Hvernig hryllingsmyndir sefa kvíða
Að horfa á góða mynd er góð skemmtun. Að horfa á góða hryllingsmynd getur verið átakanlegt. Hver hefur ekki legið andvaka eftir að hafa horft á hryllingsmynd með öll ljós kveikt, bölvandi eigin fífldirfsku og eða sofið óværum svefni ásóttur af martröðum. Margir velta örugglega fyrir sér af hverju í ósköpunum nokkur maður vill gera sjálfum sér slíkan grikk. Þegar við horfum á hryllingsmyndir upplifum við raunverulegan ótta. Það er að segja þegar við sjáum eitthvað ógnvekjandi á skjánum slá hjörtu okkar hraðar, andardrátturinn eykst og magn stresshormóna í líkamanum eykst. Líkamar okkar verja sig þannig fyrir hættu.
Hins vegar hafa dúkkað upp, hér og þar, rannsóknir sem benda til þess að hryllingsmyndir séu ágætis meðal við kvíða. Sálfræðingurinn Jocelyn McDonnell segir að fólk með kvíðaraskanir upplifi það oft á tíðum að eiga erfitt með að ná stjórn á hugsunum sínum. Áhyggjur af fjölskyldu-, fjár- og ástarmálum geta valdið því að fólk eigi erfitt með að einbeita sér að líðandi stund og dvelji frekar á mistökum fortíðarinnar eða kvíði framtíðinni. Þess vegna getur það að gleyma sér í hryllingsmynd verið árangursrík leið til þess að gleyma þessum áhyggjum og lifa í núinu.
Góð hrollvekja getur líka verið valdeflandi. Áhyggjur eru yfirþyrmandi en kvíðinn sem fólk upplifir þegar það horfir á hrollvekjur er auðveldara að stjórna. Keith Humpthreys, prófessor í sálfræði við Stanford Háskóla segir að hryllingsmyndir leyfi fólki að upplifa öruggan kvíða í öruggu umhverfi. Maður getur alltaf tekið augun af skjánum ef áreitið verður of mikið. Flestar hryllingsmyndir enda á því að hið illa er sigrað. Áhorfendur geta fengið það á tilfinninguna að allt blessist að lokum. Það er hughreystandi. Áhorfandinn getur líka huggað sig við að það sem hann er að horfa á er allt í plati hann muni því ekki hljóta skaða af. Bráðum verður myndin búin og þá verður allt eins og það á að vera. Margir sem þjást af kvíða þekkja það að vilja forðast aðstæður þar sem tilfinningin getur gert vart við sig. Þannig geta hryllingsmyndir gert áhorfandanum kleift að takast á við þessar flóknu, óþægilegu tilfinningar sem geta heltekið allan líkamann á öruggan hátt.
Þó svo að það virðist mótsagnakennt í meira lagi að þeir sem eru nú þegar ásóttir af kvíða, áhyggjum og neikvæðum tilfinningum yfir höfuð, gætu haft gott af því að upplifa hrollvekjandi kvikmynd. En raunin er sú að þær heilastöðvar sem tilheyra randkerfi heilans sjá um ýmsa þætti tilfinninga og minnis. Þegar maður horfir á ógnvekjandi atriði í hryllingsmynd fellur það skaut randkerfisins að túlka ógnvekjandi atriði í myndinni sem raunverulegt kvíðavaldandi áreiti. Heilinn fer þá að skynja hræðslu og undirbýr mann fyrir ógnvekjandi atburði, jafnvel þótt að við sjálf séum fullkomlega meðvituð um að atburðirnir á skjánum séu ekki raunverulegir. Við getum þannig upplifað neikvæðar tilfinningar í aðstæðum sem eru þó á okkar valdi og sé því gagnlegt tól til þess að takast á við kvíða. Ef við verðum of hrædd getum við litið undan, kveikt ljósin eða slökkt á myndinni.
Það er því ekki erfitt að trúa því að þeir sem kljást við kvíða finnist freistandi að beina áhyggjum sínum að einhverju sem tengist ekki lífi þeirra. Hryllingsmyndir gætu veitt fólki hlé frá áhyggjum af hversdagslífinu sem eru að valda þeim sálrænum og jafnvel líkamlegum skaða. Í stað þess að hafa hugann sífellt við skólaverkefni þá er maður upptekinn við að hafa áhyggjur af unglingum á flótta undan brjáluðum morðingja.