Guðni Elísson

prófessor

Guðni Elísson

Í hnotskurn

Hvernig lá leið þín í
almenna bókmenntafræði?

Í menntaskóla var ég á eðlisfræðibraut og breytti því talsvert um stefnu þegar ég ákvað að fara í hugvísindanám. Ég var í BA-námi við HÍ á árunum 1983-1985 og tók almenna bókmenntafræði sem aukagrein, en íslensku sem aðalgrein. Auk þess tók ég ár til viðbótar á BA-stigi í almennri bókmenntafræði samhliða því að ég lauk cand.mag. prófi í íslenskum bókmenntum, en ég hóf doktorsnám í Bandaríkjunum haustið 1987. Í bókmenntafræðinni sótti ég námskeið hjá ýmsum úrvals kennurum eins og Helgu Kress, Álfrúnu Gunnlaugsdóttir, Martin Regal, Mary Guðjónsson, Árna Bergmann og Árna Sigurjónssyni

Hvað er það áhugaverðasta við almenna bókmenntafræði?

Augljósasta svarið er auðvitað nautnin sem felst í því að lesa og skilja góðan skáldskap. En góðar bókmenntir eru ekki bara listilega skrifuð afþreying. Þær veita innsýn inn í mannlegt eðli og af þeim má draga ýmis konar mikilvægan lærdóm um þær hættur sem við stöndum frammi fyrir í nútíð og framtíð. Að sama skapi er bókmenntafræðin mikilvægt greiningartæki þegar kemur að því að lesa í samtímann. Margt af því sem við höfum vanist á að aðgreina frá hinu bókmenntalega í samtíma okkar er mótað af huldum frásagnarlögmálum, en þau eru einmitt vandasöm vegna þess að samfélagið ber ekki kennsl á þau. Bókmenntafræðin getur til dæmis tekið þessar frásagnir til greiningar og bent á hætturnar sem búa í þeim. Á þennan hátt er viðfangsefni bókmenntafræðanna ekki aðeins bundið við stórskáldin og afþreyingarmenninguna, því að undir er lífið sjálft.

Hvert er þitt áhugasvið innan fræðigreinarinnar?

Ensk og íslensk ljóðlist, og skáldsagnagerð 19. og 20. aldar. Ég hef einnig áhuga á ýmsum greinabókmenntum, eins og hryllingi, fantasíum og harðsoðnum reifurum og kenni gjarnan slík námskeið í samvinnu við kvikmyndafræðina. Undanfarin ár hef ég í síauknum mæli kennt námskeið sem tengd eru vistrýni, jafnt námskeið um bókmenntir og loftslagsbreytingar og námskeið um endalokakúltúr. Ég er jafnframt annar af tveimur föstum kennurum greinarinnar sem held utan um inngangsnámskeiðið Aðferðir og hugtök.

Námsferill

1993

Ph.D., University of Texas í Austin,
Enskar bókmenntir

1987

Cand. mag., Háskóli Íslands,
Íslenskar bókmenntir

1985

BA, Háskóli Íslands, Íslenska og
Almenn bókmenntafræði

Hafa samband

Tilvitnunin

Af hverju erum við ein þjóð

Vegna þess að við hömumst
innan gömlu markanna,
eins og ung stelpa sem segir skilið við kirkjuna,
en óttast foreldra sína.

Vegna þess að okkur dreymir öll um að bjarga
vísundinum með stríðhærðan, klepraðan feldinn
og skýla hjörðinni með líkömum okkar.

Vegna þess að sorgin sameinar okkur,
eins og elgi með samanlæst horn
sem deyja á hnjánum í pörum.


William Matthews (1942-1997) er eitt af þekktari ljóðskáldum Bandaríkjanna á seinni helmingi síðustu aldar. Hann hlaut ýmis konar viðurkenningu fyrir ljóðlist sína, m.a. National Book Critics Circle Award árið 1995. Ljóðið birtist fyrst í bókinni Ruining the New Road (1970) og þýðingin í Lesbók Morgunblaðsins, 5. apríl 2008.

