„Maður lærir ekkert nema með því að gera hlutina”
Fannar Örn Karlsson hefur um árabil verið áberandi í íslensku paunk-senunni. Um þessar mundir spilar hann á trommur í Dauðyflunum, Börn og D7Y. Áður var hann í hljómsveitunum The Death Metal Supersquad, The Best Hardcore Band in the World og Spy Kids 3D og þá er listinn samt langt frá því að vera tæmdur. Það skal tekið fram að greinahöfundur var bassaleikari í Spy Kids 3D og spilaði einnig á bassa á tveimur tónleikum með D7Y.
Auk tónlistar hefur Fannar mikið fengist við að teikna og hefur teiknað mörg plötuumslög og auglýsingaplaköt fyrir tónleika og Roller Derby keppnir. Á síðustu árum hefur hann beint athygli sinni að því að gera teiknimyndir og hefur hann birt þær á YouTube-rásinni sinni og á Instagram.
Ég átti gott spjall við Fannar þar sem við ræddum beyglaðar teiknimyndir og DIY (Do It Yourself) viðhorf til listsköpunar.
Hvernig kviknaði áhugi þinn á teiknimyndagerð?
Ég er ekki alveg viss. Ég hef alltaf haft gaman af teiknimyndum, þegar ég var lítill þá laðaðist ég mjög að teiknimyndum sem voru mjög „animated“ eins og Looney Tunes eða Ren & Stimpy þar sem það var mikið af líflegum og ýktum hreyfingum. Þegar ég var lítill áttum við animation-forrit, ég var alltaf að reyna að teikna með músinni á tölvuna. Það gekk ekkert rosalega vel en ég hef alltaf verið að dunda mér við þetta og gera tilraunir. En það var í rauninni ekki fyrr en ég keypti mér iPad að ég fór að gera þetta af einhverri alvöru.
Þú hafðir eitthvað áður fengist við að gera myndasögur, var það ekki?
Eitthvað sko, ekkert rosa mikið. Ég hef aðallega verið að teikna plaköt fyrir tónleika og plötukover.
Maður lærir ekkert nema með því að gera hlutina og maður þarf að sökka í smá tíma áður en það gerist eitthvað af viti.
Hverju ertu að vinna að þessa dagana?
Ég er að gera fyrstu stuttmyndina mína. Það er aðal verkefnið sem ég er að vinna núna. Mig langaði að prófa að gera mynd, ég er ennþá að læra þetta og hugsaði að það væri gott að fara í gegnum ferlið að gera eina stuttmynd, hvort sem hún verður góð eða ekki. Bara til að læra hvað ég þarf að hugsa út í og svona, hvernig ég þarf að undirbúa mig. Ég ákvað að gera bara mynd með engum undirbúning og með allt eingöngu planað í hausnum á mér og sjá „Ókei, þetta er eitthvað sem ég þarf að hugsa út í næst.“ Það er það sem ég er að vinna að núna, ég er að leggja lokahönd á stuttmyndina.
Svona „learning by doing“?
Já. Þegar maður er í hljómsveit þá er það svolítið tilfellið. Þegar maður lærir t.d. á hljóðfæri, stofnar hljómsveit, semur lög, gefur út demó, spilar á tónleikum og bara prófar sig áfram. Maður lærir ekkert nema með því að gera hlutina og maður þarf að sökka í smá tíma áður en það gerist eitthvað af viti.
Þú hefur verið frekar virkur í tónlist og hefur einmitt verið í fleiri hljómsveitum en tja, flestir. Eru einhver tengsl milli teiknimyndanna og DIY-viðhorfsins í paunkinu?
Að gera DIY-tónlist er hluti af því hvernig ég skil það að gera list yfir höfuð. Ég veit samt ekki nákvæmlega hvernig það hefur áhrif. Ég veit að það að gera tónlist hefur áhrif á hvernig maður skilur dýnamík, tímasetningu og ryþma, sem hefur áhrif á sumt þegar maður er að „animate-a“. En mér líður eins og ég sé ennþá að taka fyrstu skrefin mín í teiknimyndagerð, þannig að mér finnst svolítið erfitt að átta mig algjörlega á hvernig tónlistarsköpunin og það sem ég hef lært þaðan er að hafa áhrif á það sem ég hef gert í teiknimyndum.
Hvaða tækni notastu við?
Ég nota iPad Pro og Apple Pencils sem ég teikna með. Einnig er ég með forrit sem heitir Clip Studio sem er myndasöguforrit með animation-fítusum en ég handteikna bara hvern og einn ramma fyrir sig. Þetta er ekki eins og í Flash-forritinu þar sem tölvan reiknar út hreyfingu fyrir mig. Ég get ekki heldur sett beinagrind, eða eitthvað álíka, í teikninguna til að láta hana hreyfast. Hver rammi er teiknaður. Þetta er teiknað „á tveimur“ eins og það er kallað, þannig að það eru tólf rammar á sekúndu. Svo nota ég forrit sem heitir OpenToonz til að lita, þá skanna ég inn teikningarnar og það eru alls konar litafítusar. Þetta forrit var þróað og notað af Studio Ghibli og notað í Futurama og það er frítt.
