„Þetta er ekki spurning um áhuga, tónlistin er bara minn veruleiki og hefur alltaf verið“
Viðtal við Guðbjörgu Elísu Hafsteinsdóttur
Guðbjörg Elísa Hafsteinsdóttir með listamanns nafnið Gugga Lísa, er tónlistarmaður sem fangar hlustandann með undurfagurri rödd sinni og tónlist sem snertir sálina.
Ég kynntist Guðbjörgu á nýnemadegi stjórnmálafræðideildar HÍ, haustið 2017. Það var strax augljóst að þar væri á ferðinni stór persónuleiki með mikla útgeislun og sterka nærveru. Fljótlega komst ég að því að þessi stjórnmálafræðinemi er einnig hæfileikaríkur tónlistarmaður og lagahöfundur með undurfagra rödd sem unun er að hlusta á.
Guðbjörg er þessa stundina að vinna að sinni fyrstu sóló plötu þar sem öll tónlistin er hennar eigið frumsamda efni. Hún lýsir tónlistinni sinni sem módernísk melódísk sálartónlist (e. soul) í bland við blúsrokk og gospell.
„Þegar ég var lítil þá vaknaði ég syngjandi og fór að sofa syngjandi.“
Þegar Guðbjörg er spurð út í það hvernig hún hafi fyrst fengið áhuga á tónlist segist hún alltaf hafa upplifað sig sem tónlist. „Þegar ég var lítil þá vaknaði ég syngjandi og fór að sofa syngjandi. Ég er tónlist, ég upplifi mig einfaldlega þannig. Það er ef til vill skrítið svar en svona er það nú bara.“
Guðbjörg segir að tónlistin hafi verið allt í kringum hana á uppvaxtar árum hennar en hún kemur af mikilli tónlistarfjölskyldu. „Mamma elskaði að syngja og var í kór og er svolítið þekkt fyrir að hafa farið að túra með Rolling Stones eftir djamm með Led Zeppelin, ekki þó sem söngkona heldur bara sem nokkurs konar grúppía. Hún er algjör rokkari og pabbi líka en pabbi spilar á öll hljóðfæri og ég hef spilað og sungið með foreldrum mínum frá blautu barnsbeini.“ Amma Guðbjargar samdi einnig lög og margir ættingja hennar eru í hópi færustu tónlistarmanna landsins. „Þetta er ekki spurning um áhuga“ segir Guðbjörg „tónlistin er bara minn veruleiki og hefur alltaf verið“.
Fjölskylda Guðbjargar er einnig mjög ljóðræn og byrjaði hún sjálf mjög ung á því að semja ljóð og texta. T.d. samdi hún stundum línur með pabba sínum þegar þau voru að spila saman á hljóðfæri en fyrsta alvöru lagið sem Guðbjörg samdi var við ljóðið Kvöldbæn eftir langa langa afa hennar, Bjarna Jónatansson, skáld frá Ísafirði.
„Þetta bara gerðist. Gjöf sem ég bara óvænt uppgötvaði.“
En hvernig uppgötvaði Guðbjörg hæfileika sinn til lagasmíða? „Þegar ég byrjaði að læra á gítar um 14 eða 15 ára þá settist ég bara niður einn daginn og samdi lag. Þetta bara gerðist. Gjöf sem ég bara óvænt uppgötvaði. Síðan þá er ég búin að vera að semja bæði sjálf og með öðrum.“
Áhrifavaldar Guðbjargar í tónlist eru fjölmargir enda segist hún vera alæta á tónlist og hlusti á allt frá poppi, rokki, rappi yfir í teknó, dubstep og house. Þegar hún var yngri hlustaði hún mikið á tónlistarmenn eins og Celine Dion, Mariah Carey, Whitney Houston, Josh Groban, Jeff Buckley, Cranberries og fleiri sem hún segist hafa lært mikið af. Einnig hlustaði hún á rokkara eins og Janis Joplin, Led Zeppelin, Creed, Skunk Anansie, Evanessence og System of a Down og trúbadúra eins og Bubba Morthens og KK. Í dag segir hún að áhrifavaldarnir komi úr öllum áttum og mikið úr lofgjörðarheiminum í bland við eldri tónlist. „Í dag er það bara svona að ég t.d. heyri tón í einhverju lagi sem ég veit ekkert eftir hvern er og það kveikir í sköpunar krafti og ég sest niður og fer að spila á gítarinn og lagið getur komið í heilu lagi eða í bútum. Ég heyri stundum melódíu eða píanó spil með laglínunni innra með mér, eða eins og þær komi í hugann“.
Það er ósk Guðbjargar að geta framleitt sem mest og unnið sem mest í tónlist, bæði eigin tónlist og með öðrum. „Það er svo mikil gróska og opnun í tónlist í dag. Ég vil að tónlistin veki hjá fólki von, að það upplifi sig elskað og finni sálarfrið, lækningu, ást, hamingju og gleði“. Hún bætir því við að það væri algjör draumur að geta unnið með sinfóníuhljómsveit einhvern daginn.
Það er hægt að hlusta á tónlist Guðbjargar á Spotify og einnig er hægt að fylgjast með henni á Facebook. Hún er svo yfirleitt að syngja á sunnudögum í Smárakirkju sem alltaf er streymt lifandi á Facebook en þess má geta að þau streymi fá mörg þúsund áhorf á viku.