„Stúdía í tíðaranda, smá svört kómedía en fyrst og fremst heiðarlegur farsi“
Viðtal við Auði Jónsdóttur, rithöfund
Vegna heimsfaraldursins sem nú geisar er frekar erfitt að hitta fólk og spjalla. Viðtalsvinnan er því aðeins möguleg í gegnum netið; Facebook, Zoom eða Skype. Ég settist fyrir framan tölvuna og sá að rithöfundurinn Auður Jónsdóttir var að gefa út nýtt verk, bók sem hún skrifaði ásamt Birnu Önnu Björnsdóttur sem ber heitið 107 Reykjavík. Skemmtisaga fyrir lengra komna. Skáldsagan er að þeirra sögn skemmtisaga fyrir lengra komna sem endurspeglast í undirtitli. Mér þótti forvitnilegt að spyrja Auði, eða Auju eins og hún er kölluð, hvernig bókin varð til? Við töluðum einnig um fyrri verk Auju, samstarf við ritstjóra og annað forvitnilegt.
Sæl Auður og takk fyrir að veita viðtalið. Hvernig þekkist þið Birna?
Við Birna erum gamlar og góðar vinkonur. Í denn, þegar við vorum ungar, vorum við oft að stússast í því sama, vinna á blöðum og í bókabúðum. Síðan fórum við báðar að skrifa skáldsögur. Og fluttum reyndar báðar til útlanda, þar sem ég bjó í mörg ár, í þremur löndum í Evrópu en hún hefur búið í Bandaríkjunum og býr þar mesta part enn.
En hvað það hefur verið gaman. Um hvað er nýja verkið ykkar?
Bókin er um nokkrar miðaldra vinkonur í Vesturbænum sem búa yfir töluverðu fjárhagslegu bolmagni en eyða miklu púðri í að skapa sér félagslega stöðu og vera bæði athafnaskáld og félagsljón. Þetta er soltil stúdía í tíðaranda, smá svört kómedía, en fyrst og fremst heiðarlegur farsi.
Þótti ykkur erfitt að skrifa saman bók í miðjum heimsfaraldri?
Það var ekki erfitt, eiginlega þvert á móti. Það var svo mikil næring og góður félagsskapur að geta skrifað með annarri manneskju í allri einverunni.
Í pistlunum leik ég mér að því að blanda saman vinnuaðferðum blaðamennsku og skáldskapar, æ meira með hverju ári sem líður og tel þá vera hluta af bókmenntalega höfundarverki mínu
Ert þú strax byrjuð á næstu skáldsögu eða ertu að gera önnur verk?
Ég er alltaf með eitthvað í vinnslu í tölvunni, nú er ég að leggja drög að þremur bókum, síðan fer ég að einbeita mér að þeirri sem er komin lengst. Ég er að vinna í skáldsögu, barnabók og bók sem er byggð á viðtölum við mann hér í bæ sem á svo merkilegt lífsstarf að baki að ég eiri ekki fyrr en það verður búið að tjá sýn hans í bók. Svo skrifa ég reglulega í Kjarnann en ég hef skrifað pistla svo að segja samfleytt síðan árið 2003, í ýmsa fjölmiðla og nú skrifa ég fyrir Kjarnann. Í pistlunum leik ég mér að því að blanda saman vinnuaðferðum blaðamennsku og skáldskapar, æ meira með hverju ári sem líður og tel þá vera hluta af bókmenntalega höfundarverki mínu. Mér finnst gaman að flakka á milli forma og gera tilraunir með formin og blanda þeim saman, enda leik ég töluvert með flöktandi skil veruleika og skáldskapar í skrifum mínum.
Auður á margar uppáhalds bækur en hún segir þær þenja út vitundina og hafa teljandi áhrif á hugsun hennar
Átt þú þér einhverja uppáhalds bók?
Þær eru svo margar, uppáhalds bækurnar mínar. Oft þegar ég hef verið spurð hver sé uppáhalds skáldsagan mín hef ég svarað Meistarinn og Margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov – eins og svo margir. Af þeirri ástæðu að hún þandi út vitundina þegar ég las hana fyrst á unglingsárum. Hún er það sem ég myndi kalla tótal skáldsaga.
