Menningarhugtakið: Þrætueplið þolgóða
Á árunum 1784 – 1791 skrifaði þýski heimspekingurinn Johann Gottfried Herder sitt frægasta verk Ideen zur Philosophie der Geschichte der Menschheit (Hugleiðingar um heimspeki mannkynssögunnar). Þar hélt hann því meðal annars fram að ekki væri aðeins til ein tegund menningar, hin eina rétta. Hann sagði að smekkur manna væri breytilegur eftir því hvar þeir byggju og þannig væri aðeins hægt að skilgreina mismunandi og breytilega menningu. Um leið hafnaði hann skilgreiningu upplýsingarinnar á því að upplifun manna væri alltaf sú sama og sagði að ekki væri hægt að greina alla menningu og dæma eftir samtímanum hverju sinni. Það er ekki öruggt að þótt einum finnist eitthvað fallegt, finnist öðrum það líka. Út frá þessum hugleiðingum væri því rangt að Evrópubúar gætu ákvarðað að öll menning, önnur en þeirra, væri ómenning eða óæðri. Þótt vissulega sé rétt að fólk upplifi hluti á misjafnan hátt eftir búsetu er hægt að tala um sammannlegar tilfinningar eins og sorg og gleði. En þó að gleði sé sammannleg getur verið misjafnt hvað vekur þau hughrif hjá sérhverri manneskju.
Herder lagði grunninn að rómantísku stefnunni í bókmenntum og listum sem ríkti fram yfir aldamótin 1900. Rómantíska stefnan leiddi síðan af sér hugmyndina um menningu og sérstöðu hverrar þjóðar og blæs það illu heilli, enn, mörgum þjóðernissinnanum móð í brjóst.
Í byrjun tuttugustu aldar lendir menningarsagan og hugtakið menning aftur í klemmu við það að fræðimenn lenda í ógöngum við skilgreiningu á alþýðumenningu. Það ruddi leið fyrir hina marxísku söguspeki. Þar kemur fram sú kenning að þeir sem ákvarða hvað er menning eru úr efstu lögum samfélagsins og hafi enga tengingu við hið raunverulega líf almúgans. Heimspekingurinn Antonio Gramsci kom meðal annars fram með þá kenningu að menning væri kerfi efri stéttanna til þess að stýra samfélaginu. Þannig þyrfti síður valdbeitingu. Það er óhætt að segja að það sé að mörgu leyti rétt. Yfirstéttin leit gjarnan á sig sem hámenningarstétt og fannst öll önnur menning sem lágmenning eða villimennska. Yfirstéttin átti menninguna. Evrópa átti menninguna og settist í dómarasæti gagnvart menningu annarra heimsálfa. Hin marxíska menningarskoðun setti allt undir sama hatt, óháð aldri, kyni, stétt eða búsetu. Bara ein stétt var viðmiðið, öreigastéttin. En er hægt að greina samfélög út frá því? Það eru einsleitar forsendur og ósennilegt að hægt sé að gera það. Hvað með kyn, aldur, búsetu?
Peter Burke er einn af fyrstu fræðimönnunum sem skilgreinir menningarsögu sem fræðigrein. Hann notar menningarhugtakið í mannfræðinni. Er hægt að alhæfa um einhverja eina menningu? Hverjar eru forsendurnar? Hvaða forsendur eru réttar? Þínar? Eru forsendur þínar kannski ákvarðaðar fyrir þig? Kenningar Burke voru sem ferskur andblær í samanburði við einstrengingslegar skoðanir manna eins og Matthews Arnold sem taldi að það ætti ekki að gera langskólamenntun aðgengilega fyrir alla, því það þynnti út menninguna!
Það er hægt að horfa á hugtakið menningu frá mörgum sjónarhornum segir félagsfræðingurinn Lila Abu-Lughod og bætir við að hún vildi helst að hugtakið væri ekki til, því að í aldaraðir hefði það verið notað til þess að skilja fólk að. Tilhneiging manneskjunnar til þess að nota hugtakið ,,hinir“ yfir þá sem henni finnst vera öðruvísi, er rík. Við flokkum þá sem okkur finnst vera líkir okkur og aðgreinum okkur þannig frá hinum. Ef notað er hugtakið ,,hinir“ er ákveðnum hugmyndum um einstaka kynþætti, menningu eða hegðun viðhaldið.
Á eftirlendutímanum jókst fjöldi innflytjenda frá gömlu nýlendunum jafnt og þétt og blandaðist herraþjóðunum misjafnlega vel. Edward Said benti á brestina í þeirri heimsmynd með kenningum sínum sem hann nefndi orientalisma. Hann bendir á að Vesturlönd hafi skapað vissa mynd af Austurlöndum og notað við það fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hvernig þau ættu að vera. Hann bendir á að fjölbreytt efni eins og bókmenntatextar, ferðadagbækur, trúfræðileg rit, sagnfræði og dagblöð Vesturlandabúa hafi hreinlega framleitt Austurlönd. Þessar kenningar hans vöktu mikla athygli og þykja það merkilegar að útgáfa bókarinnar Orientalism er talin upphaf eftirlendufræðanna.
Það er rétt að gömlu herraþjóðirnar skilgreina aðra menningu en þeirra eigin út frá einu sjónarhorni, þeirra ímynduðu yfirburðum. En hvað með hina? Það eru hópar af fólki, allsstaðar að úr heiminum. ,,Við“ höfum jaðarsett ,,þau” með því að stimpla þá öðruvísi út frá okkar forsendum. Stéttir innflytjenda skiptast síðan niður í smærri hópa. Það er einmitt sterkasta leiðin til þess að afvopna þá jaðarsettu og halda við merkingarkerfi samfélagsins eftir okkar smekk. Á þessu byggist kenningin um orientalisma.
Í heimi vaxandi popúlisma og stjórnmálaflokka sem tala um að ekki megi tapa þjóðmenningunni er gott að gera sér grein fyrir því að menning er margbreytileg og líka venjuleg. Heimurinn minnkar og fjölmenning breiðir úr sér, menningarheimar blandast, einnig hér á litla Íslandi. Að berjast gegn því og skilgreina sig á móti fjölmenningu í heiminum eins og hann er í dag er eins og að vera á móti vatni. Það er ekki hægt.