Strákarnir í bandinu
Hinsegin barátta
Hin svokölluðu Stonewall mótmæli voru einn mikilvægasti hlekkur í mannréttindabaráttu samkynhneigðra en atburðurinn markaði þáttaskil í réttindabaráttu þeirra. Í júní árið 1969 réðst lögreglan í New York borg til atlögu á Stonewall barinn árla morguns. Barinn er við Christopher Street, sem er gata hinsegin fólks í Greenwich Village hverfinu. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem lögreglan lét til skarar skríða á barnum, í þetta skiptið brutust út mikil mótmæli sem stóðu yfir í tæpa viku. Leik- og söngkonan Judy Garland var nýlega látin og jarðaför hennar fór fram þennan sama dag. Hún var þekkt „gay icon“ á þessum tíma og margir telja að jarðaför hennar hafi verið neistinn sem kom Stonewall mótmælunum af stað. Réttindabarátta samkynhneigðra hafði verið skráð á spjöld sögunnar og árið eftir var fyrsta Pride gangan haldin til að minnast mótmælanna. Síðan þá hefur Pride gangan verið árlegur viðburður í New York, en í dag eru slíkar göngur haldnar víðs vegar um heiminn, samanber Gleðigangan sem haldin er hátíðleg á Hinsegin dögum á Íslandi.
Þegar leikritið The Boys in the Band (1968) var frumsýnt á fjölum Broadway ári fyrir Stonewall mótmælin þá var það í fyrsta sinn sem daglegt líf samkynhneigðra var sýnt opinberlega. Meðbyr var með leikritinu sem varð vinsælt þótt það hafi sært blygðunarkennd margra. Verkið segir frá hópi samkynhneigðra vina sem ákveða að halda afmælisveislu fyrir félaga sinn. Afmælið er haldið í íbúð við Upper East Side á Manhattan í New York. Gamall skólafélagi frá háskólaárunum kemur óvænt í afmælið sem veldur ákveðinni togstreitu á milli vinanna.
Verkið var skrifað af leikritaskáldinu Mart Crowley (1935-2020) og þó hann hafi skrifað fleiri leikrit þá var hann fyrst og fremst þekktastur fyrir þetta tímamótaverk. Hann skrifaði The Boys in the Band á tíma þegar það var álitið glæpur í Bandaríkjunum að vera samkynhneigður og það bannað með lögum. Samkynhneigðum var oft neitað um afgreiðslu á veitingastöðum og pör máttu aðeins vera herbergisfélagar. Verkið var því álitið bylting þegar það var skrifað og hafði mikil áhrif á menningu og leikritun í Bandaríkjunum. Crowley vildi skrifa verk sem var ekki uppfullt af staðalímyndum og sýndi frekar raunverulegan heim hinsegin fólks.
„Ég var staðráðinn í að skrifa leikrit um samkynhneigð á nýjan hátt fyrir leikhúsið. Allar leiksýningarnar sem ég hafði séð um efnið voru uppfullar af staðalímyndum, tilkomumiklar, vandræðalegar eða tvíræðar. Ég reyndi að vera hugsandi, heiðarlegur og fullorðinn í skrifum mínum.“
Leikhúsgagnrýnandinn Peter Filichia skrifaði: „Ég tel líka að þetta sé ein ástæða fyrir því að Stonewall og réttindabarátta samkynhneigðra fór af stað – ekki bara ein ástæða, sjáðu til, heldur ein af ástæðunum – það er vegna þessa leikrits. Eftir að samkynhneigðir sáu leikritið The Boys in the Band, þá sættu þeir sig ekki lengur við að hugsa um sig sem aumkunarverða og myndu ekki verða álitnir sem slíkir lengur.“
Í kjölfarið á Stonewall þá sagði fræðimaðurinn og háskólaprófessorinn Michael Bronski að Crowley sæi til þess að gagnrýnendur og áhorfendur upplifðu það sem þeir trúðu í raun og veru, samkynhneigða menn sem voru óánægðir og grimmir við hvorn annan. Engu að síður bætti hann við að leikritið „skapaði möguleika til að kynna efni samkynhneigðra á sviðinu“ og með þvi hefði vegurinn verið ruddur fyrir sýnileika hinsegin fólks í sýningum á Broadway. Leikritið varð svo að kvikmynd árið 1970 í leikstjórn William Friedkin.
Rúmum fimmtíu árum síðar eða árið 2018 var leikritið endursýnt á Broadway og ný kvikmyndaaðlögun frá leikstjóranum Joe Mantello og framleiðandanum Ryan Murphy var gerð árið 2020.
„Við stöndum öll þétt á bak við þetta leikrit,“ sagði rithöfundurinn og framleiðandinn Ryan Murphy, sem kom „The Boys in the Band“ á Broadway árið 2018 og framleiddi kvikmyndaaðlögunina fyrir Netflix.
Myndin var svo frumsýnd þann 30. september 2020 en margir þekktir Hollywoodleikarar leika í aðlöguninni, þeir hafa það sameiginlegt að vera allir samkynhneigðir og hafa tilkynnt það opinberlega. Leikararnir Matt Bomer, Jim Parsons, Zachary Quinto, and Andrew Rannells leika meðal annarra í kvikmyndinni. Leikritið vann Tony verðaunin fyrir „Best revival 2019 Tony Award“. The Boys in the Band var almennt talið vel heppnað leikrit og kvikmynd, sem markaði spor í sögunni.
Stonewall og leikritið hans Crowley voru bara byrjunin á baráttunni en hún hefur farið langan veg síðan þá.