Fimm hlutir sem krabbameinið kenndi mér
Ég greindist með krabbamein í byrjun árs, 2016, þegar 33 ára. Þrátt fyrir að hafa verið lengi veik og legið inn á spítala þar á undan kom þessi greining eins og þruma úr heiðskíru lofti. Eins og margir aðrir taldi ég mig nánast ódauðlega. Áður en ég veiktist var ég óstöðvandi og fannst ég alltaf þurfa að standa mig fullkomlega í öllu sem ég tók mér fyrir hendur. Ég var metnaðarfull og lifði hratt en taldi mig lifa heilbrigðu lífi. Hreyfði mig mikið og borðaði fjölbreytta fæðu. En ég held að það hafi verið þessar óraunhæfu kröfur sem ég gerði hafi orðið mér að falli að ég hafi brunnið út áður en ég veiktist af lífshættulegum sjúkdómi. Að auki var ég með undirliggjandi áfallastreituröskun sem ég reyndi að horfa fram hjá með því að hafa alltaf nóg fyrir stafni. Ég var greind með krabbamein á loka stigi og ætti tæknilega séð ekki að vera á lífi miðað við þær lífslíkur sem mér voru gefnar. En hvað kenndi þessi reynsla mér?
1) Ég er ekki ódauðleg.
Við viljum stundum gleyma því að það er 100% dánartíðni í heiminum Enginn er ódauðlegur og það er ómögulegt að vita fyrirfram hvenær dauðann ber að garði.
Af sama skapi er dauðinn ekki tabú og það er allt í lagi að ræða hann. Hann er raunveruleikinn og allt í kringum okkur. Þegar krabbameinsgreindur vill ræða mögulega jarðarför sína, ekki skjóta það í kaf og segja að þú viljir ekki heyra á það minnst því hann eigi eftir að lifa krabbameinið af. Þú veist ekkert um það. Þar fyrir utan er sá krabbameinsgreindi að átta sig á því að hann er ekki ódauðlegur og að jarðarför er óumflýjanleg hvort sem hún verði á næsta leiti eða eftir fleiri áratugi og allir ættu að fá að segja eitthvað um sína eigin jarðarför.
2) Lífið er núna.
Krabbamein kenndi mér að lifa fyrir augnablikið þar sem ég veit ekki hvenær lífinu lýkur. Því er nauðsynlegt að lifa í núinu og njóta augnabliksins. Það sama gildir um það þegar þér líður illa. Leyfðu þér að líða illa og ekki afsaka það eða reyna að ýta því til hliðar. Reyndu frekar að átta þig á því af hverju þér líður illa. Leitaðu að rótinni og tæklaðu vandamálið þaðan. Reyndu einnig að halda upp á hvern dag sem sigur útaf fyrir sig. Þú andar ennþá að þér súrefni og hefur ennþá tíma til þess að lifa lífinu og láta drauma þína rætast. Þar fyrir utan er aldrei of seint að breyta til ef þér líður eins og þú finnur fyrir stöðnun í lífinu.
3) Að hlusta á líkamann.
Þú þekkir líkama þinn best. Í löngum og erfiðum veikindum lærir maður einnig að að hlusta betur á líkamann og þekkja það sem er óeðlilegt og það sem er eðlilegt. Ekki hunsa það þegar líkaminn kvartar. Þú þarft ekkert að skammast þín fyrir að leita til læknis vegna þess að þú hefur áhyggjur varðandi heilsu þína. Það er alltaf betra að hafa vaðið fyrir neðan sig.
4) Lífið er of stutt til þess að velta sér upp úr áliti annarra.
Margir eyða of miklum tíma af okkar lífi í það að hafa áhyggjur á áliti annarra á okkur en það er einfaldlega ekki þess virði. Krabbameinið hefur neytt mig til þess að fara í djúpa naflaskoðun. Eitt af því sem gerðist var að öll eldri áföll í lífi mínu, áföll sem ég hafði aldrei unnið úr, flutu upp á yfirborðið samhliða áfallinu af krabbameininu. Sú sálræna vinna sem ég þurfti að fara í kringum það hjálpaði mér að skilja sjálfa mig mun betur en áður. Ég er eins og ég er. Tíminn og reynslan hefur mótað mig. Eins lengi og ég ber virðingu fyrir öðrum þá á ég ekki að þurfa að afsaka það hvernig ég er. Ég er listræn, ástríðufull og lífsglöð. Ef þér líkar það ekki er það einfaldlega ekki mitt vandmál. Það sama gildir um þig. Hvað öðrum finnst um þig á ekki að hafa áhrif á það hvernig þú upplifir eða metur sjálfan þig.
5) Gerðu það sem veitir þér ánægju!
Lífið er of stutt til þess að eyða því í eitthvað sem er leiðinlegt og gefur manni ekkert. Ég er ekki að segja að þú eigir að hætta vinnunni þinni, selja eigur þína og nýta allan tíma þinn í að ferðast ef starf þitt er þér mikilvægt til að lifa af. Nei ég er að segja að það er mikilvægt að velja af kostgæfni það sem þú eyðir þínum tíma og peningum í. Haltu vel utan um tímann þinn, hann er dýrmætur.
Hér fyrir neðan eru nokkrar bækur sem ég get mælt með fyrir þá sem eru að ganga í gegnum eða hafa gengið í gegnum erfiða tíma og vantar upplífgandi og hvetjandi lestrarefni:
Radical Remission: Surviving Cancer Against All Odds eftir Kelly Turner.
Wild eftir Cheryl Strayed.
Finding Water eftir Julia Cameron.
The Subtle Art of Not Giving a F*ck eftir Mark Manson.
The Last Arrow: Save Nothing for the Next Life eftir Erwin Raphael McManus.
Einnig hefur bókin The Body Keeps the Score: Brain, Mind and Body in the Healing of Trauma eftir Bessel A. van der Kolk, hjálpaði mér að skilja betur áfallastreituröskun sem oft er fylgifiskur erfiðra veikinda.