Áhugaverð námskeið

Viðtöl við kennara

library, books, tv

ABF324G
Bókmenntir innflytjenda (viðtal)

Í námskeiðinu verður fjallað um bókmenntir innflytjenda frá ólíkum heimshornum. Litið verður til fjölbreyttra bókmenntaforma; skáldsagna, ljóða, sjálfsævisagna og endurminninga innflytjenda frá ýmsum löndum og á ýmsum tímum. Markmiðið er að kanna menningarlega orðræðu, sögulega þróun, byggingu, og bókmenntategundir sem endurspegla fólksflutninga í áranna rás þó með sérstaka áherslu á samtímann. Þá verður litið á mismunandi hugmyndir um sjálfið, stöðu minnihluta gagnvart fjöldanum og áherslu á landslagslýsingar, borg og náttúru. Athyglinni verður einnig beint að endurteknum þemum í textunum á borð við hugmyndir um fyrirheitna landið, um átök gamla og nýja heimsins og hlutverk tungumáls í myndun sjálfsmyndar og aðlögun að nýjum háttum. Lesnir verða frumtextar og fræðigreinar um þessi efni (sjá nánar í kennsluskrá).

Kennari: Gunnþórunn Guðmundsdóttir

ABF409G Boccaccio og Chaucer (viðtal)

Námskeiðið fjallar um tvo af þekktari höfundum miðalda, hinn ítalska Giovanni Boccaccio og Geoffrey Chaucer sem vann og bjó í London á fjórtándu öld. Chaucer hefur að öllum líkindum komist í kynni við verk Boccaccio og því áhugavert að lesa verkin þeirra saman og íhuga hvað þau geta sagt okkur um menningarheim þessara tveggja höfunda, þar með talið Flórens, Napólí og Bretland. Báðir lifðu í gegnum Pláguna miklu og þekktasta verk Boccaccio, Tídægra (Decamerone), er einmitt sviðsett í plágunni og lýsir því hvernig miðaldamenn tókust á við þess ógn – eitthvað sem við getum öll tengt við þessa dagana. Við lesum því nokkur verk þeirra og berum saman hvernig þessir höfundar takast á við sama efni, t.d. hvað varðar stöðu kynjanna, kynhlutverk og hugmyndir um kynlíf, mannleg samskipti, húmor, afleiðingar plágunnar og ýmislegt annað. (sjá nánar í kennsluskrá).

Kennari: Sif Ríkharðsdóttir


ÍSB718F
Grímur Thomsen og 19. öldin (viðtal)

Í tilefni af því að 2020 eru liðnar tvær aldir frá fæðingu Gríms Thomsens (f. 1820) verður fjallað um höfundarverk hans og samtíma. Grímur endurspeglar 19. öldina á fyllri hátt en flestir Íslendingar enda var hann virkur þátttakandi í menningu og stjórnmálum síns tíma. Hann var bókmenntafræðingur, ljóðskáld, Skandinavisti, háttsettur í utanríkisþjónustu Danaveldis, ferðalangur, bóndi, þýðandi og Byronisti. Hugað verður að þessum þáttum í ævi hans og starfi og lesnir ýmsir textar sem sýna breidd hans og fjölhæfni. Gestafyrirlesarar varpa ljósi á einstaka þætti í sögulegu samhengi. (Sjá nánar í kennsluskrá),

Kennari: Sveinn Yngvi Egilsson

ABF819F Kvennabókmenntir (viðtal)

Í þessu námskeiði verða lesnar bókmenntir kvenna allt frá Sappho og miðaldakvenhöfundum til síðari tíma höfunda eins og Charlotte Brontë, Virginia Woolf, Karen Blixen og Zora Neale Hurston.  Við munum lesa eitthvað af fræðilegu efni meðfram skáldskapnum en aðaláherslan verður á að vinna með verkin sjálf, staðsetja þau í sögulegu og menningarsögulegu samhengi.  Hvað eiga þessir höfundar sameiginlegt, annað en að vera konur?  Er hægt að tala um kvenhöfunda sem sérstakan hóp eða er slíkt í sjálfu sér staðfesting og viðurkenning á þeim kynjaaðskilnaði sem margir þessara höfunda hafa barist gegn?  Áherslan verður á lestur og greiningu verkanna og samanburð milli verka, tímabila og menningarheima.  Ætlast er til að nemendur komi vel undirbúnir í tíma þar sem áhersla verður á að vinna náið með textana í tíma. (sjá nánar í kennsluskrá).

Kennari: Sif Ríkharðsdóttir

ABF501F Nýjar stefnur og straumar í bókmenntarýni: Vistrýni, hinsegin fræði, tilfinningar og minni (viðtal)

Námskeiðið byggir á því að rýna ítarlega í valdar fræðikenningar í bókmenntafræðum frá síðastliðnum árum með nemendum. Við munum lesa kennisetningar og valda texta innan ýmissa fræðistefna saman á fyrri hluta námskeiðs en á síðari hluta námskeiðs munu nemendur beita kenningunum á texta að eigin vali. Dæmi um mögulegar fræðistefnur eru vistrýni, hinsegin fræði, tilfinningarannsóknir, minnisrannsóknir o.s.frv. Námskeiðinu er þannig ætlað að virkja nemendur í að vinna með fræðikenningar og beita þeim á texta frá mismunandi tímabilum og mála- og menningarsvæðum. Fræðikenningarnar taka mið af nýjustu stefnum og straumum innan fræðanna og sérsviðum kennara og taka því breytingum ár frá ári.

Nemendum er frjálst að taka námskeiðið tvisvar yfir námsferilinn enda eru viðfangsefnin sem tekin verða fyrir breytileg og verður námskeiðið því merkt samkvæmt því í ferli nemenda. (sjá nánar í kennsluskrá).