Molinn

Mávastell bolli, undirská, skál og fat Mávastell

Mávastell. Orðið er ekki að finna í orðabókum, hvorki auknum né endurbættum. Þó var ekkert orð í tungunni emalérað jafn fínlega í vitund íslensku þjóðarinnar á áratugunum eftir stríð. Það stóð fyrir vonir og þrár heillar kynslóðar íslenskra kvenna sem sá í stellinu táknrænan vitnisburð um stórborgaralega velgengni og efnislega fágun sem hægt var að reiða fram á bakka eða hrúga á borð. Mávastell mátti leggja að jöfnu við gott ættarnafn eða velgengni í útlöndum. Af orðinu stafaði ómótstæðilegur, sigldur þokki, úfmælt reisn nýlenduveldisins danska, sem var á hvers manns vörum en lá þó utan getu íslenskra talfæra.

Ég man ekki hvenær ég heyrði orðið fyrst, en í minningunni var það alltaf tengt esóterískri kvennareynslu. Konurnar sögðu orðið í hálfum hljóðum, nánast hvísluðu það, líkt og þær væru að bera upp nafnið á voldugum guði. „Tók hún fram mávastellið?“ muldruðu þær mjúklátar í kaffiboðum og ég örvænti yfir fyrirhyggjuleysi foreldra minna sem enn höfðu ekki fjárfest í jafn hljómblíðum borðbúnaði. Þó olli nafngiftin sem slík mér engum heilabrotum. Ég velti aldrei fyrir mér þeim launhelgum sem fólust í frómu andvarpinu, ég skynjaði þær fremur og gekk að þeim sem vísum, líkt og sannindunum sem finna má í biblíusögum ef maður veltir þeim ekki of mikið fyrir sér. Máhva gat allt eins verið annað nafn á Jahve og mér hefði þótt eins sjálfsagt að til væru Vishnúbollar og Brahmastell.

Ég var kominn á fermingaraldurinn þegar ég sá Máhvastell í fyrsta sinn. Í mörg ár hafði orðið verið laust við merkingarfestu sína. Það hafði lyft sér af sorphaugum borgarinnar og svifið í sólarátt, en nú var leirbakurinn lentur. Í hálfrökkrinu bak við glerið í stofuskápnum starði mávurinn á mig gulum glyrnum af gljáfölum bláma endalausra bolla, skála og diska. Opinberunin var mér sem reiðarslag. Um langt skeið hafði ég verið Máhvatrúar án þess svo mikið að velta fyrir mér inntaki og uppruna siðsins. Á sama tíma hafði þessi danskættaði dritfugl lónað inni í upplýstum skápum hér og þar í bestu hverfum bæjarins. Mér leið eins og eyjarskeggja sem uppgötvar einn góðan veðurdag að guðirnir hans eru hégómi, jafn lítils virði og viðardrumbarnir sem þeir eru ristir í.

Ég er ekki frá því að þetta hafi verið fyrsta lexía mín í fagurfræði, en fram að þeirri stundu hafði ég gert ráð fyrir að hið fagra hefði ávallt háleit markmið. Nú mörgum árum seinna get ég tekið undir með franska kvikmyndaleikstjóranum Jean Cocteau sem sagði listina oft skapa ljóta hluti sem verða smám saman fallegir, á meðan tískan skapar fallega hluti sem alltaf verða ljótir með tímanum. Fyrir mér er mávastell enn ákaflega ljótur hlutur, en ég er ekki frá því að það sé raunveruleg list nú, rúmum eitthundrað árum eftir að einhver var nógu hortugur til að mála svartbak á bolla og bjóða fínustu frúnum í bænum í kaffi.

Pistillinn birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, 15. nóvember 2003.