Evelyn

Við höfðum þekkst í tvo mánuði, þegar fyrsta höggið kom…

Sólin er að brjótast fram á milli skýjahnoðranna, þegar við leggjum af stað með flugrútunni á Kastrup, ég, John og Lea.

Það er unaðsleg tilfinning að losna við dósaverksmiðjuna í fjórar vikur, því vinnan er bæði illa launuð og tilbreytingarlaus. Af hverju í ósköpunum er ég þar enn? spyr ég sjálfa mig.

Ég sest við gluggann, anda léttar og dáist að útsýninu. Fjólubláum sírenum trjánna, sem baðaðar eru í mildri morgunbirtunni. Og manninum á hjólinu, með fallega svarta hundinn, sem hleypur í sama takti og eigandinn stígur pedalana.

Svefnleysið segir til sín, mér finnst eins og ég hafi ekkert verið búin að sofa þegar vekjaraklukkan hamaðist á náttborðinu fyrir allar aldir.

John er líka þreyttur, hann er sofnaður í sætinu við hliðina á mér, með litla stráhattinn á milli hnjánna. Hatturinn er gjöf frá Leu í tilefni Spánarferðarinnar.

—————————

Lea er besta vinkona mín, við kynntumst í 4. bekk  grunnskóla. Hún bjó í sömu blokk og ég í úthverfi Kaupmannahafnar. Vinskapurinn hefur haldist, þó oft líði drjúgur tími  milli þess sem við hittumst.

Lea er einhleyp, dugnaðarforkur, sem lærði bæði uppeldisfræði og frönsku í háskólanum. Hún vinnur á frístundaheimili og hefur verið mín stoð og stytta þegar ég hef þurft  á að halda.

Eftir að mamma dó, var ósköp tómlegt hjá okkur og það var helst Lea sem kíkti við eða hringdi. Pabbi  greindist með heilabilun fyrir tveimur árum og er á vistheimili í nokkurra mínútna göngufjarlægð. Ég og John heimsækjum hann á sunnudögum. Suma daga er hann lúinn og vill helst lúra, þá stoppum við stutt. Hann spyr okkur í hvert skipti, hvers vegna konan hans sé ekki með okkur. John segir afa sínum þolinmóður, að amma hafi það gott hjá guði. Hún hafi farið þangað í fyrra.

Mamma hjálpaði mér alltaf með John, eina barnabarnið, sem hún sá ekki sólina fyrir. Það var nístingssárt að sjá á eftir henni. Mig dreymir oft að við séum úti í guðs grænni náttúrunni, að tína blóm. Mamma vissi allt um blóm, og kom öllum afleggjurum til.  Þá getur stundum verið erfitt að vakna, þegar kaldur raunveruleikinn blasir við. Mamma sagði við mig skömmu áður en hún dó:
„Evelyn, farðu í nám, ég mun hjálpa þér með John. Það er engin framtíð í dósaverksmiðjunni.“

Pabbi Johns hvarf úr lífi okkar þegar John var hálfs árs. Hann kom til Kaupmannahafnar frá Denver, sem atvinnumaður í körfubolta. Við kynntumst á diskóteki, og dönsuðum fram eftir nóttu. Hann var kynþokkafullur og heillaði mig.  

Næsta kvöld fór ég á körfuboltaleik, því ég vissi að hann átti að spila mikilvægan leik. Hann var skærasta stjarnan vallarins, skoraði 24 stig og við vorum nánast óaðskiljanleg eftir leikinn. Ekki leið á löngu þar til John leit dagsins ljós, yndislegur, og líktist meira pabba sínum en mér. En hamingjan varð skammvinn.

Síminn hringdi að kvöldi til, í símanum var kvenmannsrödd sem talaði ensku. Hún kynnti sig og sagðist vera eiginkona pabba Johns og að hún væri að hringja frá Ameríku.  Hún bað mig um að láta eiginmann sinn í friði. Hann ætti fjölskyldu, sem biði hans í Denver, og  þar væru tvö börn sem söknuðu föður síns.

