Jennifer's Body
Kjánaleg fantasía fyrir gagnkynhneigða unglingspilta orðin að feminískri költ mynd
Þegar kvikmyndin Jennifer’s Body var frumsýnd í kvikmyndahúsum árið 2009 var hún ákveðið flopp. Hún fékk slæma útreið gagnrýnenda og skilaði litlu í kassann. En nú rúmlega tíu árum seinna hefur hún öðlast nýtt líf. Internetið geymir fullt af góðum dómum, margir lofa hana sem gleymda klassík. Er Jennifer’s Body allt í einu orðin góð? Eða var hún kannski góð allan tímann?
Jennifer’s Body er sótsvört hryllingskómedía sem skartar Amöndu Seyfried og Megan Fox í aðalhlutverkum. Megan Fox leikur menntaskólastúlkuna Jennifer sem breytist í mannétandi djöful eftir að henni er fórnað í satanískri athöfn og misþyrmt illilega af rokkhljómsveit. Það kemur í hlut bestu vinkonu Jennifer, stúlku að nafni Needy (Amanda Seyfried) að stöðva hana. Svo virðist sem að markaðssetning myndarinnar hafi skemmt fyrir henni til að byrja með og er líklega henni að kenna að kvikmyndin fór að mestu leyti fram hjá þeim áhorfendahópi sem hún var ætluð (ungum konum). Markaðsherferð myndarinnar byggði mikið á þeirri staðreynd að Megan Fox, sem hafði verið að hasla sér völl síðan hún lék í fyrstu Transformers myndinni árið 2007, var heitasta kyntákn Hollywood á þessum tíma.
Auglýsingaherferðir virðast hafa verið hannaðar til þess að draga unga stráka á myndina. Þótt að markaðssetning myndarinnar hafi höfðað til drengja, þá gerði myndin sjálf það ekki. Myndin olli vonbrigðum sýningargesta og floppaði. Neikvæð gagnrýni hljómaði til dæmis á þann veg að myndin, sem hryllingskómedía, væri hvorki nógu fyndin né nógu ógnvekjandi til þess að þykja áhugaverð. Margir klóruðu sér í kollinum. Ef þetta átti að vera kvikmynd fyrir karlkyns aðdáendur hryllingsmynda, af hverju eru eiginlega engir karlar í myndinni? Og hvar var allur kynæsingurinn sem þeim var lofað?
Frá árinu 2018, í kjölfar Me Too byltingarinnar, hefur kvikmyndin gengið í endurnýjun lífdaga og hefur öðlast ákveðinn költ status sem femínísk hryllingsmynd. Þær Diablo Cody, handritshöfundur og Karyn Kusama, leikstjóri, hafa báðar viðurkennt að þeim hafi þótt markaðssetning myndarinnar óviðeigandi. Myndin var gerð fyrir stúlkur en var hafnað af gagnrýnendum sem „kjánaleg mynd fyrir smástráka með hvolpavit“. Roger Ebert lýsti henni sem Twilight fyrir stráka eða kjánalegri fantasíu sem eingöngu átti að geðjast gagnkynhneigðum unglingspiltum. Það væri því hægt að færa rök fyrir því að þeir gagnrýnendur sem gáfu myndinni slæma dóma á sínum tíma voru í raun að gagnrýna afskræmda útgáfu af myndinni sem var auglýst, en ekki myndina eins og henni var ætlað að vera.
Það lítur því allt út fyrir það að Jennifer’s Body hafi verið á undan sinni samtíð. Það má vel vera að kynningarherferðir myndarinnar hafi ekki verið við hæfi, en það má einnig velta fyrir sér hvort að hinn almenni áhorfandi hafi ekki verið tilbúin að samþykkja slíka mynd á þeim tíma er hún kom út. Jennifer’s Body fjallar um ofbeldi gagnvart konum af hendi karla eða kynbundið ofbeldi. Viðfangsefnið á vel upp á pallborðið í umræðunni í dag, sérstaklega eftir MeToo byltinguna. Efnistökin verða áhrifaríkari ef þau eru sett í samhengi við vitundarvakninguna sem hefur orðið á síðustu árum. Ef til vill eiga áhorfendur í dag auðveldara með að lesa á milli línanna og sjá að sagan í Jennifer’s Body er raunverulegri en margan grunar við fyrstu sýn. Hvað varðar spurninguna hvort að Jennifer’s Body sé allt í einu orðin góð mynd, eða hvort hún hafi í raun allan tíman verið góð hefur leikstjórinn Karyn Kusama þetta um málið að segja: „It’s the same movie, it’s the movie we always made, and it was the movie we always wanted to make. And maybe it just came several years too early”. Kvikmyndin var einfaldlega á undan sinni samtíð.