Skáldið í Vonarstræti
Ég horfði á Edduna í sjónvarpinu þriðjudagskvöldið 6. október. Kvikmyndirnar sem fengu flestar tilnefningar voru Hvítur hvítur dagur og Agnes Joy. Af einhverjum ástæðum fór ég að hugsa um kvikmyndina Vonarstræti frá árinu 2013 sem mér fannst eftirminnilegri en hinar tvær áðurnefndu sem voru samt alveg ágætar. Vonarstræti er áhrifamikil kvikmynd en eins og góð bók situr hún eftir í minninu.
Hvernig er hægt að skrifa handrit og leikstýra kvikmynd sem gleymist seint? Hvað þarf til? Þarf leikstjórinn að hafa upplifað eitthvað sambærilegt í nærumhverfinu eða jafnvel á eigin skinni? Erfitt er að fá svar við því nema ræða beint við leikstjóra en það er samt áhugavert að hugleiða hvað þarf til.
Stutt umfjöllun um kvikmyndina Vonarstræti
Leikstjóri kvikmyndarinnar er Baldvin Z- eða Zophoníasson. Það eru tveir handritshöfundar, Baldvin sjálfur ásamt Birgi Erni Steinarssyni. Birgir Örn Steinarsson er sálfræðingur að mennt, sem hefur e.t.v. haft áhrif á handritið. Það kom fram í viðtali við Birgi Örn að Baldvin Z hafi hringt í hann og sagt að hann væri búinn að móta karakterana í væntanlegri mynd, Vonarstræti en hann vantaði aðstoð við að skrifa handritið og þannig hófst farsælt samstarf handritshöfundanna.
Fortíðin
Skyggnst er aftur til fortíðar í byrjun kvikmyndarinnar, þar sem skáldið Móri er ungur fjölskyldufaðir sem á lítinn 7 ára sólargeisla, Kollu. Foreldrarnir hafa ákveðið að skilja vegna ósættis og barsmíða sem höfðu mikil áhrif á telpuna. Móri ræðir við Kollu dóttur sína um sólarlandaferð til Sardiníu, þar sem sjórinn er fallega blár og ströndin heitir Paradísarströnd. Kolla vill helst hafa mömmuna með í ferðinni en samþykkir að fara ein með pabba sínum, eftir að hann dró upp fallegt póstkort af staðnum. Ferðin var þó aldrei farin þar sem það átti sér stað hörmulegt slys sem Móri komst aldrei yfir. Dóttirin hljóp út á ísilagða tjörn sem gaf sig. Móri var áhorfandi og gerði allt sem hann gat til að bjarga dóttur sinni frá drukknun en án árangurs.
Nútíðin
Þá er skipt um sjónarhorn og skyggnst inn í nútíðina meira en tuttugu árum eftir slysið. Þar kemur Eik sem er leikskólakennari til sögunnar en hún er einstæð móðir með eina dóttur. Enginn pabbi er inni í myndinni. Eik er í stöðugum fjárhagsvanda og semur við bankann og greiðir inn á yfirdráttinn eins og hún mögulega getur. Hún tekur að sér kvöldvinnu, sem hún fyrirlítur og kallar „að vinna á bar“, en í raun er hún að þjónusta karlmenn við kynlífsathafnir. Foreldrar Eikar virðast þokkalega efnaðir en hún leitar ekki til þeirra eftir aðstoð. Sambandsleysi er við móður, en hlýrra samband við föður. Móðurafi Eikar misnotaði hana sem barn og forðast hún heimili foreldranna, af hræðslu við að hitta afann heima hjá þeim.
