Söngfuglinn Skáld
Sóttkví, það er nú það. Leiðinlegasta tímabil ævi hennar svo hún muni til. Það er varla neitt hægt að gera, dagarnir líða áfram á hraða snigilsins, í sömu dauflegu rútínunni; vakna, vinna í tölvunni, borða, horfa á þætti, sofa. Af og til pantar hún mat á netinu eða hringir í vini, fer í bíltúr eða les bók. Ekkert djamm, engin mæting á vinnustað, ekkert sund. Hún getur ekki beðið eftir því að losna úr fjötrum sóttkvíarinnar, komast út í frelsið.
Hún dæsir og skiptir um streymisveitu. Í kvöld virðist ekkert spennandi vera í boði á öllum þremur streymisveitunum sem hún er með, og hún hefur lítið annað að gera en að skrolla niður skjáinn í örvæntingarfullri leit að einhverju til að drepa tímann með. Hvernig endaði hún annars hérna, uppi í sófa með þrjár streymisveitur og ekkert betra að gera en að glápa á skjáinn?
Jú, alveg rétt, þetta byrjaði allt með veirunni frá Kína sem hún hefði haldið að væri of langt í burtu til að ná til hennar. Hún hafði lesið fréttir um ástandið hinum megin á hnettinum og hugsað með sér: Þetta gerist ekki á litla Íslandi. Og nú situr hún hér, komin í sóttkví eftir að mamma hennar greindist með veiruna. Hún hafði þurft að pakka niður og flytja út tímabundið, en sem betur fer hafði hún fundið verustað í millitíðinni. Svo vildi til að frændi hennar bjó erlendis tímabundið, og stóð íbúð hans því auð. Hann hafði leyft henni að búa í íbúðinni þegar veiran barði að dyrum, og nú situr hún hér ein í fjögurra herbergja íbúð á þriðju hæð í úthverfi Reykjavíkur.
– Bara fáeinir dagar eftir, hugsar hún og slekkur á sjónvarpinu, – fáeinir dagar enn í helvíti.
Farsíminn hringir einhvers staðar og hún hrekkur í kút við hvellan hringitóninn. Hún þarf að fara að breyta um hringitón, þessi er alltof ágengur.
Hún stendur á fætur og fer að leita að símanum. Eftir dágóða stund gengur hún á hljóðið inn í eldhús þar sem farsíminn liggur á eldhúsborðinu. Skjárinn blikkar og hún sér að Anna vinkona hringir á Facetime.
„Hæ,“ segir hún þegar hún loks nær í símann.
„Hæ, Edda, hvað segist?“ spyr Anna og birtist brosandi á skjánum.
„Mér leiðist,“ andvarpar hún og fer aftur inn í stofu „það er ekkert hægt að gera í þessu ástandi.“
„Kommon, þú gætir hringt oftar í mig,“ segir Anna. „Hvað ertu annars að gera?“
„Ekkert, bora í nefið.“ Hún sest í sófann með fæturna undir sér.
„Jæja, eins gott ég hringdi.“ Anna hlær og lyftur upp hvítvínsglasi. „Viltu ekki fá þér í glas?“
„Ég á ekkert til að drekka.“
„Æji, andskotinn, minntu mig á að fara fyrir þig í Ríkið á morgun.“ Anna fær sér sopa „Þú þarft ískalt og gott hvítvín, helst núna.“
„Iss, ég er góð.“
Þær spjalla um daginn og veginn á meðan Anna sötrar úr glasinu. Loks verður dágóð þögn.
„Hvernig gengur að skrifa?“ spyr Anna upp úr þurru.
„Ha?“ Það tekur hana andartak að átta sig á því hvað Anna er að tala um, en svo rennur upp fyrir henni ljós „Æi já, ég hef ekkert getað skrifað. Er með ritstíflu.“
„Hananú, er ekki besti tíminn til að skrifa metsölubók akkúrat núna?“ spyr Anna.
„Tja…“
Þær þegja um stund og hún finnur hvernig samviskubitið fer að naga hana að innan. Hún hafði vanrækt ritstörfin alltof lengi, ekki talið sig hafa orku til að skrifa og fundist hún týnd í eigin texta.
„Ef þú ert með ritstíflu, af hverju ferðu þá ekki að skrifa einhverja aðra sögu?“ spyr Anna loks.
„Jaaaá.“ Hún á ekki til svar svo hún stamar aðeins upp þessu einsatkvæðisorði heldur seinlega.
„Þú hefur engu að tapa,“ minnir Anna hana á. „Þú hefur tíma og næði, tölvu til að skrifa á og internet til að leita að upplýsingum. Já, og ímyndunaraflið, Edda, þú ert mögnuð, veistu það?“
„Æji, takk“ segir hún og brosir vandræðalega.
Stuttu síðar kveðjast þær og hún situr ein eftir og starir fram fyrir sig. Orð Önnu fylgja henni inn í kvöldið á meðan hún heldur áfram að skrolla niður streymisveitur og hanga á samfélagsmiðlum.
Þegar hún loks rís upp úr sófanum um miðnætti er orðið dimmt fyrir utan gluggann. Hún stendur um stund og starir út á mannlausa götuna. Það er enginn á ferli og gluggarnir myrkvaðir í flestum húsunum. Götuljósin varpa drungalegri birtu á gangstéttina, og nakin trén bærast í mildri golunni. Hún pírir augun þegar hún sér skugga takast á loft úr einu trénu. Henni sýnist þetta vera lítill fugl sem breiðir út vængina og hverfur út í myrkrið.
– Frjáls sem fuglinn fljúgandi, hugsar hún og grettir sig, – bara ef ég væri það.
Hún snýr sér frá glugganum og býst til að fara í háttinn. En svo nemur hún staðar þegar sú hugsun flýgur í gegnum huga hennar að hún gæti verið frjáls sem fuglinn ef hún hefði vilja til þess. Það er ekkert sem stöðvar mannlegar hugsanir, við eigum þær sjálf. Þær eru fuglarnir okkar, sem svífa frjálsir um heima og geima, og hún hefði engu að tapa þótt hún sleppti þeim lausum. Þegar einn fugl festir sig í tré, á hún annan sem hún getur fylgt eftir um loftin blá.
Hún finnur hvernig ritstíflan brestur, og annars hugar skríður hún upp í rúm og sofnar værum svefni.
Daginn eftir vaknar hún óvenju hress. Eftir að hafa skellt sér í sturtu og hellt upp á kaffi sest hún fyrir framan tölvuna og opnar autt Word-skjal. Hún hefur gert upp hug sinn. Hún ætlar að taka orð Önnu til sín og nýta ástandið til að skrifa metsölubók. Hvað ætti annars að geta stöðvað hana?
Ekki þessi vírus, ekki á meðan hann heldur sig frá henni.
Þegar öllu er á botninn hvolft er ekkert sem stöðvar mannlegar hugsanir, þær halda áfram bæði í vöku og svefni. Og sagan verður til í huganum, eina sem þarf að gera er að skrá hana niður. Tungumálið er magnað fyrirbæri, það veitir okkur ekki aðeins færi á að hafa samskipti hvert við annað, heldur er farvegur hugsana okkar sem við komum frá okkur og út í heim.
Verkfæri Skáldsins, farvegur fuglanna.