Martin Puchner
Bókmenntir í fjögur þúsund ár
Hugleiðingar bókmenntafræðinema
„Stundum reyni ég að ímynda mér veröldina án bókmennta. Ég myndi sakna bóka þegar ég ferðast með flugvél. Bókabúðir og bókasöfn myndu hafa nóg af lausu hilluplássi og bókahillurnar mínar væru ekki lengur yfirfullar af bókum. Útgefendur væru ekki til eða Amazon og það væri ekkert á náttborðinu mínu þegar ég get ekki sofið á nóttunni“
~ Martin Puchner. ~
Vorprófunum var nýlokið í bókmenntafræðinni í maí 2020 og Covid-19 var ennþá að lauma sér með andardrætti sínum ofan í lungu landsmanna í fyrstu bylgju farsóttarinnar. Mig grunaði að sumarið myndi einkennast af höftum eins og frá því í mars. Ég vildi því gera eitthvað uppbyggilegt yfir sumartímann og langaði að fara í sumarskóla en Háskóli Íslands var þá ekki búinn að auglýsa sumarnámskeiðin sem voru í boði í júní. Eftir nokkra leit á Internetinu þá fann ég fjarkennslunámskeið hjá HarvardX.
Ég skráði mig á námskeið sem heitir „Ancient Masterpieces of World Litarature“ eða forn meistaraverk heimsbókmenntanna. Þetta var mjög áhugavert og skemmtilegt námskeið og ég lærði bæði um bókmenntir sem ég hafði ekki heyrt um áður ásamt fleiri þekktum verkum. Martin Puchner og David Damrosch prófessorar í bókmenntum hjá Harvard háskóla kenndu þennan kúrs hjá HarvardX en kennslan fór þannig fram að þeir ræddu um skáldið, heimsbókmenntirnar og söguna á myndbandi á fjarnámsvefnum. Námið skiptist upp í sex hluta, á eftir hverjum hluta var krossapróf. Til að fá prófskírteini þá þurfti maður að ná lágmarkseinkunninni 6.5 í hverjum hluta. Þegar námskeiðinu var lokið þá pantaði ég bókina The Written World (2017) eftir Puchner. Bókin fjallar um sagnagerð og bókmenntasögu, frá því fólk fór að þróa þá tækni að skrifa og fram til daga Internetsins.
Martin Puchner er verðlaunahöfundur, ræðumaður, heimsspekingur, bókmenntafræðingur og kennari. Hann hefur skrifað bækur, safnrit og yfir sextíu greinar og ritgerðir. Bækur hans hafa verið þýddar á mörg tungumál. Hann er aðalritstjóri Norton Anthology of World Literature sem hefur verið notað víða við kennslu.
Þegar Puchner ákvað að skrifa bókina The Written World, um fjögur þúsund ára sögu bókmennta, þá vildi hann ekki sitja bara heima og skrifa við skrifborðið sitt heldur ákvað hann að fara á þá staði þar sem bókmenntatextarnir voru upprunnir. Hann fór til Beirút og Peking, Japiur, skoðaði rústirnar af Pergamum bókasafninu í Tyrklandi, steinabókasöfnin í Kína og rústirnar í Chiapas og Troy meðal annars. Þegar hann skoðaði rústir Troy þá varð hann fyrir miklum vonbrigðum, bæði með staðsetningu og stærð. Borgin var svo lítil að það tók hann aðeins fimm mínútur að labba í gegnum hana en Puchner var búin að ímynda sér Troy mun stærri miðað við söguna. Hann fetaði líka í fótspor Goethe og fór til Sikileyjar en Goethe skrifaði bók eftir dagbókum sínum, Italian Journey (1816-17). Einnig talaði hann við fornleifafræðinga, túlka og rithöfunda. Hvert sem Puchner fór þá fann hann alltaf eitthvað form af rituðum texta.
Með því að fara á alla þessa staði og skoðað hvernig bókmenntir voru skrifaðar og á hvað komst hann nær því að upplifa bókmenntasöguna á eigin skinni. Bókmenntatextarnir voru til að mynda skrifaðir á pappír, papýrus, leirtöflur eða skinn og þessi fjölbreytti efniviður hafði sín áhrif á bókmenntirnar sem Puchner rekur á ljóslifandi hátt í bókinni. Úr þessu ferðalagi varð The Written World að raunveruleika. Bókin spannar vítt svið allt frá Illíonskviðu til J.K. Rowling‘s.
Það er áhugavert að lesa bókina frá sjónarhorni Puchner því hún gefur betri innsýn í heimsbókmenntirnar og söguna. Hann kannar leiðir sem bókmenntir hafa skapað í nútíma menningu okkar með því að kynna þessa grunntexta, hugsjónamenn og skáld. Bókin er auðlesin og heillandi. Bókina skrifar hann af mikilli ástríðu og maður finnur fyrir nærveru höfundarins við lesturinn. Bókin hefur fengið ágætis dóma víða en í The Written World sýnir Puchner fram á hvernig bókmenntir hafa breytt heiminum í „hinn læsa og skrifaða heim.“