Hays-kóðinn var settur á laggirnar árið 1934 til að ritskoða Hollywood-kvikmyndir út frá gamaldags kristnum siðferðisgildum. Hann var síðan lagður af u.þ.b. þremur áratugum seinna. Fyrir það voru teiknimyndir frekar sturlaðar að mati Fannars Arnar.
Að teikna hvern ramma fyrir sig hlýtur að þýða að það að gera m.a.s. stutta stuttmynd sé heilmikil vinna.
Ég hef unnið að þessari teiknimynd í ár. Það eru mörg þúsund teikningar í þriggja mínútna langri mynd. Ég hefði getað gert hana á svona sex mánuðum ef ég hefði lagt jafnt hart að mér og þegar ég hef tekið svona rassíur. En stundum dett ég út og gleymi mér í einhverju öðru.
Það voru stuttar teiknimyndir sem þú varst að setja á Instagram sem voru í ætt við gömlu MTV-bumperana, sem voru örstuttar og afar súrrealískar teiknimyndir sem voru gjarnan sýndar milli dagskrárliða á MTV. Mig langaði, í samhengi við það, að spyrja hverjir væru þínir helstu áhrifavaldar?
Ég ólst upp á Ren & Stimpy, það er soldið stórt fyrir mér þó svo að sá gaur (John Kricfalusi) sé ógeð. Líka Looney Tunes, sérstaklega þær Looney Tunes-myndir sem voru í leikstjórn Bob Clampett og Tex Avery. Það var alltaf í rosalega miklu uppáhaldi hjá mér og sat í mér lengi. Á MTV sá maður alltaf eitthvað skrýtið „animation“ í bumperunum hjá þeim. Svo var MTV með Liquid Television sem sýndi skrýtnar teiknimyndir sem ég horfði alltaf á eins og Beavis & Butt-head, The Head, stuttmyndir eftir Bill Plympton, Æon Flux og fleira. Ég held að það sé svona það helsta.
Í seinni tíð hef ég verið hrifinn af japönskum teiknimyndum, t.d. Masaaki Yuasa sem gerði Ping Pong og Devilman Crybaby. Svo datt ég soldið mikið inn í gamlar teiknimyndir frá 1930, fyrir tíð Looney Tunes. Max Fleischer sérstaklega, Betty Boop, Stjáni Blái og fleira. Þær eru eiginlega miklu klikkaðri en Looney Tunes. Þær eru svo geðveikt súrar margar hverjar, sérstaklega þær sem komu fyrir 1934, þá var byrjað að ritskoða kvikmyndir í Hollywood.
Já, Hays-kóðinn var einmitt settur á laggirnar árið 1934 til að ritskoða Hollywood-kvikmyndir út frá gamaldags kristnum siðferðisgildum. Hann var síðan lagður af u.þ.b. þremur áratugum seinna.
Já. En fyrir það eru myndirnar alveg frekar sturlaðar. Ég sá einhverja Felix the Cat-mynd um daginn frá 3. áratug síðustu aldar þar sem hann er bara eitthvað á djamminu, geðveikt drukkinn og er að kynferðislega áreita ljósastaur. [Hlátur] Þannig dót er mjög spennandi.
En varðandi einmitt þessar Stjána Bláa-teiknimyndir, það var verið að gera hluti í þeim myndum sem duttu síðan alveg út, eins og að nota „live“ bakgrunna í þrívídd.
Einmitt, þeir byggðu módel á stóru hringborði sem þeir snúa svo, þannig að þú sérð húsin eins og þau hafi verið gerð í tölvu. Eins og þetta sé CGI (tölvuteiknaðar tæknibrellur eða Computer-generated-imagery.) Það er svakalega flott, líka af því að þetta er svarthvítt og á filmu, filman þjappar þetta einhvern veginn saman þannig að teikningarnar og bakgrunnurinn falla að hvort öðru. Filman blandar þessu saman á mjög svona natúralískan hátt. Sem mér finnst mjög áhugavert.
Akkúrat. Af því að þú minntist hérna á Ping Pong og Devilman Crybaby langaði mig að spyrja þig hvaða teiknimyndir á síðustu árum, eða á 21. öldinni, hafa heillað þig?