Pabbi Johns flutti skömmu seinna til USA. Hann reyndi að afsaka sig og sagði að það væri erfitt fyrir hann að kveðja okkur. Ekkert hefur heyrst frá honum síðan.

Áfallið var mikið, mig grunaði aldrei neitt og hafði á tilfinningunni að allt léki í lyndi á milli okkar.  John spyr mig stundum af hverju hann eigi ekki pabba eins og önnur börn.

Við komum á hótelið „Tres amigos“ rétt eftir hádegi. Hitinn er þægilegur og hótelið vinalegt. Þegar við erum að innrita okkur og fá lykil  hringja tveir óþreyjufullir borðsímar, það er ös í gestamóttökunni og margir sem bíða.

Mér finnst eins og ókunnug augu fylgi mér eftir, horfi jafnvel stíft á mig. Sólbrúnn karlmaður stendur í móttökunni og flettir ferðabæklingi, ég horfi í áttina til hans og augu okkar mætast. Ég sé ekki betur en að bros færist yfir hraustlegt andlitið.

Maðurinn er í stuttbuxum og hvítum stuttermabol og ber þess merki að hafa verið á sólarströnd í einhvern tíma. Hárið er ljóst eins og það hafi lýst og mér sýnist glitta í gullkeðju um hálsinn.

—————————

Ég hef aldrei verið sólbaðstýpan, enda með viðkvæma húð og freknur, eins og flestir rauðhærðir. Sólarlandaferðin er aðallega farin fyrir John, og ég auðvitað stálheppin að Lea slóst með í för. Þetta er fyrsta ferð Johns til útlanda, en ég hafði lofað honum ferðinni áður en fyrsti skóladagurinn rynni upp.

—————————

Það er hægur andvari og hitinn notalegur. Þetta kvöld var kyrrð og ró því hljómsveitin sem heldur uppi fjörinu var í fríi.

Ég og Lea skáluðum í freyðivíni og horfðum á stjörnubjartan himininn á meðan John svaf vært á fallega koddaverinu frá Leu.

Við ræddum um heima og geima, og ég trúði Leu fyrir því, að það væri erfitt að vera einstæð móðir. Að bera alla ábyrgðina ein, og eiga ekki skyldmenni sem geta hlaupið undir bagga.

„Hvað verður um John, Lea, ef það kemur eitthvað fyrir mig? Þetta er erfið hugsun, sem hefur þvælst fyrir mér síðan mamma dó,“ sagði ég hálf klökk.

„Uss- suss ekki hafa áhyggjur af því  Evelyn, þú veist að ég kæmi John alltaf til hjálpar“ svaraði Lea. Við duttum snemma út af, eilítið hífaðar, þreyttar vinkonur.

Nú sé ég manninn aftur, sem fylgdi mér eftir í gestamóttökunni.  Hann situr undir sólhlíf, drekkur bjór og úðar í sig kartöfluflögum. Hann er hreystin uppmáluð, skokkar til okkar og kynnir sig.

„Ég heiti Leó,“ segir hann um leið og hann réttir John íspinna.
„Þú ert Evelyn, ekki satt?“ spyr hann.
„Jú, ég heiti Evelyn, en hvernig vissurðu það?“ spyr ég undrandi.

Hann segist hafa heyrt mig segja nafnið mitt í gestamóttökunni. Furðulegt hugsa ég, mér liggur ekkert sérstaklega hátt rómur.

Ég finn að Leó veitir mér meiri athygli en Leu en ég er enn varkár eftir sjokkið með pabba Johns.
Leó heldur áfram: „Þetta er í 11. skiptið sem ég kem hingað á Tres amigos hótelið, svo spyrjið mig bara, því ég veit ýmislegt um staðinn.“ Lea kinkar kolli og brosir, en mér verður fátt um svör. Furðuleg framhleypni finnst mér.

