Hið ósýnilega sköpunarferli dagskrárgerðar

Hið ósýnilega sköpunarferli sem fer fram áður en verk fær að líta dagsins ljós hefur ávallt heillað mig. Því vakna ávallt endalausar spurningar upp hjá mér á borð við: Á hvaða kafla byrjaði rithöfundurinn? Hvort kom á undan, bakgrunnurinn eða smáatriðin? Hversu langan tíma tók verkið og hverju var sleppt. Þetta hulda ferli býr í öllum hlutum og þá ekki síst í menningarlegum verkum á borð við sjónvarps- og útvarpsþætti. Ég ræddi því við Jórunni Sigurðardóttur, dagskrárgerðarkonu á Rás 1, varðandi hennar upplifun á ferlinu.

Jórunn Sigurðardóttir hóf störf sín hjá Ríkisútvarpinu árið 1979 sem lausráðin dagskrárgerðarkona en hefur nú verið fastráðin í þrjá áratugi. Hún hefur verið með fjöldann allan af útvarpsþáttum í gegnum tíðina, má þar nefna unglingaþáttinn Gagn og Gaman, samtíma bókmenntaþættina; Aldarlok, Hjálmaklett og Seiður og hélog. Í dag er hún með hina vinsælu þætti Orð um bækur ásamt því að skrifa ýmsar menningargreinar fyrir vef Ríkisútvarpsins.

Ferill Jórunnar hófst á leiksviðinu, enda er hún menntuð leikkona ásamt almennri bókmenntafræði. Aðspurð hvað varð til þess að hún færði sig yfir í dagskrárgerð Ríkisútvarpsins segist hún hafa hrifist af samtalinu við áheyrendur án milligöngu höfunda: ,,Þegar ég byrjaði að vinna á útvarpinu, fyrst lausráðin við gerð barna- og unglingaþátta og síðar fastráðin, var staða útvarpsdagskrár þannig að maður fékk sterka tilfinningu fyrir því að vera í samtali, að tala beint til áheyrenda án milligöngu höfundar. Það passaði í raun betur við áhuga minn á fólki og að greina skapandi þátttöku í umhverfi sínu og vera í raun samtímis þátttakandi.“ 

„Dagskrárgerð er skemmtileg jafnvægislist milli hins hefðbundna og kunnuglega“

Hún tekur einnig fram að dagskrárgerð sé skemmtileg jafnvægislist milli hins hefðbundna og kunnuglega og þess að uppgötva eitthvað nýtt, koma á óvart. Útvarpsdagskrá er fjölbreytt sköpun sem alls konar afbragðsfólk tekur þátt í að gera áhugaverða fyrir hlustendur og kynnir fyrir þeim nýja kima. Og svo er vinnan í útvarpinu líka föst vinna með stabílum launum öfugt við leikhúsið sem Jórunn segir hafa verið mikið ströggl.

En er starf við dagskrárgerð krefjandi, þurfandi sífellt að vera að finna nýtt efni og bera það fram á áhugaverðan hátt? Jórunn segir það vera létt vegna þess að hún hefur yndi af því: ,,Mér finnst gaman að lesa nýjar bækur, gaman að tala við fólk um þær og gaman að setja þætti saman úr lesnum texta, viðtölum og tónlist. Hrynjandi og þagnir skipta þar miklu máli og ég á auðvelt með að lifa mig inn í það ferli.“ En hún segir það hins vegar draga úr skemmtuninni þegar það skerðist um almennt samtal við kollega vegna þess að markaðslögmálin þ.e. hlustunartölur fara að skipta æ meira máli. Aðspurð hvort hún gæti nefnt dæmi um sérstaklega krefjandi verkefni segir hún: ,,Mest krefjandi en jafnframt skemmtilegast er að birta í útvarpi mynd af höfundi eða öðrum listamanni. Einnig mynd af ákveðnu samhengi, landafræði og bókmenntum til dæmis og nota til þess tónlist jafnt sem texta, eigin hugleiðingar og annarra um það sem um er fjallað.“ Hún nefnir einnig tíma sem krefjandi hluta af þáttagerð því framsetningin, þ.e. innslagið, má ekki vera of langt en það verður að koma fyrir í því upplýsingum og upplifun fyrir hlustandann.

