Brynja úr blómum:
Um Hayley Williams og hljómplötuna Petals for Armor

Hayley Nichole Williams fæddist þann 27. desember árið 1988 í Mississippifylki í Bandaríkjunum en flutti með móður sinni til Tennesse árið 2002 og býr þar enn í dag. Williams er best þekkt fyrir að vera söngkona og textahöfundur hljómsveitarinnar Paramore, sem hún stofnaði aðeins 15 ára að aldri. Hún hefur þó einnig ljáð öðrum listamönnum rödd sína á ferlinum. Til að mynda söng hún inn á smellinn Airplaines (2010) með rapparanum B.o.B., Stay the Night (2013) með Zedd og Bury It (2016) með hljómsveitinni Chvrches. Það var þó ekki fyrr en í byrjun þessa árs sem Williams gaf út sína fyrstu sólóplötu, Petals for Armor. Platan samanstendur af 15 lögum sem hún gaf út í þremur hlutum, 5 lög í senn. Titilinn segir Williams vera vísun í það að besta leiðin fyrir hana til þess að vernda sig er að vera viðkvæm og er hann einnig í samræmi við eitt af helstu þemum plötunnar sem er kvenleiki en Williams tengir hann mikið við blóm.

Williams byrjaði að semja lög fyrir plötuna árið 2019 en það var sálfræðingurinn hennar sem hvatti hana til þess að skrifa lagatexta til þess að vinna úr tilfinningum sínum. Williams hefur verið opin um þær sálfræðimeðferðir sem hún hefur verið í frá því að Paramore lauk síðasta hljómleikaferðalagi sínu árið 2018. Williams glímir við þunglyndi og áfallasteitu sem hún rekur til ýmissa atvika í lífi sínu, þar á meðal sambandinu við fyrrverandi eiginmann sinn en hún skildi við hann árið 2017 eftir 10 ára samband.

Fyrsta lag plötunnar, Simmer, ber merki um þessa miklu sálarangist Williams en þar er hún greinilega að vinna úr mikilli reiði eins og má heyra í fyrsta erindi lagsins:

Rage is a quiet thing

Ooh, you think that you’ve tamed it

But it’s just lying in wait

Rage, is it in our veins?

Feel it in my face when

When I least expect it

Annað lag plötunnar, Leave It Alone, tekur einnig fyrir sterka tilfinningu, sorg, en þar fjallar Williams meðal annars um þann harm sem hún upplifði þegar amma hennar fékk höfuðhögg sem olli minnistapi. Í laginu má greina mikinn trega en hún segir guð hafa gott skopskyn þar sem allir sem hún elskar eru að deyja nú þegar hún vill sjálf loks lifa. Þá varar hún hlustendur við þeirri sorg sem fylgir ástinni:

If you know love

You best prepare to grieve

Let it enter your open heart and

Then prepare to let it leave

 

Í fjöruga popplaginu Dead Horse gerir Williams upp samband sitt við fyrrverandi eiginmann sinn. I beat it like a dead horse, I beat it like a drum / Oh, I stayed with you too long syngur hún í viðlaginu og minnist á hversu glöð hún er að hafa lifað sambandið af. Williams  „málar“ sig þó ekki sem engil og segist hafa fengið það sem hún átti skilið þar sem samband þeirra hafi byrjað með framhjáhaldi þar sem hún var „hin konan“. Með laginu gerir Williams hreint fyrir sínum dyrum og er ekki að fegra neitt, sem hún sannar þegar hún syngur When I said goodbye, I hope you cried endurtekið í brú lagsins.

Platan einkennist af mikilli hreinskilni að hálfu Williams sem opnar sig fyrir heiminum í textum laganna. Lögin er öll mjög persónuleg og fjalla mörg um erfiðar tilfinningar líkt og reiði og sorg en þau fjallar líka um ást. Þó nokkur lög á plötunni eru um það að verða ástfangin og lagið My Friend er nokkurs konar óður til vináttu. Lagið Roses/Lotus/Violet/Iris, þar sem Julien Baker, Phoebe Bridgers og Lucy Dacus sem eru saman í hljómsveitinni boygenius syngja bakraddir, einkennist mikið af því myndmáli sem tengist kvenleikanum og blómum og gengur eins og rauður þráður í gegnum plötuna. Í laginu syngur Williams um það hvernig konur ættu, líkt og blóm í garði, ekki að metast sín á milli um fegurð og einbeita sér að því að vaxa og dafna.

Í laginu má einnig greina áhrif íslensku tónlistarkonunnar Bjarkar á Williams, en hún var einn helsti innblásturinn við gerð plötunnar að sögn Williams sem varð einnig fyrir áhrifum frá tónlistarfólki á borð við Solange, SZA, James Blake og Radiohead. Williams er jafnframt óhrædd við að vera tilraunakennd en hún notaðist við margar mismunandi tónlistartegundir á plötunni líkt og indí, popp, fönk, 80s popp, jaðarrokk (e. alternative rock), og ryþmablús (e. rhythm and blues/R&B). Samt sem áður stendur platan Petals For Armor sem ein heild og er, eins og flestir gagnrýnendur eru sammála um, einstaklega góð.