Leó bætir við: „Ég er með systur minni og mági, ásamt dóttur þeirra sem er á sama reki og strákurinn, hvað heitir hann annars?“
„Sonur minn heitir John“, svara ég og í sömu andrá kemur stelpan. Hún og John stökkva saman út  í  barnalaugina.

Þegar fer að líða á Spánarferðina, býður Leo okkur öllum út að borða. Hann stingur upp á sænskum veitingastað nálægt hótelinu, þar séu í boði kjötbollur, þær bestu sem hann hafi smakkað. Jafnvel enn  betri en sænsku kjötbollurnar í Ikea, bætir hann við.

Lea afþakkar kurteislega boðið, hún segist ætla snemma í háttinn og hvetur mig til  að skreppa, ef mig langi til að fara. Hún sé til í að gæta Johns, og bætir við að þau geti spilað Lúdó.

Það kemur mér á óvart, hvað það kitlar hégómagirndina að fá þessa miklu athygli, svo snögglega. Auðvitað er það tilbreyting frá hverdagslegu lífinu, þar sem allir dagar eru keimlíkir. Smám saman verð ég  spennt fyrir Leo, hann er sannarlega myndarlegur en kannski svolítið sjálfhverfur. Hann talar mikið um sjálfan sig.

Þegar við erum úti að borða, þá hellir hann fyrst hvítvíni í sitt glas, gleymir að hella í mitt.

Hann klikkar á svona hlutum, en það er örugglega algengt, hugsa ég og spái ekki meira í það.

 Hann spyr lítið um mína hagi, en það er allt í lagi, ég er bara fegin. Það er ekki beinlínis skemmtiefni að segja frá dósaverksmiðjunni, þar sem þurrmjólk er aðal inntak dagsins. Eða að segja frá pabba mikið veikum.

Og að John minn yndislegi, sé nýgreindur með ADHD, og þurfi bæði reglufestu og umhyggju.

—————————

Leó er atvinnubílstjóri og hefur keyrt bíl félaga síns um tíma, en stefnir að því að kaupa sinn eigin bíl á næstunni, og vera sjálfs síns herra, eins og hann orðar það.

Hann er að bíða eftir íbúð, sem hann fær fljótlega. Leó býr hjá systur sinni og mági, í stuttan tíma. Við ákveðum að hittast aftur þegar ég kem frá Spáni, en  Leó er að fara með Iberia flugfélaginu næsta dag til Kaupmannahafnar.

—————————

Fyrstu vikurnar í sambandinu gengu eins og í sögu.

Leó bauð mér út að borða fljótlega eftir að ég kom frá Spáni, á kósý stað í Nýhöfninni.
Hann talaði um að það væri þreytandi að búa inn á systur sinni og  fjölskyldu, því hún væri smámunasöm og mislynd.
„Læt mig hafa það, því ég á von á leiguíbúðinni innan skamms“ bætti hann við.

Hann drakk ótæpilega, bæði af hvítvíni og bjór. Honum mislíkaði eitthvað við þjóninn og  barði í borðið. Ég ákvað að bjóða honum heim á eftir í kaffisopa og staup af Grand Marnier.

Síðan spurði ég í mesta sakleysi um íbúðina, sem hann væri að bíða eftir, hvort hann þurfi ekki að reka meira á eftir henni. Það væri glatað að búa inn á systur sinni.

Hann reiddist snögglega og ég fékk hnefann af fullum þunga í upphandlegginn. Ég varð gjörsamleg miður mín og hugsaði með mér hvað ég væri eiginlega komin út í.
Leó baðst innilega afsökunar og sagðist ekki vita hvað hefði komið yfir sig.

Við töluðum lítið saman næstu daga og andrúmsloftið var þvingað, en hann spurði mig hvort  hann mætti búa hjá mér, þangað til hann fengi íbúðina. Ég var á báðum áttum, en samþykkti.

Nokkrum dögum seinna, kom hann heim með risastórt rósabúnt. Hann sagðist hafa farið á  myndbandsleigu þar sem hann leigði vinsæla fjölskyldumynd. Við horfðum öll  þrjú saman. Hann eldaði matinn og spurði hvort hann eigi ekki að láta renna í bað fyrir mig, ég sé örugglega þreytt eftir puð vikunnar.
Mér fór smá saman að líða betur, Leó líktist meira þeim manni sem ég kynntist á Spáni.

