Sál mín varð eftir í Havana

Viðtal við Maríu Ramos

„Draumarnir entust yfirleitt ekki lengi fyrr en ég áttaði mig á því að á milli þess sem ég lét mig dreyma um að verða fatahönnuður, arkitekt, söngkona eða dansari var ég alltaf skrifandi“

María Ramos er tuttugu og tveggja ára og stundar BA-nám í íslensku við Háskóla Íslands.  Hún útskrifaðist úr Menntaskólanum við Hamrahlíð í desember 2017. María tók sér tveggja ára frí frá námi til að ferðast og vinna áður en hún byrjaði í Háskólanum. Hún er fædd og uppalin í Vesturbænum í Reykjavík en á ættir sínar að rekja til Kúbu. Föðurafi hennar var Kúbani en amma hennar íslensk. Hún heimsótti Kúbu árið 2016 og hefur alla tíð síðan langað til að snúa aftur og eyða lengri tíma þar til að kynnast menningararfi sínum betur. María var að gefa út sína fyrstu ljóðabók í fullri lengd, bókin ber nafnið Havana en titillinn á þessu viðtali vísar einmitt í eitt ljóða hennar í bókinni.

Ég spurði hana nánar út í ljóðabókina, fyrri ritstörf og hvað sé fram undan hjá þessu upprennandi ungskáldi.

María Ramos

Frá því ég man eftir mér hef ég verið að skrifa sögur og ljóð og á meira að segja örsögur eftir mig frá því ég kunni ekki einu sinni að skrifa.

Hvenær kviknaði áhugi þinn á ritstörfum?

Áhugi minn á ritstörfum hefur alltaf verið til staðar. Ég var alin upp við mikinn lestur og byrjaði sjálf að lesa mjög snemma. Föðuramma mín var ljóðskáld og þýðandi og sá til þess að ég var alltaf skráð í bókaáskrift. Frá því ég man eftir mér hef ég verið að skrifa sögur og ljóð og á meira að segja örsögur eftir mig frá því ég kunni ekki einu sinni að skrifa. Ég leysti það vandamál þannig að ég sagði ömmu sögu og hún skrifaði þær upp fyrir mig á meðan ég myndskreytti. Ég „gaf út“ mitt fyrsta örsögusafn þegar ég var sex ára en það kom út í heilum þremur eintökum. Í uppvextinum langaði mig alltaf að vinna við eitthvað skapandi. Draumarnir entust yfirleitt ekki lengi fyrr en ég áttaði mig á því að á milli þess sem ég lét mig dreyma um að verða fatahönnuður, arkitekt, söngkona eða dansari var ég alltaf skrifandi. Ég tók þá hreinlega ákvörðun um að einbeita mér aðallega að skrifum og sé ekki eftir því.

Það gaf mér svakalegt „boost“ að sjá nafnið mitt á prenti en fyrir þetta hafði ég ekki mikla trú á getu minni til að láta drauminn rætast.


Hefur þú gefið út annað efni?

Fyrsta útprentaða ritverkið mitt var ljóðabók sem ég lét prenta í tuttugu eintökum fyrir vini og fjölskyldu árið 2015. Ég vann hana alfarið í einrúmi og heitir hún því „unglingaveikislega“ nafni Tilraunatilvistarkreppa. Sú bók hefði sannarlega þarfnast ritstjórnar og ritvinnslu þegar ég fletti í gegnum hana nú.

Í MH fór ég að taka skrifin mín alvarlega og vann m.a. smásögukeppni Beneventum og lenti í öðru sæti í ljótuljóðakeppni sama ár. Það gaf mér svakalegt „boost“ að sjá nafnið mitt á prenti en fyrir þetta hafði ég ekki mikla trú á getu minni til að láta drauminn rætast. Á lokaári mínu í MH vann ég lokaverkefni í samstarfi við íslenskukennarann minn, Ragnhildi Richter, og skrifaði þar smásagnasafn með fimm smásögum. Ég lærði mikið af því að vinna svona náið með leiðbeinanda og bý að þeirri reynslu um ókomna tíð. 


Hvað getur þú sagt mér um Meðgönguljóð Partus og ljóðakverið þitt Salt sem var hluti af þeim?

Serían Meðgönguljóð sem Partus gaf út á árunum 2012-2018 einblíndi á stutt ljóðakver eftir upprennandi höfunda eða áður óþekkt skúffuskáld. Kverin voru um 16-20 síður og ætluð sem nokkurs konar kynning á skáldunum. Á þessum árum komu út 33 ljóðakver og þau voru hressandi viðbót í íslenska bókmenntaflóru á meðan serían kom út. Partus batt svo enda á seríuna með því að gefa út ljóðasafnið Meðgönguljóð sem kom út árið 2019. Þar birtust ljóð úr öllum ljóðakverunum ásamt textum um seríuna eftir ritstjóra og Sjón.

Meðgönguljóð Partus

Kverið mitt Salt kom út í lok febrúar 2018 eftir margra mánaða ferli og mikla tilhlökkun. Fyrir mér fjallar Salt aðallega um sorgarferli en þó hef ég heyrt frá a.m.k. einum sem fannst hún hreinlega spá heimsendi. Mér fannst hún ekki alveg svo dramatísk en það er gaman að heyra hvað öðrum finnst ljóðin mín fjalla um. Þess vegna vil ég helst ekki segja neinum hvað ég var að hugsa á meðan ég skrifaði. Þá eru meiri líkur á að fá svona skemmtilega túlkun í ljóðin mín sem mér hefði aldrei dottið í hug.

Ljóðakverið Salt

Um hvað fjallar ljóðabókin Havana?

Ljóðabókin mín Havana er fyrsta útgefna ljóðabókin mín í fullri lengd. Hún fjallar um fjölskyldur, erfiðar minningar, áföll og ferlið að reyna fjarlægjast örlög sín. Ég var í miklum heimspekipælingum þegar ég skrifaði handritið og var að vinna með hugmyndina um að allt hefur gerst áður. Lífið er sem sagt einhvers konar hringrás og þar af leiðandi er ómögulegt að flýja rætur sínar af því að maður endar alltaf á sama stað. Bókin kemur út í byrjun október.

Ljóðabókin Havana

Hvað er á döfinni hjá þér á næstunni, verður það skáldsaga eða ný ljóðabók?

Mig hefur lengi langað til þess að gefa út smásögusafn. Það er þó aðallega af því ég hef ekki haft þolinmæðina í það að skrifa heila skáldsögu ennþá. Eins og er þá er ekkert staðfest á döfinni en mig langar til þess að dýfa mér í djúpu laugina og gefa út lengra verk næst. Annað hvort verða það smásögur eða skáldsaga, það kemur í ljós segir María að lokum.

Ég þakka Maríu Ramos kærlega fyrir spjallið, það verður spennandi að lesa meira frá henni í framtíðinni.