Þriðji póllinn

Opnunarmyndin á RIFF 2020 var heimildarmyndin Þriðji póllinn, sem sýnd er í þremur kvikmyndahúsum. Myndin er að mestu tekin í fjarlægu landi þar sem fílarnir ganga í takt en þetta land er Nepal í Suður Asíu.

Tveir sögumenn fjalla um lífshlaup sitt, það eru þau Anna Tara Edwards og Högni Egilsson, sem eiga það sameiginlegt að vera greind með geðhvarfasýki (manio depressívan sjúkdóm). Sögur þeirra og bakgrunnur er ólíkur en báðar snerta þær viðkvæma strengi. Myndin er bæði dramatísk og athyglisverð.  Fallegir tónar eru töfrandi og myndatakan engu öðru lík. Leikstjórar eru Andri Snær Magnason og Anní Ólafsdóttir.

Mér fannst forvitnilegt að vita meira um leikstjórann, Anní Ólafsdóttur, sem er yngri en Andri Snær og ekki eins þekkt.  Ég var svo heppin að Anní var til í að svara nokkrum spurningum.

Anní Ólafsdóttir

Hvert var fyrsta verkefnið sem þú leikstýrðir?

„Eftir útskrift vann ég aðallega sem tökumaður og klippari og tók að mér listræna stjórnun líka. Svo fyrir utan útskriftarmyndina mína 2012, var fyrsta leikstjórnarverkefnið mitt árið 2013. Það var tónlistarmyndband fyrir Rökkurró við lagið Backbone. Við leikstýrðum því tvær vinkonur saman og enduðum á að fá tilnefningu fyrir besta myndbandið á Íslensku tónlistarverðlaununum.“

Hvaða menntun ertu með?

„Það var frekar tilviljanakennt að ég fór í kvikmyndanám en ég er menntuð  í handrita- og leikstjórn.  Annars ætlaði ég alltaf í myndlistarnám.“

Hvernig kom það til að þú og Andri Snær leikstýrðuð þessari mynd saman?

„Högni Egilsson hafði samband við mig, sagði mér að til stæði að fara til Nepal fyrir gott málefni og spurði hvort ég vildi koma með. Svo hittumst við Andri Snær eiginlega bara á flugvellinum í fyrsta skipti, þekktumst lítið sem ekkert fyrir það.“

Hefur þú einhverja reynslu af geðsjúkdómum, eða einhver í þínu nærumhverfi?

„Nei, enginn í mínu nærumhverfi er með geðhvörf. En geðsjúkdómar eru mjög algengir, ég þekki nokkra sem hafa glímt við þá og aðra sem eru aðstandendur.”

Hvaða skilaboð vildir þú senda áhorfendum með heimildamyndinni Þriðja pólnum? Hvað er mikilvægast, og af hverju?

„Mig langaði til að sýna dýptina af tilfinningum sem fólk með geðhvörf upplifir. Ég vonaðist til að myndin gæti skapað umræðu til að ungt fólk sem er að greinast með sjúkdóminn hefði flottar fyrirmyndir og að hún gæti átt þátt í því að lyfta burt skömminni sem hefur fylgt því að greinast með geðsjúkdóm eða hafa farið inn á geðdeild. En líka bara að þarna væri eitthvað hrátt og mannlegt sem allir gætu tengt við.“

Eftir að viðtali lauk velti ég fyrir mér því sem Anna Tara og Högni greindu frá í viðtali við Fréttablaðið, varðandi hvernig myndin varð til. Anna Tara, annar sögumaður myndarinnar, hafði samband við Högna Egilsson frá Nepal eftir að hafa lesið áhrifaríkt viðtal við hann. Í viðtalinu lýsir Högni því á opinskáan hátt að hann hafi greinst með geðhvarfasýki fyrir nokkrum árum. Anna Tara ákvað að fara sömu leið og hann, tala upphátt um sjúkdóminn, sem hún hafði falið áður. Í framhaldinu ákvað hún að efna til tónleika í Katmandú og vildi fá Högna í lið með sér.

Ágóðinn af tónleikunum rann til  hjálparlínu sem nýlega var opnuð fyrir fólk í sjálfsmorðshugleiðingum í Nepal. Heimildamyndin varð til í framhaldinu og með flottum leikstjórum. Heimildarmyndin á eflaust eftir að skapa umræðu hér á landi og færa fólki von.