Þrjú ljóð
Kveðið í myrkri
Nóttin er undurhljóð,
myrkrið gleypir orðin
er ég kveð lítið ljóð.
Ljóð um stjörnurnar
sem stirnir á,
ljóð um vatnið
sem enginn á.
Skáldin hafa lengi
ást sína tjáð,
eða slegið strengi
sorgar sinnar á
Skáldin eru mörg.
en ljóðin fá.
þau segja það sama.
ef hlustað er á.
Nóttin gleypir orðin,
og vatnið gárast við sand.
ljóðið rennur sem vatnið
uns það er strand.
Bylgjurnar rísa og hníga.
í takti við tunglið,
svo kastar þú steini
út í svart djúpið.
Í vatnið sem enginn á.
vatnið sem stjörnurnar stirna á.
Þannig er ljóð mitt.
samið í myrkri.
steinn í öldurnar sem enginn á.
Haust
Napur vindur blæs
suður yfir fjallstinda,
laufin sölna.
Regnský hrannast upp
þungir dropar falla
á föl andlit.
Hrollurinn hríslast upp hrygginn,
varirnar bláar af kulda,
augun brostin og brosið frosið.
Haustnæturdraumur
Glitrandi miðnæturskart
prýðir svart flauelsbeð
og grænt lampaljós
flöktir um
og teygir sig lengra,
lengra norður.
Svöl gola
feykir laufi
út í drauminn.
Næturgalinn
tekur undir
og kveður óð
til karlsins.
Bakvið fjöllin sefur
systir sæl.