Allt var eðlilegt  um tíma, svo komu dagar þar sem hann bannaði  mér að vera í sambandi við Leu.  Hann vildi meina að hún hefði ekki góð áhrif á mig. Það væri í henni fíflalegt menntasnobb, þó hún sé uppeldisfræðingur og frönskumælandi.

Það  kostaði  þrætur og annað högg, því ég samþykkti ekki að slíta sambandi við Leu. Ég fór samt  eftir því,  því ég dró úr sambandinu, án þess að gera mér fulla grein fyrir því.

Leó sótti mig alltaf í vinnuna. Það var í fyrstu þægilegt, því það voru svo margir í vagninum seinnipartinn. Hann spurði mig aldrei  hvort ég vildi verða sótt, heldur kom hann og beið fyrir utan, þar til ég birtist. Það hefði verið heppilegra hefði hann spurt hvað ég vildi, og hlustað á hvað ég segði.

Aftur á móti hvatti hann mig til að heimsækja pabba oftar, það væri aldrei að vita hversu lengi hann lifði.  Hann væri alveg til í að bíða fyrir utan meðan að ég sæti smá stund hjá honum, bara sjálfsagt mál sagði hann.  

Leó var til að byrja með góður við John, en það breyttist. Hann lét hann annað hvort afskiptalausan, eða bannaði honum að ólmast. Þegar Leó fannst John vera með of mikinn hávaða, þá tók hann drenginn og skutlaði honum inn í herbergið sitt.

Hann tók því illa þegar ég fann að þessu, sagði að ég væri allt of eftirgefanleg og lin.

Ég varð ringluð á öllum þessum skilaboðum. Suma daga vissi ég ekki mitt rjúkandi ráð en aðrir dagar voru  betri.  Ég þorði samt ekki lengur að mótmæla.

Lea hringdi minna en áður, en síðast þegar við töluðum saman, spurði hún mig beint, hvernig mér líði.  Ég sagði henni að mér líði betur, en ég væri óviss um sambandið.  Ég vildi ekki að hún væri með áhyggjur af okkur, enda styttist í að Leó fengi leiguíbúðina.

—————————

Lea hefur ekki heyrt í Evelyn í tvær vikur og er orðin óróleg eftir skýran draum sem hana dreymdi.  Henni fannst Evelyn vera stödd  í fallegum skrúðgarði, þar sem voru  fjölmargar fallegar blómategundir. Evelyn sagði við Leu í draumnum að hún sé á förum til mömmu sinnar, sem bíði hennar.

Lea hrökk  upp í svitabaði, klukkan var að verða tíu. Það fyrsta sem henni datt í hug var að hringja í verksmiðjuna og spyrjast fyrir um Evelyn.

Yfirmaðurinn svaraði símanum og sagði Leu, að Evelyn væri ekki í vinnu. Hann hafi ekkert heyrt frá  henni í morgun og það sé ólíkt henni að tilkynna ekki fjarveru.

Leu bregður og hún keyrir heim til Everlyn og hringir  bjöllunni. Ekkert svar. Lea bíður góða stund og hringir síðan aftur, ekkert svar.

Lea hringdi í lásasmið og  lögregluna. Þegar löggan kemur og opnar svefnherbergisdyrnar blasir við ófögur sjón. Evelyn liggur dáin í rúminu, með mikla áverka á  hálsi.

Lea brestur í grát og hrópar upp yfir sig:
„Af hverju fór ég ekki eftir eigin sannfæringu? Ég hefði getað komið Evelyn til hjálpar“.

—————————

Lea leiðir John þéttingsfast út í fallegu haustlitina, sem umlykja allt.
Hún sýnir honum tvo farmiða til Frakklands, við förum í Disneyland í París í haustfríinu elsku vinur.