Erla Guðný PálsdóttirAf hverju valdir þú almenna bókmenntafræði?

Ég byrjaði að læra ítölsku við komuna í háskólann en ákvað svo að taka einn áfanga í almennri bókmenntafræði, Asískar bókmenntir, þegar ég þurfti að fara að velja mér auka grein þar sem maður getur ekki klárað fullt 180 eininga BA-nám í ítölsku hér á landi. Seinasta árinu þarf semsagt alltaf að ljúka í útlöndum til að geta fengið fulla gráðu. Þá var ekki aftur snúið! Þetta heillaði mig gjörsamlega en ég hafði alltaf verið mjög bókmenntahneigð fyrir.

 Hvað er það áhugaverðasta við námið?

Hvað það var mun fjölbreyttara en ég bjóst við, þar sem þetta fer í alla anga þess sem getur talist til bókmennta. Ég bjóst við því að þetta væri eingöngu fagurfræðilegur lestur, þá í mestu gamlar kanónur og ljóð. En ég komst að því í staðinn að þetta snýst um svo miklu meira þar sem lesefnið flakkar frá gamansögu um Jón stóra, barnabókmenntum, Hómer, endalokabókmenntum, kvikmyndum, leikritum, grískum harmleikjum og getur í raun teygt anga sína í allt það efni sem kemur fram á rituðu formi.

Hvað kom þér mest á óvart varðandi námið?

Það kom mér mest á óvart var hvað maður lærir miklu meira en bara um bókmenntir. Námið snýst mun meira um að læra á lífið og tilveruna, menningu og samfélagið sjálft. Þar sem að flest bókmenntaverk spegla samtíma sinn á einhvern hátt og hugarheim höfunda þó að það sé oft óviljandi. Mismunandi höfundar frá mismunandi menningarheimum og aðstæðum sýna okkur á einstakan hátt nýjan veruleika. Einnig taka bókmenntir oftar en ekki fræðilega á efni og vandamálum, t.d. kjarnorkuvæðingu og loftslagsmálum.

Hvaða námskeið var uppáhalds námskeiðið þitt hingað til?

Uppáhaldsnámskeiðið mitt hingað til er án efa Endalokabókmenntir sem Guðni Elísson kenndi haustið 2017. Forngrískar bókmenntir (BA-námskeið) og námskeiðið Uppreisnarseggir og utangarðsmenn sem er kennt núna á meistarastigi í íslenskum bókmenntum koma sterk inn á eftir því. Forngrískar bókmenntir var námskeiðið sem hefur komið mér mest á óvart þar sem að ég bjóst alls ekki við að það að lesa forngríska harmleiki og annað slíkt gæti verið svona gaman.

Hvaða námskeið ertu að taka núna?

Ég er að taka Uppreisnarseggir og utangarðsmenn (í íslenskum bókmenntum), Forboðnar nautnir og Skáldskapur á mörkunum.

Hvað ætlar/ert þú að skrifa um í lokaverkefni?

Í BA-ritgerðinni minni sem ég skilaði núna í byrjun maí skrifaði ég um margmiðlunarverkefnið Hatara og greindi gjörðir og texta þeirra. Það var leiðinlegt að þurfa að skila ritgerðinni fyrir úrslit Eurovision svo það væri mögulega hægt að halda áfram með verkefnið og bæta meiru við það. Ég hef ekki enn gefið mér tíma í að finna mér viðfangsefni fyrir meistararitgerðina en stefni á að byrja á því í lok þessa misseris.