Gilgames

Hví ráfar þú um öræfin og sækist eftir vindi?

Mesópótamía var mikið menningarríki sem lá á svæði milli fljótanna Efrat og Tígris. Súmerar byggðu borgina og eru þeir helst þekktir fyrir að hafa fyrstir manna, svo vitað sé til, skrifað texta. Elstu textarnir sem fundist hafa voru aðeins upptalning eigna og nokkurs konar skýrslur en fljótt fóru þeir að skrifa hetjusögur af mönnum og guðum.

Gilgameskviða er eitt elsta og best þekkta súmerska hetjukvæði sem vitað er um en það er saga hetjukonungs sem á að hafa verið upp í borginni Úrúk í Mesópótamíu um 2700 fyrir Krist. Mögulegt þykir að Gilgames hafi verið til, þó engar sönnur séu til um það en sagan um hann er einna frægust af þeim textum sem varðveist hafa frá þessum tíma. Sagan um Gilgames hefur allt sem hægt er að ætlast til í góðri hetjusögu, kviða konungsins sem þráði að verða ódauðlegur.

2570

Gilgames er lýst sem einstökum að krafti og gjörvileika, enda er hann að hluta guðlegur samkvæmt sögninni. Þrátt fyrir allar lífsins gjafir er hann samt hrokafullur og grimmur þjóðhöfðingi. Hann lætur engan son lifa af eftir föður sinn heldur sendir þá alla unga og vopnbæra í stríð og ekki lætur hann dætur óáreittar heldur sængar hjá öllum áður en brúðgumi þeirra fær að njóta þeirra. Hann æðir um stjórnlaus eins og villtur tarfur.  Ekki er reynt að fegra hegðun hans og efast er um að hann sé djarfur, framsækinn, vitur og vís. 

Borgararnir sætta sig ekki við svona konung og telja að eitthvað þurfi að gera og snúa sér því til guðanna. Þegar guðirnir ná eyrum Anú, æðsta guðs, lætur hann sitt ekki eftir liggja heldur ákveður að skapa honum félaga, eins líkan Gilgames og hægt er, svo þjóðin í Úrúk fái frið. 

Enkídu, sem Anú (Æðsti Guð og faðir Gilgamess) skapar er dýrslegur maður, villimaður, en hann er taminn áður en Gilgames og hann hittast og tekst með þeim mikil og innileg vinátta. Ístar, ástargyðjan sjálf, fær augastað á Gilgames, en hann afneitar henni og ryður yfir hana fyrirlitningarfullri ræðu og spyr hana hvers vegna í ósköpunum hann, sjálfur Gilgames, ætti að vilja hana? Eins og búast má við af gyðju, bregst hún hin versta við og fer á fund Anú. Hann ákveður að refsa Gilgames og Eníkdú og sendir hið tryllta Naut himins til Úrúk en Enkídú og Gilgames ráða niðurlögum þess. Enkídú kastar svo afturhluta þess í andlit Ístar. Í kjölfarið kveða guðirnir dauðadóm yfir Enkídú.

Dauði Enkídús veldur Gilgames djúpri sorg. Hann situr yfir vini sínum þangað til hann sér orma koma úr nösum hans. Gilgames hræðist dauðann því hann telur að hann sjálfur sé æðri öðrum dauðlegum mönnum. Hann leggur í langa ferð til þess að freista þessa að finna ódauðleikann. Í ferðinni lendir hann í ýmsum ævintýrum og hittir marga sem reyna að telja hann af þessari háskaför, þar á meðal er ölseljuna Sídúrí sem minnir hann á hvað skiptir máli: ,,[…] Vertu glaður dag sem nótt, hafðu alla daga veisludaga, dansaðu nótt sem nýtan dag!…Hlúðu að litlu krílunum sem halda þér í hönd, gleddu eiginkonuna í faðmi þér. Það er hið sanna hlutverk manna og kvenna.“

Gilgames lætur ekki segjast og æðir áfram. Að lokum hittir hann Útnapistím, eina dauðlega manninn sem hefur öðlast eilíft líf. En þótt Gilgames sé kominn alla leið á heimsenda, öðlast hann ekki eilíft líf því hann fellur á prófraun sem Útnapistím leggur fyrir hann. Hann verður örvæntingarfullur og veit ekki hvernig hann getur komið heim aftur sem dauðlegur maður. En þegar Gilgames sér aftur borgina sína, Úrúk, rennur upp fyrir honum ljós. Múrinn umhverfis Úrúk sem gerður er af manna höndum, stendur alltaf. Þannig öðlast mennirnir ódauðleika. Þeir skilja arfleifðina eftir sig.  Á steintöflur lét hann því rita sögu sína og koma þeim fyrir í múrnum.  

Gilgames er sannarlega hetja sem hefur alla þá eiginleika og ekki síst breyskleika sem hetjur þurfa að hafa. Hann er ævintýragjarn, hugrakkur og djarfur en hefur samt mennskar/dekkri hliðar eins hroka og botnlausa þrá eftir viðurkenningu, frægð og ódauðleika. Hann verður að læra og fær ekki allt sem hann vill, en reynir að gera það besta úr því sem hann hefur. Sagan um Gilgames varðveittist í munnlegri geymd og er talin hafa haft áhrif á forn-Grikki, eins og Ódysseifskviðu.  Steintöflurnar fundust í kringum 1870 eftir Krist. Þó að Gilgames hafi þurft að sætta sig við að deyja, öðlaðist hann þannig ódauðleika en við erum enn að lesa um hann mörg þúsund árum síðar.