Dagbækur í tónlistarformi:
Veröld Frankie Cosmos
Þrátt fyrir ungan aldur á hin 26 ára bandaríska indí-popp tónlistarkona Greta Kline, betur þekkt undir sviðsnafninu Frankie Cosmos, að baki sér á fimmta tug netstuttskífa sem flestar eru að finna á tónlistarveitunni Bandcamp. Í seinni tíð hefur hún einnig gefið út fjögur stúdíó albúm og tvær smáskífur sem finna má á Spotify og hafa notið töluverðra vinsælda. Albúmin eru að mörgu leyti rökrétt framhald af netstuttskífunum sem eru hráar og tilraunakenndar. Greta byrjaði að læra ensku og ljóðlist við New York University en hætti eftir tvö ár til að sinna tónlistarferlinum. Hún leggur áherslu á textasmíð en lögin sem liggja henni að baki eru full af bókmenntalegum innblæstri og inn á milli slæðast tilvísanir í ljóð og annan skáldskap.
Greta var aðeins 15 ára þegar hún byrjaði að gefa út tónlist á Bandcamp úr svefnherberginu sínu, undir allskyns nöfnum. Flest þeirra eru einföld gítarlög með textum sem sækja innblástur í hversdaginn og eru afslappaðir, angistarfullir og ögrandi allt í senn. Ein af fyrstu plötunum sem hún gaf út á Bandcamp heitir til að mynda much ado about fucking sem inniheldur lög eins og „reading hell chipmunk“ og „spaghetti“ og dregur nafn sitt af hinu fræga leikriti Shakespeare Much Ado About Nothing. Platan var gefin út undir nafninu Franklin Cosmos en í viðtali við Pitchfork sagði Greta frá því að nafnið Frankie Cosmos sé gælunafn sem þáverandi kærasti hennar gaf henni, meðal annars vegna dálætis hennar á ljóðskáldinu Frank O‘Hara sem hún segir einn af sínum stærstu áhrifavöldum.
Þegar Greta gaf út fyrsta stúdíó albúmið sitt Zentropy hafði tónlist hennar þróast úr eins manns svefnherbergispoppi yfir í hljómsveit. Í dag er Frankie Cosmos fjögurra manna hljómsveit; Lyke Pyenson á trommur, Alex Bailey á bassa og Lauren Martin á hljómborð og syntha. Þó hefur tónlistin haldið sama „DIY“ yfirbragði allt frá Bandcamp dögum Gretu en hún er enn hrá og einföld og mikil áhersla er lögð á textana. Vinsælasta plata þeirra til þessa kom út árið 2016 og heitir Next Thing en á henni er til dæmis eitt af vinsælustu lögum Gretu sem heitir „Sappho“ eftir forngríska ljóðskáldinu:
From the street I see your window
And I look up in
And is that even your house?
Is that Sappho you‘re reading?
[…]
Is that even your house?
Is that your landing?
And I wanna know what
You‘re reading.
Greta hefur sjálf lýst tónlist sinni sem lo-fi en einnig sem pönki, þó hún hljómi kannski ekki pönk-leg, í ýmsum viðtölum, til dæmis við Pitchfork og Bandcamp. Hún segist vona að tónlistin sín fái aðra til að hugsa að í raun geti hver sem er samið tónlist. Hún hefur ekki eytt neinum af gömlu lögunum sínum frá unglingsárunum og segir að það sé henni dýrmætt að geta skoðað þróunina. Hún skrifar lög út frá eigin veruleika og því mætti segja að þetta séu eins og einskonar tónlistarlegar dagbækur sem eru aðgengilegar almenningi. Á flestum plötunum eru tuttugu lög eða fleiri. Síðustu tvö stúdíó albúmin eru einnig um tuttugu lög en sum eru mjög stutt, undir einni mínútu og stundum eru þau bara ein setning. Á nýjasta albúminu sem heitir Close it Quietly er til að mynda lag sem heitir „Self destruct“ sem stoppar í miðri setningu:
Way up high and fucked
Not violent enough to self-destruct
But I wanna stop being in this life
Late at night, we dive into the light
Your eyes swing shut like…
Þetta eykur á tilvistarlega angist textans og endurspeglar ófullkomleikann sem einkennir tónlist Gretu en margt við höfundarverkið sem liggur henni að baki minnir á eins konar vitundarstreymi (e. stream of conciousness) frá því hún er 15 ára og þangað til nú, sem býður hlustanda upp á nokkuð einstakt samband við list hennar.