Þegar ég las Etýður í snjó, í fyrra, eftir Yoko Tawada – sem er japönsk en búsett í Þýskalandi og notar bæði tungumálin til að skrifa bækur sínar svo hugarheimurinn verður brjálæðislega magnaður bræðingur úr tveimur tungumálum – varð ég fyrir samskonar áhrifum og þegar ég las Meistarann og Margarítu í fyrsta sinn. Vitundin þandist út. Því nefni ég hana. En ég á margar aðrar uppháhalds bækur.
Árið 2005 las ég t.d. tvær bækur í sömu vikunni sem höfðu teljandi áhrif á hugsun mína. Það voru bækurnar The Handmaids Tale eftir Margaret Atwood og Slepptu mér aldrei eftir Kazuo Ishiguro; ég las reyndar báðar bækurnar á ensku, þá var held ég Slepptu mér aldrei ekki komin út á íslensku, en hún er nú til í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Hina þarf tæpast að kynna fyrir fólki.
Eins var ég lengi mjög hrifin af satíruförsum eftir höfunda á borð við Sue Townsend, sem skrifaði bækurnar um Adrian Mole, og John Kennedy Toole sem skrifaði Aulabandalagið. Í nýju bókinni okkar Birnu Önnu, 107 Reykjavík – skemmtisaga fyrir lengra komna, fæ ég útrás fyrir svoleiðis takta. Eins má nefna Fay Weldon sem ég las spjaldanna á milli sem unglingur, já, og Kurt Vonnegut. Raunar verð ég líka að nefna The Vegetarian eftir Han Kang en sú bók þandi líka út vitundina á svo léttan en um leið sterkan hátt, þannig að hún hafði mikil áhrif á mig… og fleiri og fleiri.
Mamman í Ósjálfrátt er í uppáhaldi því hún er byggð á mömmu minni, svo ósjálfrátt þykir mér sérstaklega vænt um hana
En af þínum verkum, stendur eitthvert þeirra upp úr fyrir þér? Skemmtilegast eða auðveldast að skrifa?
Það hefur verið skemmtilegt og um leið tsjalens að skrifa allar þessar bækur, held þær séu orðnar tólf. Hugsa samt það hafi verið skemmtilegast að skrifa Fólkið í kjallaranum því hún var fyrsta fullburða skáldsagan mín.
Áttu þér uppáhalds persónu úr eigin verkum?
Já, Barða í fólkinu í kjallaranum. Og mömmuna í Ósjálfrátt. Barði er uppáhalds persónan mín af því að hann er sú persóna sem mér finnst mér hafa tekist best upp með að búa til. Mamman í Ósjálfrátt er í uppáhaldi því hún er byggð á mömmu minni, svo ósjálfrátt þykir mér sérstaklega vænt um hana. Hún er flókin og skemmtileg söguhetja að vinna með.
Auður segir að ritstjórar hennar hafi kennt henni svo margt ómetanlegt og dýrmætt auk þess sem samstarfið við þau hafi alltaf verið flæðandi, skemmtilegt og gefandi
Hver er ritstjórinn þinn og hvernig er samstarfið við hann?
Ég hef haft nokkra ritstjóra í gegnum tíðina en að mestu leyti starfað með Páli Valssyni og Sigþrúði Gunnarsdóttur. Bæði hafa komið að ég held næstum öllum bókunum mínum. Jafnframt hefur Silja Aðalsteins komið að þó nokkrum. Þau eru í rauninni mínir mentorar í lífinu. Ég var mjög heppin að fá ung og óreynd að vinna með svo góðum ritstjórum og þau hafa kennt mér svo margt ómetanlegt og dýrmætt, auk þess sem samstarfið við þau hefur alltaf verið flæðandi skemmtilegt og gefandi. Það er mjög mikilvægt að geta unnið með ritstjóra sem þú þekkir og treystir, díalógurinn á milli höfundar og ritstjóra þarf að geta verið frjór en það krefst trausts. Ég þekki þau orðið svo vel og þau mig að yfirleitt hefur samtalið verið mjög frjótt.
Þetta var stutt en skemmtilegt viðtal og gæti ég líklega spurt Auði endalaust út í verkin hennar sem eru orðin eins og áður sagði tólf talsins. Ég þakka henni kærlega fyrir að taka sér tíma til að svara og óska henni til hamingju með nýjustu bókina, 107 Reykjavík sem hægt er að nálgast í helstu bókabúðum landsins. Þess má geta að þær stöllur árituðu bunka af bókum í Bóksölu stúdenta en þar gildir reglan „fyrstur kemur fyrstur fær“.