List er allt en ekki allt er list

Óskari Þór Ámundasyni er margt til lista lagt, enda listamaður með eindæmum. Óskar veitir okkur innsýn í hugarheim hæfileikamanns og segir okkur frá sjálfum sér, lífinu, og hvaða þýðingu listin hefur fyrir hann.

 

 

Sæll Óskar, hvernig hefur þú það? Geturðu sagt mér aðeins frá sjálfum þér?

Ég hef það gott, takk! Ég heiti Óskar Þór Ámundason og er 26 ára listamaður fæddur og uppalinn í Vesturbæ Reykjavíkur.

Hvað hefur þú veriđ ađ fást við undanfariđ?       

Ég útskrifaðist frá myndlistadeild Listaháskóla Íslands fyrir ári síðan og sýndi útskriftarverkið mitt á Kjarvalsstöðum. Verkið mitt var innsetning úr þó nokkrum skúlptúrum sem ég hef verið að vinna með seinustu ár. Skúlptúrarnir fólu í sér súrrealíska nálgun á hluti sem eru mjög eðlilegir, eins og t.d. bláar gallabuxur, en þær tók ég og lengdi úr öllu valdi þannig að skálmarnar urðu um það bil átta metrar að lengd. Ég hengdi buxurnar upp í loft og lét þær hanga yfir reiðhjóli sem var með sjö metra hnakki. Á veggnum gastu séð tvö málverk sem sýndu vasaúr og ef þú horfðir í gegnum dekkin á reiðhjólinu gastu séð úrin þar í gegn. Með þessu var þ.á.m. markmið mitt að fá áhorfandann finna fyrir tímanum sem á sér stað í stöðnuðum hlut.

 

Listir eru fyrir mér frávik normsins…

Mér skilst að þú komir úr mikilli listamannafjölskyldu. Er áhugi þinn á myndlist þér í blóð borinn?

Áhuginn á myndlist kviknaði almennilega hjá mér þegar ég hafði lokið fyrsta árinu í Listaháskólanum. Þá fór ég í ferð til Munster í Þýskalandi á listahátíðina Skulpturprojekten sem er haldin á tíu ára fresti og upplifði þar innsetningar eftir þungavigtar myndlistarmenn á borð við Gregor Schneider og Pierre Huyghe. Það gjörbreytti skynjun minni á heiminum.
 Þrátt fyrir að hafa alist upp í kringum myndlist frá unga aldri og átt tvo eldri bræður sem eru starfandi myndlistarmenn, þá kviknaði áhuginn á myndlist aldrei almennilega fyrr en þarna. Þó svo að ég hafi verið byrjaður að læra þetta, fagið á þeim tímapunkti.

Hvað er fram undan hjá þér?

„Eins og er þá er ekkert fram undan í myndlistinni þar sem að ég tók mjög meðvitaða ákvörðun um að halda mig til hlés í allavega eitt ár, og eru sirka níu mánuðir eftir af þeirri pásu. Þrátt fyrir að ég sé í verkpásu þá er hugurinn alltaf að vinna og skrifa ég niður hugmyndir af mögulegum verkum niður í símann, tölvuna eða teikna skissur í skissubókina. Ég ákvað að taka pásu vegna þess að ég vil ekki þrýsta á sköpunarbrunninn í heilanum mínum. Ég trúi að ég fái innblástur úr hinum eðlilega farvegi meðallífsins og þarf núna nokkra mánuði í að einbeita mér að því að vera eðlilegur samfélagsþegn á launum.

Hvaða þýðingu hafa listir fyrir þig?

Listir eru fyrir mér frávik normsins. Frávik normsins sem heltekur allt of margar sálir og hugsuði á þessari jörðu og breytir þeim í uppvakninga og þræla kapítalismans. Listin er farvegur undirmeðvitundar mannfólksins og á sér stað þegar við reynum að setja hið ósegjanlega og óskiljanlega í veraldlegan hlut, svo að við getum gefið af okkur og til þess að hinir geti skilið okkur. Listin frelsar manninn og hún breytir skilningi manns á lífinu. List er allt en ekki allt er list.

 

Ég þakka Óskari kærlega fyrir áhugavert spjall um hvaða leyndardóma listin hefur að geyma. Það var mjög fróðlegt að fræðast um skúlptúrverk Óskars og hvernig áhuginn á myndlist kviknaði. Það verður áhugavert að sjá hvað hann Óskar dregur fram úr erminni eftir níu mánuði – þegar hann snýr aftur úr dvala, ef til vill fullsaddur af því að vera eðlilegur samfélagsþegn á launum.