Mikilvægt að tengjast visku líkamans
Flest það er tilheyrir lífsskeiði manneskjunnar hefur verið sett í upphafið samhengi. Það má sjá tilgang í öllu. Fegurðina í sorginni, viskuna í ellinni, lausnina í dauðanum. Eitthvað lítið hefur þó farið fyrir slíkri upphafningu þegar kemur að breytingaskeiði kvenna, þessu þó táknræna ferli í lífi hverar konu. Dansarinn Lovísa Ósk Gunnarsdóttir fann sig knúna til að skoða þetta mikla umbreytingaskeið í meistaranámi sínu við Listaháskóla Íslands þar sem hún í lokaverkefninu setti á svið myndskeið af fjölda íslenskra kvenna dansandi heima í stofu.
„Innsæið og flæðið leiddi mig í þetta nám“ segir Lovísa.
Ég hef dansað síðan ég man eftir mér. Þreytti foreldra mína með endalausum danssýningum svo þau sendu mig í dansskóla. Þangað mætti ég mjög samviskusamlega næstu sextán til átján árin nema að ég væri hreinlega með lungnabólgu. Það var aldrei markmiðið mitt að verða dansari, þetta var bara eitthvað sem ég gerði af einhverri frumþörf. Það var ekki fyrr en undir lok framhaldsnáms í Stokkhólmi að ég skildi að ég væri að fara að verða dansari, þá búin að skrá mig í praktískt nám í sjúkraþjálfun í háskólanum.
Í framhaldi fékk ég svo samning við Íslenska dansflokkinn þar sem ég starfaði í ein sextán ár eða þangað til að ég fékk brjósklos og varð að hætta að dansa í fyrsta sinn á ævinni. Og ég varð bara algjört lestarslys! Sem dansari vinnur maður mikið úr sínum andlegu og líkamlegu málum í gegnum dansinn og líkamann svo eðlilega versnaði andleg heilsa mín bara við þetta.
Og hvernig brástu við þessari stöðu?
Ég var með mikið eirðarleysi í líkamanum og sterka þörf fyrir það að hreyfa mig og dansa svo ég gerði það sem ég gat, ég fór út í göngutúra. Eftir einn göngutúrinn fór ég svo rakleiðis heim í stofu, dró fyrir gluggatjöldin, setti á lag sem hafði hringsólað í höfðinu á mér og dansaði!
Mér leið betur við þetta svo ég hélt þessu áfram, út í göngutúr, heim í stofu, tjöldin fyrir, tónlist og dansa og úr varð einhver dagleg praktík hjá mér, sem varð til þess að allt í einu var ég farin að tengjast líkama mínum upp á nýtt. Það varð bara einhver frumtenging og sú tenging fæddi af sér hugmynd að verkefni svo það var bara eins og skrifað í stjörnurnar að sækja um Listaháskólann til að geta kafað í þetta.“
Hvers vegna valdirðu breytingaskeið kvenna sem rannsóknarverkefni?
„Á þessum sama tíma hélt ég að ég sjálf væri að byrja á breytingaskeiðinu. Ég var þarna þrjátíu og níu ára frekar vel lesin og upplýst vestræn kona og ég áttaði mig á því að ég vissi bara ekkert um breytingaskeiðið nema það sem ég hafði séð í bíómyndum. Svo ég fór að lesa mér til og fékk bara algjört áfall þegar ég sá hvað kom upp í gegnum minn vestræna filter Internetsins. Við mér blasti einfaldlega dauði og djöfull! Einhver hræðilegur sjúkdómur sem við tölum ekki um. Ég treysti mér hreinlega ekki til að hringja í lækni og fá niðurstöðurnar mínar því ég var ekki tilbúin að horfast í augu við það að vera komin á breytingaskeiðið. Mér fannst bara ímynd mín vera í húfi og að vinir og fjölskylda myndu upp frá þessu líta mig öðrum augum. Eina stundina var ég bara í á hátindi lífs míns og þá næstu dottin úr leik. Það kom svo upp úr kafinu að ég var ekki komin á breytingaskeiðið en áttaði mig þarna á því að svona skildi það ekki verða þegar ég stíg inn í það einn daginn.
Þetta hafði svo mikinn samhljóm með mínum umbreytingum, því að þurfa að hætta að dansa því hormónabúskapur konunnar, líkami hennar og sjálfsmynd tekur heilmiklum breytingu í gegnum þetta ferli og sú staðreynd talaði sterkt inn í mína vanlíðan. Sú hugsun lét mig ekki í friði að þessi daglega praktík mín, sem aðstoðaði mig við að tengjast líkama mínum upp á nýtt gat mögulega hjálpað fleirum.“
Hvers varstu svo vísari í öllu þessu ferli?
Ég auðvitað las og las og talaði við fjölmargar konur og sá þá fljótt að það að líta á þetta sem skammarlegan sjúkdóm er mjög vestræn nálgun. Í öðrum samfélögum er breytingaskeiðinu fagnað, konur öðlast frelsi og færast jafnvel ofar í virðingarstiganum. Í sumum löndum klæða konur sig meira að segja upp til að þykjast vera komnar á breytingaskeiðið því þar þykir það eftirsóknarvert.
Í ferlinu var mér boðinn aðgangur að 5000 manna hópi á Facebook þar sem fram fara uppbyggileg samtöl, deilingar á greinum og ráðleggingar fram og til baka og þar áttaði ég mig á því að þessar konur voru ekkert feimnar við að tala um þetta, ég hafði bara aldrei spurt! Það hefur á einhvern hátt aldrei verið í boði að tala upphátt um breytingaskeiðið. Það þykir bara óþægilegt og á því er enginn áhugi. Þar með eru konur að ræða þetta sín á milli í einhverjum bakherbergjum samfélagsins.
Það var mjög eflandi að átta sig á því að hin vestræna nálgun er bara ein leið af svo mörgum. Og svo áhugavert að skoða hvernig margar konur nota þetta tímabil til að endurskoða sjálfa sig, kynnast sér og koma svo sterkari út úr þessu mikla skeiði í lífi konunnar. Margar konur upplifa frelsi frá því að vera fyrst og fremst sætar og frjóar yfir í það að vera gildar, reynslumiklar manneskjur með mikið fram að færa.
Finnst þér þá spennandi tilhugsun í dag að takast á breytingaskeiðið nú þegar þú ert búin að vingast við það?
Já! Núna er ég komin með tæki og tól, búin að kynnast öllum þessu mögnuðu, „bad ass“ konum sem eru búnar að fara í gegnum þetta, og það er svo valdeflandi að uppgötva að þetta er enginn dauðadómur.
Hvernig væri sá heimur þar sem ekki væri þörf á verki sem þínu?
Heimur þar sem komið væri af virðingu fram við þetta þroskaskeið konunnar í stað þess að líta á það sem eitthvert fölnandi ferli. Heimur þar sem við metum reynslu allra þessara kvenna í stað þess að dæma þær úr úr leik.
Verkið When the bleeding stops verður tekið til sýninga Á Reykjavík Dance Festival og Lókal í nóvember 2020. Fram að því getur fólk sett á þessi lög sem fyrst hringsóluðu í höfðinu á Lovísu, dregið fyrir gluggatjöldin og dansað heima í stofu.