Ljóð
1.
hún andar frá sér framan í hann
andar létt að sér
andar aftur frá sér framan í hann
kröftugar
svo hár hans bærist lítillega
andar honum svo að sér í heilu lagi
og þar hvílir hann nú
í taugakerfi stúlkunnar
ferðast með henni
gegnum daga
og draumlausar nætur.
hún er þung á sér fyrir vikið
en lætur sig hafa það
og hann er ekki sá eini sem hún ber
og hún er þung á sér fyrir vikið
en lætur sig hafa það
2.
og stundum þegar hún situr á bekk
eða á steinvegg við fjölfarna götu
og fylgist með fólkinu
finnst henni betra
að slökkva á einu skynfæranna
stilla augun á manual fókus
án þess að hirða um að snúa upp á linsuna
fylgjast þannig með fólkinu
því ef hún sér einn of vel
verður henni flökurt.
Enda hvað haldiði að hún kæri sig um
ókunnuga inn í taugakerfi sitt?
3.
og hún segir við mann:
-manstu eftir deginum sem sólin skein?
-vorum við saman þá?
-nei við þekktumst ekki þá
vorum bara saman á sitthvorum staðnum
undir sólinni bæði
svo föðmuðust þau
á meðan hún í huganum
taldi upp á sjö
að þeim punkti
sem faðmlag verður annað og meira
en faðmlag
andaði fisléttum ögnum af honum
inn í taugakerfi sitt
og gekk í burtu