækur, heimspeki, dulspeki, ljóðabækur, fornbækur. Þetta eru helstu flokkarnir en þó rennur þetta líka stundum saman þegar bækurnar sjálfar virðast ráða því hvar þær vilja vera. Sumar bækur eiga það til að vera á hreyfingu.

Hvers konar bækur eru jafnan í efstu hillunum, neðstu og hvaða bækur eru í augnhæð?

Í efstu hillunum eru ýmist litskrúðugar bækur eða bækur sem sjást vel úr fjarlægð og gleðja augað. Þar vilja líka hrúgast kiljur sem ég les ekki aftur á næstunni og bækur sem eru ekki í notkun. Þar eru líka einhverjar seríur og gömul innbundin tímarit. Eitthvað líka sem ég veit ekki hvað er. Í neðstu hillunum eru stórar bækur og þungar, myndlistarbækur og ljósmyndabækur, allskonar bækur sem gaman er að blaða í liggjandi á gólfinu. Í augnhæð eru þær bækur sem ég nota mikið, uppflettirit, orðabækur, annálar. Þar eru bækur sem ég ber virðingu fyrir, þær sem eru fallegar, djúpar og vel skrifaðar. Það eru bæði skáldsögur, heimspeki, þjóðlegur fróðleikur og fornsögurnar. Í augnhæð eru bækur sem hafa áhrif á mig, bækur sem kveikja löngun í mér til þess að skrifa og minna mig á hvers vegna ég skrifa.

Eru einhverjar bækur í lokuðum skápum, kössum eða geymslum?

Ég er með bækur í kössum á leið í Góða hirðinn en þær hafa verið lengi á leiðinni.

 
Áttu þér hillu sem þér þykir vænst um?

Ef ég glata öllu þá mun ég sakna mest þeirra bóka sem ég hef haft mest fyrir að safna. Það eru nokkrar fyrstu útgáfur af ljóðabókum og dýrar fornbækur. Ég hef safnað bókum Benedikts Gröndal og þætti sárt að missa þær. Safn til sögu Íslands lít ég hýru auga hvern morgun þegar ég geng inn á skrifstofu, ásamt Íslensku fornritunum. Ég er hrifinn af vönduðu bókbandi og á svolítið af því. Einnig þykir mér afar vænt um bækur úr bókabúð langafa míns af Eyrarbakka. Þetta er kannski ekki allt í sömu hillunni en samt nokkurn veginn.

 

Teikningar eftir Ásdísi Hönnu Guðnadóttur

 

Hvaða bækur eru á náttborðinu þínu akkúrat núna?

Ég var að klára Sléttuúlfinn eftir Hermann Hesse í frábærri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Sléttuúlfurinn er svo mikið snilldarverk að hún hefur umturnað sálarlífinu. Lestur bókarinnar kemur sífellt á óvart, hún er svo fyndin og brjálæðisleg, enda aðeins fyrir vitfirringa, eins og þar segir. Ég vissi ekki að þessi þýðing væri til fyrr en ég fann hana um daginn á bókamarkaðnum. Það var eins og hún hafði verið að fela sig fyrir mér öll þessi ár en setið fyrir mér akkúrat núna. Hún hitti mig á hárréttum tíma eins og sumar bækur vilja gera. Sléttuúlfurinn beið þar til ég hafði áttað mig á einu grundvallaratriði í sálarfræði Jung sem bókin einmitt byggir á. Svo er á náttborðinu dálítil „southern gothic“ stemning, The Sound and the Fury eftir William Faulkner, All the Pretty Horses eftir Cormac McCarthy, Kaffihús tregans er þar eftir Carson McCullers í þýðingu Óskars Árna Óskarssonar. Kjaftfylli af fuglum eftir Samöntu Schweblin. Þar er líka ný ljóðabók Óskars Árna, Af himnum ofan, myndljóð í einstaklega fallegri ritröð útgáfunnar Þrjár hendur. Svo eru allskonar ljóðabækur; Þyrnar eftir Þorstein Erlingsson, Jónas Hallgrímsson og nokkrar eftir Þorstein frá Hamri svo og ritröðin Þýddar smásögur frá ýmsum löndum, hrein gersemi nýlega uppgötvuð.

Hvar eru gömlu barnabækurnar þínar?

Ég veit ekki hvar þær eru. Þær eru flestar horfnar, ýmist til annarra barna nú þá eða til feðra sinna. Einhvern tímann voru þær í kassa á háalofti en eru þar ekki lengur. Ég passaði upp á gömlu teiknimyndasögurnar, þótt þær séu lúnar og hnjaskaðar. Við erum að tala um Sval og Val, Strumpana, Lukku Láka, Steina Sterka, Palla og Togga og þess háttar, mest belgískar teiknimyndasögur sem voru þýddar á íslensku á áttunda og níunda áratugnum þegar ég var að alast upp.

Lánarðu mikið af bókum?

Ég lánaði meira hér áður fyrr, það voru helst skáldsögur sem ganga á milli manna. Af einhverjum ástæðum hefur þetta minnkað, kannski í réttu hlutfalli þess hve ólesnar bækur hlaðast upp hjá mér. Ég hef líka þann galla eða ósið að vera á móti þeirri bók sem einhver mælir með við mig. Að sama skapi finnst mér óþægilegt að koma bókum upp á annað fólk. En ég er að vinna í að breyta þessu og vera opnari.


Hvernig yrði þér við ef þú kæmir heim einn daginn og búið væri að endurraða öllum bókunum þínum?

Á vissan hátt væri það mjög spennandi að sjá hvort það væri eitthvað skilvirkara og betra og fallegra en mér hafði tekist upp. Það væri ef til vill hægt að lesa út úr röðuninni hver hefði verið að verki út frá ákveðinni þekkingu aðilans, vanþekkingu, smekk, ósvífni og taktleysi. Var þetta haganlega gert eða hroðvirknislegt? Til hins betra eða verra? Var þetta samherji í anda eða andstæðingur? Ef til vill ætti ég eftir að uppgötva ýmislegt í mínum eigin bókum, lesnum og ólesnum, með því að endurraða þeim öllum aftur sjálfur.