Adventure Time, ég elska Adventure Time. Ég dýrka það, ég er að horfa á það allt aftur. Líka Ping Pong, ég hef horft á Ping Pong örugglega svona fimm sinnum, ég elska Ping Pong. Það eru svo geðveikar teikningar, allt einhvern veginn svo skrýtið og beyglað og teygt og undarlegt. Það er rosa margt sem ég hef verið að horfa á. Ég uppgötvaði japanskar teiknimyndir fyrir nokkrum árum. Af nýlegu efni þá er það sem ég er mest að horfa á. Japönsku teiknimyndirnar sem ég sá í sjónvarpi þegar ég var lítill voru Kalli og Kýklóparnir og Skot og Mark. Svo voru líka evrópskar framleiðslur sem maður vissi ekki á þeim aldri að væru framleiddir í Japan eins og t.d. Múmínálfarnir, Heidi og Alfreð Önd.
Evrópskar framleiðslur sem voru unnar í Japan og teiknaðar eins og japanskar myndir. Líka þáttur sem ég elskaði sem hét Andinn í Flöskunni. Andi sem borðaði svaka mikið af hamborgurum, man lítið eftir þeim en mér fannst þeir mjög fyndnir. Skot og Mark var ákveðinn skóli af anime, sem einkenndist af mekanískum teikningum, allir karakterarnir eru með einhverskonar ofurbrögð og það eru atriði þar sem bakgrunnurinn hverfur og maður sér bara línur. Svo var hinn skólinn, eins og Andinn í Flöskunni, þar sem teikningarnar geta breyst rosa mikið eftir atvikum. Þetta hefur alltaf verið eitthvað blandað, maður horfir á alvarlega teiknimynd og svo allt í einu er einhver teiknaður á svona mjög kómískan hátt af því að það gerðist eitthvað fyndið, eins og teiknimyndirnar leyfi sér aðeins meira að breyta um stíl. En í minningunni finnst mér eins og Andinn í Flöskunni hafi verið öfgakenndara dæmi. Það var það sem ég tengdi við af því að það var grínteiknimynd þannig að þeir leyfðu sér meira.
Hvernig myndir þú lýsa þínu „aesthetic“ (fagufræði) í teiknimyndagerð?
Mér líður svolítið eins og ég sé ennþá að finna mitt „aesthetic.“ Þegar ég teikna plaköt er ég mikið að nostra, svona að nostra við línurnar. Ég er ekki með góðar fínhreyfingar þannig að ég get ekki gert mjög sterkar og öruggar línur, ég byggi og móta línuna hægt þannig að ég er að reyna að finna stíl sem virkar, af því að ég get ekki eytt klukkutíma í hvern einasta ramma. Það koma reyndar alveg senur þar sem það verður nauðsynlegt. En undir venjulegum kringumstæðum get ég ekki eytt klukkutíma í að teikna einfalda mynd oftar en hundrað sinnum fyrir tíu sekúndur. Það meikar ekki sens þannig að ég er að reyna að finna mig þar ennþá.
Mig langaði líka að spyrja þig aðeins um Looney Tunes. Þú sagðir á Twitter fyrir nokkrum mánuðum að þú hefðir nokkur rjúkandi „hot takes“ um Looney Tunes en slepptir því að deila þeim þegar þú sást á dagatalinu að það væri ekki lengur árið 1945.
Sko, Bob Clampett er besti Looney Tunes-leikstjórinn, ekki Chuck Jones. Það er það fyrsta. Annað er örugglega heitara take en mér finnst Duck Amuck ekki fyndin, mér finnst hún sniðug en mér finnst hún örugglega sísta Chuck Jones-myndin. Veit ekki hvort ég sé með einhver fleiri hot takes.“
Þú ert að kalla yfir þig reiði allra teiknimyndaunnenda veraldar.
Það er allt í lagi. Það er sennilega heitara take en að Bob Clampett sé besti leikstjórinn.
Mér finnst Duck Amuck mjög góð en það er Daffy Duck-mynd frá 1938 sem gleymist oft soldið í umræðunni. Hún heitir Daffy Duck in Hollywood og var leikstýrð af Tex Avery. Hún er alveg frábær og var einmitt með þetta brjálaða „meta“ grín og „avant-garde“ tilraunasemi 14 árum áður en Duck Amuck var gerð.
Bob Clampett var miklu mistækari en Chuck Jones sem gerði yfirleitt frekar „solid“ myndir og um margar mjög góðar. Bob Clampett á alveg geggjaðar myndir en líka sumar sem eru frekar leiðinlegar, en hann tók einfaldlega fleiri áhættur. En ef við erum að tala um einhvern sem er bara „solid“ leikstjóri, þá finnst mér Friz Freleng betri en Chuck Jones, mér finnst hann fyndnari.
Svo er Tex Avery líka geggjaður, Bob Clampett er soldið að ganga skrefinu lengra en það sem Tex Avery var að gera. Í rauninni finnst mér líka eins og Bob Clampett líti soldið til baka til Max Fleischer, að einhverju leyti. Það finnst mér frekar spennandi. En svo eins og með Tex Avery, mér finnst hann eiginlega bestur þegar hann var farinn yfir til MGM.