,,Við hvern þátt þarf að finna út hvernig form viðkomandi þáttur vill taka á sig…“

Þar sem ég er mikil áhugakona um sköpunarferlið í heild sinni spurði ég Jórunni út í verklag hennar við þáttagerð. Hún segir það fara líklega svolítið fingrum fram í hvert skipti: ,,Við hvern þátt þarf að finna út hvernig form viðkomandi þáttur vill taka á sig. Það er stundum flókið og tímafrekt að finna út úr því en þegar það er komið ganga hlutirnir yfirleitt fljótt fyrir sig; hlutirnir raðast svolítið sjálfkrafa niður þótt auðvitað þurfi stundum að pæla dálítið, leyfa að gerjast og jafnvel umbylta þætti. Alls ekki alltaf rétt að byrja á byrjuninni.“ Hún segir mikinn tíma fara í lestur á skáldskap en greinar les hún eftir hendinni í tengslum við stefnur, strauma og tilhneigingar sem tengjast þeim skáldverkum sem hún er að fjalla um hverju sinni. Val hennar á bókum byggist annars vegar á hennar persónulegu löngun til þess að fjalla um þær en hins vegar velur hún einnig bækur vegna þess að henni finnst að það þurfi að skoða þær og segja frá. Skemmtilegast þykir henni að kynnast verkum eftir nýja höfunda eða höfunda sem koma annars staðar frá, eiga sér ekki íslensku að móðurmáli.

,,Fjallaðu um það sem vekur þér áhuga. Forvitni dagskrárgerðarfólksins vekur forvitni hlustendanna…“

Verandi með vinsæla þætti á Rás 1, Orð um bækur, langaði mig að forvitnast aðeins um hvers konar bækur Jórunn hrífst persónulega af og geymir í sínu einkasafni. Jórunn segir að í hennar persónulega safni séu ljóðabækur í fyrirrúmi, „Gerður, Steinunn, Sigurður Pálsson, Sigurlín, Sigurbjörg, Vilborg og, og og!“ Skáldsögur á hún aðallega sem söfn ákveðinna höfunda en einnig stöku bækur sem hafa haft áhrif á hana. Tilraunakenndar og skrítnar skáldsögur heilla hana mest og af íslenskum höfundum hrífst hún til að mynda af Kristínu Ómarsdóttur, Vigdísi Grímsdóttur og þá sérstaklega af hennar eldri verkum, Svövu Jakobsdóttur, Guðrúnu Evu Mínvervudóttur, Jakobínu Sigurðardóttur, Rögnu Sigurðardóttur og fjölmörgum öðrum. Hún nefnir einnig verk eftir Braga Ólafsson og Eirík Arnar Norðdahl sem eiga það til að heilla hana. Af erlendum höfundum hreifst hún ósegjanlega að Italo Calvino og Joerges Borges sem hún las í þýskum þýðingum en einnig hefur hún talsvert fjallað um og kynnt sér verk Ohrans Pamuk, Olgu Tokarczuk, Helle Helle og ótal fleiri. Bestu ferðabækurnar eru skáld – og ljóðabækur af framandi slóðum. Yfirlýstar sjálfsævisögulegar bækur heilla hana síður en slíkt hefur verið vinsælt hjá höfundum á síðustu áratugum.

Að lokum langaði mig til þess að kanna hvort Jórunn hefði eitthvert ráð til upprennandi dagskrárgerðarfólks, hún hafði þetta að segja: ,,Fjallaðu um það sem vekur þér áhuga. Forvitni dagskrárgerðarfólksins vekur forvitni hlustendanna. Að uppgötva sjálfur er hluti af aðdráttaraflinu og gerir vinnuna líka miklu skemmtilegri fyrir mann sjálfan.“