„Ég vinn hvar sem er, nema í algjörri kyrrð“

Viðtal við Kristínu Eiríksdóttir, rithöfund

Kristín Eiríksdóttir er fædd árið 1981 í Reykjavík. Hún ólst upp í Austurbænum og síðar í Hólahverfinu í Breiðholtinu. Kristín stundaði nám í Listháskóla Íslands þar sem hún lauk BA-gráðu í myndlist árið 2005 og síðar fór hún í mastersnám til Montréal í Kanada. Fyrsta ljóðabók Kristínar, Kjötbærinn, kom út árið 2004 en síðan þá hefur hún skrifað ljóðabækur, skáldsögur og leikhúsverk.

Kristín er margverðlaunuð fyrir skrif sín og fékk meðal annars Fjöruverðlaunin og Bókmenntaverðlaun Íslands árið 2017 í fagurbókmenntum fyrir bókina Elín Ýmislegt. Hún var einnig tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir sömu bók. Kærastinn er Rjóður er fimmta og nýjasta ljóðabók Kristínar en hún kom út árið 2019. Hún þýddi auk þess bókina Hundshaus eftir danska rithöfundinn Morten Ramsland sem kom út árið 2010.

Kristín hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir skrif sín, bæði fyrir leikverk, ljóð og bækur sem hafa verið þýddar yfir á fjölda tungumála. Hún hefur ekki setið auðum höndum þegar kemur að myndlist en hún hefur tekið þátt í sýningum og sett upp gjörninga hér heima og erlendis.

Ég spurði þennan áhugaverða listamann, rithöfund og skáld um ritstörfin og hvað sé framundan á ritvellinum.

 

Hvenær kviknaði áhugi þinn á ritstörfum og hvað var það sem fékk þig til að skrifa?

Mamma mín er Ingibjörg Haraldsdóttir skáld og þýðandi. Hún kenndi mér ekki bara að tala heldur vakti hjá mér ást og áhuga á tungumálinu. Það sem hún kenndi mér líka, sem er svo mikilvægt, var að taka skrifin mín alvarlega og að það er hægt að lifa á því að vera rithöfundur. Það er sem sagt félagsmótun að kenna/þakka að ég tók þessa stefnu.

Af öllum þínum verkum, áttu þér uppáhaldsverk? Hvaða verk var skemmtilegast að skrifa?

Mér þykir vænt um smásagnasafnið mitt Doris deyr. Það er ekki vegna þess að mér finnist sú bók vera betri en aðrar en það var fyrsti prósinn sem ég skrifaði og var ánægð með, í framhaldinu hætti ég í mastersnámi og fór að skrifa skáldsögu.

Hvernig vinnur þú bækurnar þínar? Hvar er best að skrifa og hvað er vinnudagurinn þinn langur þegar þú skrifar?

Ég vinn hvar sem er nema í algjörri kyrrð. Oftast bara heima en stundum á kaffihúsi til þess að fá einhverja utanaðkomandi truflun. Vinnudagurinn er breytilegur eftir því hvar ég er stödd í ferlinu. Ef ég er að skrifa skáldsögu þarf ég að setja mér ramma um að vinna ekki lengur en circa tvo tíma á dag. Þannig tæmi ég mig ekki og er spennt að halda áfram daginn eftir. Ef ég vinn í marga klukkutíma við frumskriftir á ég erfitt með að koma mér að verki dagana á eftir og það borgar sig aldrei. Á eftirvinnslustiginu skiptir þetta engu máli og þá er vinnudagurinn minn bara eins og hver annar, sex til átta tímar. Ef ég hinsvegar er að vinna í ljóðahandriti er mjög erfitt að segja til um hvernig vinnudagur lítur út. Það er meira eins og að vera í einhverju rofi.

Hver er uppáhaldsbókin/bækurnar þínar eða höfundur?

Ég á ekki beinlínis uppáhaldshöfunda, frekar höfunda sem ég hef gaman að hverju sinni. Núna er ég til dæmis upptekin af Eileen Myles, Maggie Nelson, Rachel Cusk og Virginiu Woolf. Annars hef ég líka verið í átaki að lesa meira á íslensku og er til dæmis mjög hrifin af bókum eftir Friðgeir Einarson, Evu Rún Snorradóttur, Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Kristínu Ómarsdóttur.

Hvaða bók er á náttborðinu þínu núna?

Á náttborðinu eru þrjár glænýjar og frábærar bækur: Þagnarbindindi eftir Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur, Les birki eftir Kari Ósk Grétudóttur og Að malbika í rigningu eftir Örn Elvar Arnarson. Alla jafna les ég mikið af ljóðum.

Er von á nýju verki eftir þig á næstunni, skáldsaga, ljóð, þýðing?

Ég er langt komin með skáldsögu sem ekki er komin með endanlegan titil. Hún er væntanleg næsta haust. Svo er ég að skrifa leikrit fyrir Borgarleikhúsið og lauk nýverið við leikgerð upp úr Orlandó eftir Virginíu Woolf.