Útigangsmaðurinn
Hannes stakk við fæti og gekk hratt yfir Austurvöll í átt að gamla Landsímahúsinu, valdi bekkinn sem var undir þakskeggi hússins og kom sér fyrir. Hann leitaði skjóls fyrir veðri og vindum, fylgdist grannt með veðurspánni og reiknaði út hvar best væri að eyða deginum. Þannig voru nánast allir dagar.
Það var eins og honum fyndist það vera sitt hlutverk í lífinu að gæta hinna, sem voru á svipuðu róli og hann sjálfur, að þeim liði þokkalega. Einhvers konar ábyrgðartilfinning, sem hafði tekið sér bólfestu í huganum, og hann virtist ekkert átta sig á af hverju.
Hugsanlega átti tilfinningin eitthvað skylt við fyrra starf, þegar hann bar ábyrgð á lífi fjölda manns í hverjum mánuði. Starfið olli honum stöðugt meira kvíða. Hann fór að nota ótæpilega mikið áfengi og stóð í þeirri meiningu að þannig myndi hann slaka á og kvíðinn minnka.
Það reyndist ekki rétt, áfengið jók á vanlíðanina og veikleikar skutu upp kollinum hjá Hannesi sem var 47 ára.
Ljóst liðað hárið var oftast tekið í tagl. Hann var tekinn í andliti, en það var eitthvað sérstakt við augun. Þau höfðu einhvers konar töframátt, svo fallega blá að þau minntu á tært stöðuvatn.
Frakkinn hans hafði einu sinni verið flottur kasmírullarfrakki, nú hékk hann utan á honum og faldurinn hægra megin lafði niður. Hannes kærði sig kollóttan.
Fótabúnaðurinn var lítið skárri því skósólinn á öðrum skónum var laus, svo hann slóst í stéttina við hvert skref.
Hannes yfirgaf snögglega hrímkaldan bekkinn, hraðaði sér yfir Austurvöllinn og studdist við eina hækju. Hann haltraði og horfði í kringum sig í ljósaskiptunum. Þegar hann leit í átt að Dómkirkjunni, sló klukkan á kirkjuturninum níu hvell högg. „Alltaf bið, nú tekur við bið.” tautaði Hannes með sjálfum sér. Hann bretti upp frakkakragann og hneppti efstu tölunni.
Hannes var með fleyg með sér og tók slurk. Hann hristist allur þegar hann saup á glundrinu, jafnaði sig svo um leið og áhrifin hrísluðust um grannan líkamann.
Vindurinn var norðanstæður þennan febrúarmorgun, en spáin átti að breytast í suðvestan átt upp úr hádegi. Það var illskárra, því Hannes þoldi illa kuldann. Skítugir snjóskaflar voru á víð og dreif um túnið, þeir minntu á að veturinn var enn ríkjandi. Þó sást glitta í fáeina vorlauka, sem gægðust varlega upp úr rakri moldinni, gáfu til kynna að vorið væri á næsta leiti. Það var ekki mannmargt á Austurvelli þennan hráslagalega morgun, þó sáust nokkur þekkt andlit, á hlaupum yfir völlinn inn í Alþingishúsið.
Hannes og útigangsmennirnir eyddu dögunum saman, oftast tveir eða þrír. Það kom fyrir að þeir væru ekki uppstandandi þegar kvöldið hélt innreið sína. Laganna verðir brugðust þá skjótt við og komu þeim sem þurftu til hjálpar. Hannes þvældist um víðan völlinn, og beið eftir því að kirkjuklukkan myndi slá tíu slög. Þá opnaði apótekið.
Hann hafði nurlað saman klinki fyrir kogara til að birgja sig upp fyrir daginn. Það var kominn hrollur í hann, sem smaug inní merg og bein. Hannes fékk sér annan sopa og lét hugann reika aftur í tímann.
Hann sá ljóslifandi fyrir sér raðhúsið, sem hann og Svala keyptu stuttu eftir að þau giftu sig.
Þau höfðu kynnst í fluginu, hún var flugfreyja og hann flugmaður. Hann rifjar upp augnablikið, þegar hann sá hana fyrst.
Það var hlýjan sumardag. Hún var í þunnum túrkisbláum kjól og hvítum jakka, sem hvíldi á herðunum. Þau hittust fyrir framan Hótel Loftleiðir, þangað sem bæði áttu erindi á sama tíma.
Hún kom til hans og kynnti sig, brosið hennar var svo hlýlegt og fallegt að það eitt snart hann strax.
Þau spjölluðu stutt saman og Hannes fann út eftir að hafa skoðað flugskrána, að þau myndu vera í sömu áhöfn næsta föstudag. Til New York.
