T. S. Eliot og lágmálsbrot íslenskrar dægurtónlistar
„Skáldskapur er lifandi heild alls þess skáldskapar sem ortur hefur verið“ – T. S. Eliot (kenningar um hefðarhugtakið).
Eliot sagði enn fremur að til þess að tryggja sér sess í þessu heildarsafni ritaðra texta verði verk að vera tímalaust. Hvað þýðir það? Jú, skáldinu ber að miðla í verkum sínum tímalausum sannindum, umbreyta sammannlegum gildum og átökum yfir í myndir og orð og slíta þar með sína eigin persónu, líf og umhverfi frá verkinu. Skáldið skal iðka sífellda sjálfstjórn og útþurrkun á eigin persónuleika. Þannig og aðeins þannig hljóti verk sess sinn í þessu heildarsafni skáldskapar og lifir af allar mannlegar og samfélagslegar hræringar. Forsenda þessarar ópersónulegu tjáningar skáldsins er svo sú að skáldskapur sé ekki tilfinningaleg útrás höfundar heldur beri skáldinu að miðla raunum sínum og upplifunum á tilvistinni á vitrænan hátt og höfða þar með til skilnings lesandans, alls ekki tilfinninga.
Hvað herra Eliot myndi segja ef honum væri skotið inn í nútímann og fengi að hlýða á ferska íslenska dægurtónlist dagpart er erfitt að segja. Og þó, sennilega brygði honum í brún enda hefur menning og samfélag tekið miklum breytingum síðan hann var og hét. Síðustu örfáu áratugi hefur sprungið út sem blóm að vori, tja… öllu heldur sem íturvaxin graftarkýli allt það mannlega óréttlæti og sálarangist sem til þessa hefur dúsað ofan í kistu, kyrfilega niðurtroðið og illa lyktandi. Fyrir vikið hafa persónulegar játningar, sorgir og sársauki fyllt síður dagblaðanna svo mörgum þykir nóg um. Þó fer auðgreinanlegur hljómur léttis um allan bæ. Andvörp, dæs og þríradda jeddúddamíur heyrast víða því nú má loksins segja frá. Öðrum líður eins og mér!
Listir hafa alla tíð endurspeglað samfélag og tíðaranda og því ekki að undra að dægurlagatextar samtímans séu litaðir þessu flæði persónulegrar og tilfinningaríkrar tjáningar. Þær dægurlagastjörnur sem nú loga sem skærast opna sig upp á gátt, syngja bælingarlaust frá sér ómatreiddar tilfinningar, „beint af býli“, án þess að hirða um táknræna ummyndun og duldar meiningar. Það væri auðveldlega hægt að handtýna setningar úr textum Auðar, Bríetar, Emmsjé Gauta og Herra Hnetusmjörs málinu til stuðnings en þá er hætt við að hér yrði dregin upp of einföld mynd af þeirra textasmíð. Litróf skáldskapar þeirra felur auðvitað í sér fleiri blæbrigði en þau sem styðja þá hugsun sem hér er framreidd.
Heilt yfir tel ég þó að það dyljist engum sem hlýtt hefur á tónlist þeirra að sjálfið er fyrirferðarmikið í dægurlagatextum nútímans og mikið um hráfæðistilfinningar, lóðbeint upp úr kytrum sálarlífsins. Textarnir eru fyrir vikið lítið upphafnir og í beinum tengslum við skáldin svo ungir íslendingar hafa að þeim greiðan aðgang og samsama sig þeim hindrunarlaust sem eykur svo á vinsældir. Enda er yngri kynslóðin öll sprottin upp úr þessum jarðvegi opinberana og sjálfsskoðunar. Nú er í boði að vera með tilfinningar án þess að það flokkist sem tilfinningasemi, viðkvæmni eða óttalegt væl og er það vel. Því þó það sé á köflum á kostnað annarra eiginleika í manneskjunni (og sennilega textasmíðum) þá veitir okkur sem þjóð ekki af því að mylja utan af okkur aldagömul lög hörku og harðneskju. Vera bara svolítið viðkvæm og breysk, þjálfa næmnina og stilla hlustina á innsæis rásina.
En svo við víkjum okkur frá tímabærri upprisu tilfinningalífsins og aftur að T.S. Eliot og tímaleysinu þá sitjum við alltaf uppi með spurninguna um hvort þessum textasmiðum takist að fella verk sín inn í hefðina og lifa af meltingu tímans. Munu þau hljóta sinn heiðurssess í þessu heildarsafni ritaðra texta þrátt fyrir að þau brjóti öll fyrirmæli Eliots um fjarveru tilfinningalegrar útrásar og útþurrkun sjálfsins? Eða verður þetta tímabil í íslenskri textagerð síðar kallað barn síns tíma? Jah… þið verðið að spyrja tímann um það.