Viðtal við Gerði Kristnýju
Fellur aldrei verk úr hendi
Árið 1994 kom út ljóðabókin Ísfrétt eftir Gerði Kristnýju. Henni var stillt út í glugga Máls- og menningar á Laugavegi 18, lítilli ljóðabók eftir unga konu sem síðar átti eftir að verða eitt fremsta nútímaskáld íslensku þjóðarinnar. Það vissi það enginn þá en þessi bók með sínum tuttugu ljóðum kom Gerði Kristnýju af stað í heimi bókmenntanna.
Í dag starfar Gerður Kristný sem rithöfundur og skáld. Hún lauk BA-prófi í frönsku og bókmenntafræði árið 1992 frá Háskóla Íslands.
„Ég tók bókmenntafræði sem aukafag því ég vissi að ég myndi fást við bókmenntir í framtíðinni og grunaði því að námið kæmi mér vel,“ segir Gerður Kristný aðspurð hvers vegna hún fór í bókmenntafræðina. „Það var mér nauðsynlegt að temja mér réttu hugtökin og vera þar með fær um að greina bókmenntir og ræða þær. Svo var hvetjandi að umgangast hóp sem var jafnáhugasamur um bókmenntir og ég.“
Hlustaði á Rihönnu og samdi meistaraverk
Gerður Kristný hefur gefið út alls 29 bækur, þar á meðal skáldsögur, ljóðabækur og barnabækur. Enn fremur hefur hún hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar, s.s. Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ljóðabókina Blóðhófni sem einnig var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness fyrir skáldsöguna Bátur með segli og allt, bókmenntaverðlaun barnanna fyrir barnabókina Mörtu Smörtu og svo framvegis.
Verkin vinnur hún í litlu forstofuherbergi heima hjá sér á meðan hún hlustar á tónlist af ýmsu tagi. Tónlistin er fastur liður í vinnu hennar og hlustar hún á mismunandi tónlist eftir því hvert verkið er.
„Í febrúar var tónverk sænska tónskáldsins Karin Rehnqvist við Blóðhófni flutt í Stokkhólmi og ég fór út til að hlýða á tónleikana. Daginn eftir var haldin fjölmenn ráðstefna um verkið og við Karen og þýðandinn John Swedenmark sátum fyrir svörum. Í lokin var ég spurð hvaða tónlist ég hefði hlustað á meðan ég samdi Blóðhófni. Mig grunaði að ég ætti að nefna Shostakovich eða eitthvað í þeim geira en ákvað að vera ekki að ljúga að óþörfu. „Rihönnu,“ svaraði ég því sannleikanum samkvæmt og salurinn sprakk úr hlátri,“ rifjar Gerður Kristný hlæjandi upp og heldur svo áfram „Þegar ég samdi Sálumessu hlustaði ég á kvikmyndatónlist Jóhanns Jóhannssonar en nú er ég að semja barnabók og hlusta á Folklore með Taylor Swift.“
Vinnan felst í því að sitja sem fastast við skjáinn
En hvernig er vinnan við að gefa út bók?
„Vinnan mín felst í því að sitja sem fastast fyrir framan tölvuna mína og skrifa. Stundum fæ ég ritstjórann minn, Sigþrúði Gunnarsdóttur, til að lesa yfir hjá mér meðan á samningu stendur en oftast ekki fyrr en ég er farin að sjá til lands. Þá fer líka alvöru ritstjórn í gang.“ útskýrir Gerður.
Gerður Kristný gefur út bók á hverju ári og því eru samskipti hennar og ritstjórans svipuð ár eftir ár. Gerður vill alltaf fá að sjá handritið áður en það fer í prentun og þrátt fyrir orð ritstjórans um að breyta ekki neinu á því stigi viðurkennir hún að hún fikti svolítið í handritinu.
Áhrif COVID-19 á rithöfundarstarfið
Á þessu ári hefur kórónuveiran geisað hér á landi sem víðar og sett sitt mark á samfélagið. Rithöfundar eru engin undantekning þegar kemur að ástandinu sem skapast hefur vegna veirunnar og hefur Gerður Kristný fundið fyrir áhrifum hennar við störf sín.
„Undanfarin áratug hef ég ferðast mikið starfs míns vegna. Mér hefur verið boðið á bókmenntahátíðir út um allan heim þar sem ég hef lesið úr eigin verkum og sagt um leið frá íslenskum bókmenntum. Þessar ferðir lögðust af með Coveitinu. Þar með færðist ró yfir líf mitt og um leið tóku hugmyndirnar að spretta fram hver á fætur annarri,“ segir Gerður Kristný sem tókst að ljúka við barnabókina Iðunn og afa pönk sem kemur út í október. Þá vinnur hún nú að því að skrifa framhald bókarinnar auk þess sem hún er að semja nýja ljóðabók og er með skáldsögu í smíðum.
„Þegar mig rekur í vörðurnar í handriti tek ég óðara til við eitthvert annað verk. Þannig fellur mér aldrei verk úr hendi.“ segir hún að lokum.