Sölvi kemur til sögunnar í einu af aðalhlutverkunum, hann er fyrrum fótboltastjarna, sem fer að vinna í vafasömum banka. Þar er ýmislegt í boði sem hann kann illa að fara með, það færir honum annars vegar há laun en hins vegar óhamingju. Hann er kvæntur og á barn á leikskólanum þar sem Eik starfar. Þau eiga orðaskipti þar en hann tekur ekki eftir henni. Þau hittast seinna í Flórída, hann er þar á vegum bankans og hún sem fylgdarkona viðskiptavinar. Í framhaldinu fléttast saman líf þessara þriggja einstaklinga sem eru í aðalhlutverkum kvikmyndarinnar. Lítum nánar á hvernig líf þeirra skarast.
Eik og Móri verða perluvinir, dóttir Eikar minnir Móra eflaust á Kollu, því hún er á sama aldri og Kolla var þegar hún drukknaði. Móri heillar Eik þar sem hann er vitur, næmur og góður í sér. Hann er líka virt skáld þrátt fyrir að vera drykkjumaður. Móri áttar sig fljótt á því að Eik er ekki að segja satt um vinnu á bar og talar óbeint um fyrir henni. Vinskapurinn við Eik og dótturina gera það að verkum að hann drekkur minna. Þau eiga góðar stundir saman og eflaust upplifir hann fjölskyldulíf á nýjan leik. Móri heldur áfram að skrifa og fær útgefna bók, þar sem hann segir sögu sína eins og hún var í raun og veru. Hann vill þó ekki nefna sögupersónu eftir sér, eins og forleggjarinn minntist á við hann og svarar því á sinn kankvísa hátt, að það væri ekki sami maðurinn sem ritar og fjallað sé um í bókinni.
Móri og Sölvi tengjast í gegnum bankann. Sölvi fær það hlutverk, strax og hann byrjar í bankanum árið 2006, að fá Móra til að selja bankanum húsið sitt, þar sem það átti að byggja þar hótel. Móri neitar alfarið að selja húsið og segir Sölva að gleyma þessu samtali þeirra, eins og það hafi aldrei borið á góma.
Sölvi hittir Eik í vinnuferð til Flórída eins og áður sagði, þar sem „allt“ var í boði á snekkjunni þar sem partýin eru haldin. Þau enduðu á því að vera saman þetta kvöld en Sölvi kemur illa fram við Eik eftir á, tekur enga ábyrgð á framhjáhaldinu. Hann hótaði Eik og ætlar ekki að virða hana viðlits á leikskólanum.
Myndin endar á því að Móri tekur ákvörðun um að selja húsið sitt og láta drauminn rætast um að fara til Sardiníu. Áður en hann fer leggur hann háa peningaupphæð inn á reikning Eikar. Hann sendir henni síðan póstkort sem kallast á við póstkortið sem hann sýndi dóttur sinni.
Leikurinn og gervið á Þorsteini Bachmann er með því besta sem ég hef séð í íslenskri bíómynd. Göngulagið, holningin, tjáningin og orðfærið. Karakterinn, hvernig hann er teiknaður upp, er svo eftirminnilegur og þegar harmleikurinn hittir hann. Skáldið Móri er bæði dramatískur en líka fyndinn og kemur orðum að hlutunum á sinn kómíska hátt. Hera Hilmarsdóttir (Eik) leikur einnig mjög vel, glansar í gegnum hlutverkið. Það sem mér finnst ekki vera nógu trúverðugt við hennar persónu er aukavinnan. Hún er heiðarleg, reglusöm, góð móðir en með slæma sjálfsmynd. Hún upplifir kynferðislegt ofbeldi í æsku sem auðvitað getur eyðilagt barnssálina, en að mínu mati gekk það ekki alveg upp. Þorvaldur Davíð Kristjánsson (Sölvi) sýnir einnig góðan leik í kvikmyndinni. Vafasami bankinn, snekkjan og sjálfumgleðin sem ríkir, lýsir vel hvernig tíðarandinn var fyrir hrun þar sem allt var falt fyrir peninga, sem þó var engin innistæða fyrir.
Vonarstræti er áhrifarík kvikmynd en styrkleikar hennar liggja helst í frábærri persónusköpun, sérstaklega á skáldinu Móra – að öllum öðrum ólöstuðum.