Hannes varð fljótt skotinn, eiginlega ástfanginn, eftir þessa fyrstu ferð vestur. Þau borðuðu saman ásamt áhöfninni á kínverskum veitingastað, yndislegt kvöld. Hann hringdi fljótlega í Svölu eftir ferðina og bauð henni út. Hún þáði boðið ekki strax, lét hann ganga svolítið á eftir sér.
Fyrsta kvöldið, þegar þau voru tvö saman, var rólegt og rómantískt. Kertaljós á borðum, djasstónlist í bakgrunni og Svala klædd í rauðan kjól, sem lagðist fallega að íturvöxnum líkamanum. Hún var svo heillandi og örlítið feimin. Hannes minnist þess, að það hafi tekið hann dágóða stund að hafa sig til fyrir fyrsta stefnumótið. Hann blikkaði spegilmyndina, hæstánægður með það sem hann sá.
Fljótlega eftir fyrstu kynni fóru þau að búa saman og giftu sig ári seinna, Svala þá orðin ófrísk af tvíburunum. Hannes minnist þess hve hamingjusöm og samhent þau voru meðan allt lék í lyndi. Þau höfðu nóg umleikis, gátu ferðast og lífið brosti við þeim.
Það var ári áður en þau skildu, sem kvíðinn magnaðist og drykkjan jókst hjá Hannesi. Ástandið lamaði hann fullkomlega. Það var eins og hann hefði ekkert að gefa lengur. Hannes fjarlægðist bæði Svölu og börnin meir og meir.
Hún margbað hann um að leita sér aðstoðar en Hannes neitaði því, hann viðurkenndi ekki vandann. Hann hafði stöðugar áhyggjur af næsta flugi, þoldi ekki álagið sem því fylgdi og var loks sjúkraskrifaður samkvæmt læknisráði.
Þau skildu, Hannes missti starfið og heimilið, allt á sama árinu. Andleg og líkamleg heilsa hans var í molum.
Hugurinn reikaði til dagsins þegar tvíburarnir fæddust. Það var mesti hamingjudagur lífsins, þegar tvö falleg börn komu í heiminn. Drengur og stúlka.
Hannes náði í veskið sitt í brjóstvasanum og tók fram myndina af Svölu og tvíburunum, sem hann geymdi næst hjartastað. Svala brosi á móti honum, svo fallega að það yljaði honum um hjartarætur eitt augnablik.
Hannes hrökk við þegar hann heyrði hvella rödd Kalla káta, sem glumdi yfir völlinn.
– „Sæll kunningi“ sagði Kalli og brosti út undir eyru.
– „Ekki spyr maður að þér kafteinn, alltaf búinn að gera klárt fyrir daginn, taka frá langbesta bekkinn og redda búsi. Þakka þér innilega fyrir kunningi“ sagði Kalli og settist við hlið Hannesar á bekkinn.
Kalli var tæpum 10 árum yngri en Hannes, hann virtist nokkuð vel á sig kominn líkamlega, sagðist stunda sund á milli drykkjutúra. Létta lundin hans hafði góð áhrif á dapurlegt umhverfið.
Kalli horfði hugsi fyrst á Hannes og síðan á myndina, sem Hannes var með í höndunum. Hann skynjaði strax hvað honum leið bölvanlega, fannst hann líka óeðlilega rauðeygður. Kalli vandaði sig eins og hann best gat og sagði:
– „Hannes, við verðum að koma okkur út úr þessari drykkju og volæði. Þetta er ekkert líf! Skítakuldi og stöðug blankheit og timburmennirnir, maður minn! Við missum heilsuna á þessum fjanda, þú veist það manna best Hannes!“
– „Ég er alla vega ákveðinn í að fara bráðum í meðferð“ bætti Kalli við, stóð upp og snéri sér að góðlegum manni sem gekk framhjá bekknum og ríghélt í gamaldags skjalatösku.
– „Fyrirgefðu kunningi“ sagði Kalli.
– „Ekki máttu missa smá klink? Mikið óskaplega yrði ég þakklátur, ef þú gætir látið eitthvað smotterí af hendi rakna, fyrir mat…“
Góðlegi maðurinn opnaði töskuna ofurvarlega.
Kalli gekk burt með 300 krónur og sýndi Hannesi hreykinn.
– „Hannes, gerir þú þér grein fyrir því hvað það er mikið til af góðu fólki?“ Hannes svaraði þessu engu.
Það var samt augljóst að jákvæðni Kalla hafði góð áhrif á Hannes.
Næsta dag sást ekkert til Hannesar, sem var óvenjulegt, því venjulega var hann mættur fyrstur og búinn að taka frá besta bekkinn.
Nokkrir stálpaðir skólastrákar sögðu Kalla að þeir hefðu rekist á Hannes seint í gær, illa til reika og ofurölvi. „Hann gekk öskrandi um völlinn stutta stund, og hvarf síðan út í myrkrið” sögðu þeir.
