Grímur Thomsen og 19. öldin

Sveinn Yngvi
Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor

Hvað heitir námskeiðið?

Það ber heitið „Grímur Thomsen og 19. öldin“ og er í boði á haustmisseri 2020. Námskeiðið er kennt á meistarastigi í íslenskum bókmenntum og almennri bókmenntafræði. (Þetta námskeið telst sem val utan greinar. Nemendur mega taka 30 einingar utan greinar).

Um hvað er námskeiðið?

Það fjallar um höfundarverk Gríms og samtíma hans. Grímur endurspeglar 19. öldina á fyllri hátt en flestir Íslendingar enda var hann virkur þátttakandi í menningu og stjórnmálum síns tíma. Hann var bókmenntafræðingur, ljóðskáld, Skandinavisti, háttsettur í utanríkisþjónustu Danaveldis, ferðalangur, bóndi, þýðandi og Byronisti. Við munum huga að þessum þáttum í ævi hans og starfi og lesa ýmsa texta sem sýna breidd hans og fjölhæfni.

Er efni námskeiðsins eitthvað sem þú hefur verið að rannsaka?

Já, ég hef rannsakað Grím og skrifaði um hann í doktorsritgerð minni, Arfi og umbyltingu, en með mér í námskeiðinu verða einnig gestafyrirlesarar sem hafa rannsakað Grím og samtíma hans. Þar á meðal eru Erla Hulda Halldórsdóttir, sem hefur rannsakað konur á þessum tíma og meðal annars Jakobínu, eiginkonu Gríms, og Guðrún Þórhallsdóttir, sem hefur rannsakað íslensku og tungutak 19. aldar. Auk eru meðal gestafyrirlesara þeir Hjalti Snær Ægisson, sem hefur gefið út bréf Gríms og rannsakað þýðingar hans úr grísku, og Kristján Jóhann Jónsson, sem skrifaði fyrir nokkrum árum doktorsritgerð um ævi og störf Gríms, þannig að við fáum að sjá ýmsar hliðar á þessum áhugaverða manni og fólkinu í kringum hann.

Hvernig er efni námskeiða ákveðið?

Í þessu tilviki er námskeiðið haldið í tilefni af því að árið 2020 eru liðnar tvær aldir frá fæðingu Gríms (f. 1820). Bókmennta- og listfræðastofnun ætlar að halda stóra ráðstefnu um Grím og samtíma hans 16. maí næstkomandi og námskeiðinu er ætlað að fylgja henni eftir í haust og gera völdum þáttum í ævi og störfum Gríms nánari skil.

Hvaða verk verða lesin?

Við munum lesa ýmis verk eftir Grím, allt frá ljóðum og þýðingum til fræðiskrifa hans, en Grímur var einn fyrsti bókmenntafræðingur okkar og var mjög áberandi í menningarumræðu á Norðurlöndum um miðja 19. öld. Hann var líka Byronfræðingur og hafði þannig lifandi áhuga á samtímabókmenntum en einnig á forníslenskum og fornklassískum menntum, þannig að hann sameinar svo margt að fornu og nýju og allir ættu því að gefa fundið þar eitthvað við sitt hæfi.