Óskað er eftir kvenkyns starfsfólki á bóndabæ

Búnaðarfélag Íslands birti ofangreinda atvinnuauglýsingu í dagblöðum Norður-Þýskalands árið 1949 þar sem óskað var eftir kaupakonum í sveitir landsins.



Klukkan var að ganga fimm þann 8. júní 1949 þegar strandferðaskipið Esjan sigldi í blíðskaparveðri inn ytri höfnina í Reykjavík. Þó nokkuð af fólki hafði safnast saman á hafnarbakkanum þar sem koma skipsins vakti athygli. Meðal farþega voru 130 ungar þýskar konur og 50 ungir menn. Ungmennin hafa eflaust verið bæði spennt og kvíðin í bland við dálitla ævintýraþrá. Það sem blasti við þeim var nýtt og framandi land og húsakynni í misgóðu ásigkomulagi. Þau vissu lítið um lífið á bóndabæ, en vissu fyrir víst að tungumálið  gæti vafist fyrir.

Fyrsti hópurinn sem kom til landsins með Esjunni var samanlagt um 180 manns. Hin sem áttu eftir að koma voru 120 talsins, en þau komu með togurum dreift yfir sumarið árið 1949. Mestmegnis voru þetta konur sem komu eða 238 talsins. Tveir blaðamenn, þeir Þorsteinn Jósefsson og Jón Helgason, voru ráðnir af Búnaðarfélaginu til þess að taka atvinnuviðtöl við umsækjendur. Þeim til aðstoðar var Árni Siemsen, fyrsti ræðismaður Íslendinga í Lübeck eftir stríð. Konur stóðu í biðröðum fyrir utan ræðismannsbústaðinn hjá Árna í Lübeck í von um farmiða til Íslands og mögulegt atvinnutilboð. Umsóknir bárust í metravís, eða um 2.000 frá ungum piltum og örlítið færri frá stúlkum. Það þurfti því að synja meirihluta umsækjenda. Ráðningartími var eitt ár til að byrja með. Unga fólkið sem hafði heppnina með sér var á aldrinum 18-25 ára. Nokkur ungmennanna voru tekin tali um borð í Esjunni.

 

Stuttar lýsingar farþega við komuna

Fyrst var rætt við 19 ára pilt, sem sagði frá því að hann hafi sótt um þar sem enga atvinnu væri að fá í Þýskalandi. Síðan var rætt við kornunga ekkju sem missti manninn sinn í lok stríðsins. Hún sótti um vegna féleysis og slæms aðbúnaðar. Einnig var rætt við unga konu frá Königsberg, sem flýði ásamt tugþúsundum samborgara til Vestur-Þýslands er Rússar tóku borgina. Hún var strax ákveðin í að setjast að hér á landi því hún átti enga nána ættingja á lífi heima fyrir. Ein af ungu konunum var frá Dresden. Hún missti fjölskyldu sína þegar borgin var meira og minna sprengd í loft upp í lok stríðsins. Hún leitaði skjóls í hitakompu, þar sem hitadúnkur skýldi henni. Þegar sprengjunum linnti voru báðir foreldar hennar og tvö systkini látin, hún var þá aðeins 17 ára að aldri.

Konurnar eftirsóttar á meðan karlarnir fóru heim

Ungu konurnar voru mun eftirsóttari vinnukraftur en karlmennirnir. Eflaust hafa þær verið ódýrari vinnukraftur, eða að þær hafi þótt betur í stakk búnar til að sinna heimilisstörfum. Kannski líka snyrtilegri og betri til þess fallnar að flikka upp á bóndabýlin. Sagan segir að nokkrar kvennanna hafi skundað í kaupfélagið og keypt þar hvíta málningu og látið hendur standa fram úr ermum. Þær voru síðar nefndar „þýsku blómakonurnar“ en það var haft eftir þýska sendiherranum Herbert Beck, þar sem þær voru harðduglegar og með græna fingur.

Nína Rós Ísberg mannfræðingur skrifaði doktorsritgerð við Lundúnarháskóla um þýsku konurnar og kom fram í útvarpsviðtali á RÚV þann 4. október síðastliðinn. Þar talaði hún um mikinn kvennaskort upp til sveita á þessum árum fyrir og eftir 1949, þar sem að margar ungar stúlkur höfðu flust á mölina, þar sem næga vinnu var að fá. Hugmyndin var að Þjóðverjar, líkt og Íslendingar væru duglegir og vinnusamir. Helst frá Norður-Þýskalandi, þeim gengi betur að aðlagast.  Ein stúlknanna sagði að þær stúlkur sem hefðu verið snoppufríðar hafi fengið vinnuna. Það skipti ekki máli hvort þær hefðu reynslu af landbúnaðarstörfum eða ekki. Einhverjir spyrja sig af hverju konurnar settust að svona margar, en ekki karlmennirnir, sem fóru flestir aftur  til Þýskalands. Að sögn Nínu giftust flestar konurnar Íslendingum og eignuðust með þeim börn. Helmingur kvennanna sem komu voru giftar eftir fyrsta árið og fengu við það íslenskan ríkisborgararétt. Eins og gengur og gerist í lífinu voru sumar hamingjusamari en aðrar. „Auðvitað var þetta kannski ást.“ segir Nína í viðtalinu. Konunum var yfirleitt vel tekið á Íslandi en einhverjar fundu fyrir stjórnsemi frá nágrönnum og tengdafólki.  Það var t.a.m. fundið að því að þær töluðu móðurmálið við börnin sín. Í einhverjum tilfellum voru þær ásakaðar um að hafa tekið bæði manninn og jörðina líka að sögn Nínu.

Rætt var við sex konur úr þessum hópi fyrir heimildarmyndina „Eishemat“ eða „Á nýjum stað“ sem var gerð árið 2012. Flestar þeirra voru mjög sáttar við Ísland og sáu ekki eftir því að hafa sest að. Ein þeirra sagði: „Ást við fyrstu sýn er ekki goðsögn, hún er til!“ Sú  hin sama varð ástfangin og gift eftir 6 vikna kynni við eiginmann sinn hér á landi. „Við erum enn hamingjusöm saman“ sagði hún árið 2012 eða rúmlega sextíu árum eftir komuna til Íslands .


Stór ættbogi er komin af þessum 238 konum en talið er að það séu um 4.000 manns. Því eiga margir Íslendingar rætur að rekja til þessara harðduglegu kvenna sem sigldu á vit óvissunnar og í sumum tilvikum ástarinnar.