Ekkert spurðist heldur til Hannesar næstu daga. Kalli hringdi á Landspítalann til að athuga hvort hann væri innlagður, en svo virtist ekki vera. Lögreglan hafði heldur ekki haft afskipti af Hannesi nýverið. Það var eins og jörðin hefði bókstaflega gleypt hann.
Kalli hugsaði sig um. Hann mundi allt í einu eftir hvar kjallaraherbergi Hannesar var. Hann hafði hjálpað honum heim að dyrum í eitt skipti, þegar Hannes var ofurölvi. Kalli hafði aldrei komið inn fyrir þröskuldinn, því Hannes hleypti engum inn. Hann skammaðist sín fyrir litlu kjallarakompuna, sem hann bjó í. Hún var í hrörlegu bakhúsi í Þingholtunum. Kalli barði að dyrum, en fékk ekkert svar.
Loksins þremur vikum seinna komu fregnir af Hannesi, sem sendi bréf stimplað í Boston.
Sæll Kalli!
Ef þú færð þetta bréf í hendur, sem ég vona, skýrir það ýmislegt. Ég reikna með að þú hafir hugsað til mín og kannski svipast um eftir mér, haldið að ég væri allur. Eins og þú sagðir alltaf var ég fyrstur á morgnana á Austurvöll, til þess að undirbúa daginn. Það var aðallega gert fyrir sjálfan mig Kalli, því það var eina hlutverkið, sem orðið var eftir hjá mér og ég ríghélt í það. Það má segja að lífsneistinn hafi slokknað fyrir nokkrum árum, þess vegna sagði ég lítið frá sjálfum mér og var oft önugur við þig. Ég sé eftir því og nú reyni ég að bæta fyrir það með þessu pári mínu. Þín jákvæða nærvera var það eina sem létti mér stundirnar. Ég missti allt sem mér var kærast á sama árinu. Svölu, konuna mína, börnin mín tvö, starfið og heimilið. Ég var erfiður og þrjóskur og vildi ekki fara í meðferð. Flúði í drykkjuna, eflaust út af kvíðanum. Eftir að konan mín hafði reynt allt þá vildi hún skilnað og ég lái henni það ekki. Erfiðast fannst mér að yfirgefa tvíburana sem þá voru 6 ára, að byrja í skóla. Ég höndlaði ekki umskiptin, og fór fljótt á botninn. Nóttina sem ég “hvarf” dreymdi mig skýran og sérkennilegan draum sem fyllti mig bjartsýni. Slíkar tilfinningar hafði ég ekki upplifað lengi, því get ég lofað þér. Í draumnum birtist mér ógreinileg vera með hlýja útgeislun. Hún horfði lengi í augun á mér brosandi og sagðist vera heilladísin mín. Ef ég færi eftir því sem hún ráðlegði þá myndi líf mitt taka stakkaskiptum. Áfengisbölið væri að eyðileggja allt. Hún endaði á að segja mér að töframáttur augna minna myndi hjálpa mér, hún sæi til þess. Svo vaknaði ég við að það er bankað á grútskítuga gluggarúðuna. Ég nuddaði augun og reyndi að ná áttum,
Með því að rýna út um gluggann, sá ég skugga, fannst eins og það væri skuggi af kvenmanni. Ég klæddi mig í snatri og opnaði örlítið hurðina og fyrir utan stóð Svala og sagðist vilja gera síðustu tilraun til að koma mér til hjálpar. Það geri hún vegna tvíburanna, sem höfðu séð mig öskrandi í miðbænum og væru nánast óhuggandi síðan. Svala rétti mér flugmiða og sagðist hafa pantað fyrir mig innlögn á meðferðarstofnun í Boston, ég þurfi að fara strax ef ég vilji taka tilboðinu. Hún talaði um að tvíburarnir hafi miklar áhyggjur af mér og sakni þess að geta aldrei hitt pabba sinn. Síðan kvaddi hún og sagði að það væri beðið eftir sér. Og bætti við að ég fengi að umgangast börnin, ef mér tækist að rétta úr kútnum, annars ekki. Ég tók mig saman og flaug til Boston tveimur dögum seinna, skjálfandi eins og hrísla í vindi.
Ég hef ekki hugmynd um hvernig Svala vissi hvar mig var að finna, en mér þótti vænt um þessa umhyggjusemi, sem kom mér í opna skjöldu. Ég hef verið hér á meðferðarstofnuninni í Boston í 2 vikur, og það er 12 vikna prógram framundan. Ég er farinn að geta opnað mig… sem er ótrúlega mikill léttir. Gerðu eins og ég Kalli, taktu á þínum vanda. Því eins og þú sagðir sjálfur: Þetta er ekkert líf!
Með innilegri kveðju,
Hannes