„Undir þessari grímu, önnur gríma“

Ævi og störf Claude Cahun

Claude Cahun (fædd Lucy Schwob) fæddist 25. október, 1894 í Nantes, Frakklandi. Hún var alin upp af ömmu sinni, Mathilde Cahun, þar sem móðir hennar átti við andleg veikindi að stríða. Faðir Cahun var af gyðingaættum og varð Cahun fyrir aðkasti í skóla vegna þess. Ákveðið var því að senda hana í skóla í Surrey í Englandi. Þegar Cahun kom aftur til Nantes árið 1909 kynntist hún Marcel Moore (fædd Suzanne Malherbe) og urðu þær ævilangar samstarfs- og ástkonur. Jafnframt urðu þær stjúpsystur árið 1917 þegar fráskilinn faðir Cahun giftist móður Moore, sem var þá ekkja.


Árið 1920 fluttu Cahun og Moore saman til Parísar, stuttu eftir að hafa formlega tekið upp nöfnin Claude Cahun og Marcel Moore. Cahun er eftirnafn ömmu hennar en fornafnið Claude valdi hún þar sem það er kynhlutlaust nafn. Cahun taldi sig hvorki karl- né kvenkyns en eins og hún sagði í sjálfsævisögu sinni Disawovals (1930): „Masculine? Feminine? It depends on the situation. Neuter is the only gender that always suits me.“ Í verkum Cahun má vel greina óhefðbundnar hugmyndir um kyn og kyngervi, sérstaklega í sjálfsmyndum hennar.

Ein af merkustu myndaseríum Cahun sem brjóta upp hefðbundnar hugmyndir um kyn og kyngervi er sería sem ber nafnið „I am in training, don‘t kiss me“. Á þeim myndum er Cahun með kvenlega hárgreiðslu, ýktan varalit og hjörtu á kinnunum. Hins vegar er hún svo klædd í stuttbuxur og bol með myndum af geirvörtum, vörum og orðunum „I am in training, don‘t kiss me“. Cahun heldur svo á lyftingarstöng með lóðum sem hún ýmist stillir sér upp með standandi eða sitjandi.

Verk Cahun einkennast mörg hver af súrrealísma en Cahun og Moore kynntust stefnunni og fylgismönnum hennar í París. Cahun og Moore vinguðust þar við fólk á borð við Robert Desnos, André Breton, Sylviu Beach og Adrienne Monnier og árið 1932 gengu þær í Association des Écrivains et Artistes Révolutionnaires (Samtök byltingakenndra rithöfunda og listamanna). Árin sem Cahun og Moore dvöldu í París voru mjög frjó en Cahun skapaði á þeim tíma fjölda ljósmynda og klippimynda ásamt því sem hún skrifaði og gaf út ýmsar bækur og pistla. Moore var þar dyggur samstarfsmaður hennar en talið er að hún hafi aðstoðað við meirihluta af verkum Cahun, jafnvel verið á bakvið myndavélina í „sjálfsmyndum“ hennar.

Árið 1937 fluttu Cahun og Moore til eyjunnar Jersey í Ermasundi. Talið er að parið hafi flúið til eyjunnar vegna aukins gyðingahaturs og óróa í París í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar, en eins og fram hefur komið var Cahun af gyðingaættum. Eftir að Þjóðverjar hertóku Ermasundseyjar árið 1940 tóku Cahun og Moore upp á því að dreifa and-nasískum áróðri til þýskra hermanna. Upp komst um athæfi þeirra árið 1944 og voru þær fangelsaðar og dæmdar til dauða. Aftakan var þó aldrei framkvæmd þar sem stríðinu lauk stuttu seinna og voru Cahun og Moore þá leystar úr haldi. Heilsa Cahun hrakaði eftir fangelsisvistina og lést hún árið 1954, sextug að aldri. Moore féll fyrir eigin hendi 18 árum síðar og liggja þær saman í St. Brelade‘s kirkjugarði á eyjunni Jersey.

Cahun og verk hennar gleymdust með tímanum. Það var ekki fyrr en árið 1992 þegar franski listfræðingurinn François Leperlier gaf út ævisögu Cahun sem listheimurinn fór að hafa áhuga á henni. Í dag eru Cahun og byltingarkennd verk hennar vinsælt rannsóknarefni innan femínískrar og hinsegin list- og sagnfræði. Jafnframt var gata í París nefnd Cahun og Moore til heiðurs árið 2018. Gatan, sem ber nafnið Allée Claude Cahun – Marcel Moore, liggur nálægt Notre-Dame-des-Champs götu, þar sem parið bjó í París á sínum tíma. Gatan er tileinkuð þeim fyrir framtak þeirra til listasögunnar og fyrir hugdjörf andspyrnuathæfi þeirra á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.